Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:50:00 (2680)

2000-12-05 13:50:00# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er stutt síðan við hæstv. landbrh. áttum orðaskipti um hugsanlegar smitleiðir í íslenska kúastofninn, þ.e. með innflutningi á norskum fósturvísum. Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómurinn er alvarlegur sjúkdómur og því er eðlilegt að það sé og hafi verið hart brugðist við kúariðusmiti á Evrópumarkaðnum. Smitsjúkdómar eiga sér engin landamæri. Við ferðumst út um allan heim. Vörur eru sendar heimshornanna á milli og því verður að sýna alla gát.

En þegar fréttir bárust um að til stæði að banna fiskimjöl í dýrafóður var okkur brugðið því að við eigum að vita að kúariðusmit er ekki í fiski og berst ekki með fiskimjöli. En því miður gerast hlutir eins og þessir. Stundum er brugðist við með pólitískum leik en ekki með rökum. Og því miður var ástæða fyrir því að þetta bann átti einnig að ná til fiskimjöls því að til eru framleiðendur sem hafa haft óhreint mjöl í pokahorninu og blandað kjötmjöli saman við fiskimjölið. Gróðafíkn rekur marga áfram. Við verðum að standa vörð um okkar framleiðslu og við verðum að láta stundarhagsmuni víkja fyrir möguleikum okkar til að framleiða hreina og trúverðuga vöru. Við unnum þessa baráttu. En við verðum að auka eftirlit og rannsóknir og við verðum að uppfylla ýtrustu kröfur um hreina framleiðslu.