Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:07:21 (2719)

2000-12-05 17:07:21# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski vottur um lítillækkun þess sem hér stendur að hann þarf að lækka púltið eftir að þessir stóru menn hafa talað hér, hv. þingmenn. En ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir ítarlega ræðu um þetta mál sem fjallaði m.a. um það löngum hverjir væru í salnum meðan hv. þm. var að tala og hverjir ekki og hverjir sýndu máli hans áhuga og hverjir ekki. Ég vil fullvissa hv. þm. um að ég hlýddi á mál hans af miklum áhuga og var að velta fyrir mér orðum hans þegar hann fjallaði efnislega um málið.

Að sjálfsögðu tel ég rétt að ríkisstjórnin standi við þá yfirlýsingu sem var gefin í tengslum við kjarasamninga og ríkisstjórnin er vön við þær yfirlýsingar sem hún gefur og það verður að sjálfsögðu farið yfir þetta mál allt saman út frá því sem hið virðulega Alþýðusamband segir um málið. Meðal annars stendur til að fjalla um málið aftur í efh.- og viðskn. milli 2. og 3. umr. þannig að frekara tóm gefist til að ræða um þennan þátt málsins.

Það sem kemur mér á óvart er hins vegar að ég þykist skynja klofning í Samfylkingunni í afstöðu til þessara mála yfirleitt vegna þess að þegar ég hlýði á málflutning Samfylkingarinnar þegar fjárlagafrv. er til umræðu er kvartað mikið undan aðhaldsleysi í opinberum búskap og svo þegar kemur að þessu máli er allt í lagi að sýna þetta aðhaldsleysi. Ég fullvissa hv. þm. um að mér þykir afar skemmtilegt að lækka skatta og leiðinlegt að standa í því að þurfa að gera eitthvað sem telst til skattahækkunar. Hins vegar er það einu sinni þannig að við sem sitjum í hv. efh.- og viðskn. erum vinir ríkissjóðs.