Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:33:08 (2733)

2000-12-05 18:33:08# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum tengist frv. sem varð að lögum í síðustu viku um tekjustofna sveitarfélaga þar sem ákveðið var að gefa sveitarfélögunum heimild til útsvarshækkunar, annars vegar upp á 0,66% á næsta ári og síðan til viðbótar 0,33% árið þar á eftir eða samtals 0,99%. Annað efni í því frv. var lækkun fasteignaskatts.

Í því frv. sem við ræðum nú er gert ráð fyrir að tekjuskatturinn verði lækkaður um 0,33%, en út af standa 0,66% sem verður þá skattahækkun á fólk.

Fasteignaskatturinn hefur löngum þótt mjög ósanngjarn víða út um byggðir landsins vegna þess að eignir þar eru í engu sambærilegu verðgildi og á Reykjavíkursvæðinu en við það var fasteignaskatturinn miðaður áður en lögunum var breytt í síðustu viku og ber auðvitað að fagna þeirri leiðréttingu. Hún var löngu tímabær. En mér finnst varla hægt að nota það sem góð rök í þessu máli að nú skuli gjaldstofn fasteignaskatta vera raunvirði fasteigna á landsbyggðinni.

Staðreyndin er sú að landsbyggðarfólk hefur greitt ósanngjörn fasteignagjöld í mörg ár og ekki í neinu samræmi við verðgildi þeirra eigna sem fólk á þar miðað við það fasteignaverð sem víða viðgengst á landsbyggðinni. Því miður hefur fasteignaverð á landsbyggðinni lækkað af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þeirrar stefnu sem stundum hefur verið kölluð byggðastefna og ég hef leyft mér að kalla eyðibyggðastefnu í flestum ræðum mínum og held að það sé nokkuð mikið réttnefni eins og sú þróun hefur verið og þó að fasteignaverð á Reykjavíkursvæðinu hafi hækkað, þá hefur alveg þveröfug þróun verið sums staðar á landsbyggðinni.

Ég veit ekki hvort hægt er að tala um einhverja réttlætingu í þá veru þó að afleiðingin verði sú við þessa breytingu að heildarskattar verði hærri á suðvesturhorninu en á landsbyggðinni. Ég lít ekki svo á að hægt sé að réttlæta neitt með því. Þó svo landsbyggðarfólk hafi búið við ósanngjarna skattlagningu í fasteignasköttum í mörg ár, þá held ég að það verði ekki leiðrétt með því að skattar verði auknir meira á suðvesturhorninu en á landsbyggðinni.

Ég held að rétt væri að koma til móts við þá skattahækkun sem örugglega mun fylgja þeirri samþykkt sem gerð var hér í síðustu viku um tekjustofna sveitarfélaga og ég lýsti þá yfir að ég styddi, enda mundi ég jafnframt styðja tillögu um að lækka tekjuskattshlutfall ríkisins á móti til þess að ekki væri um beina skattahækkun að ræða.

Það hlýtur að vera mikið umhugsunaratriði við þær lagfæringar á tekjum yfir til sveitarfélaganna sem safnað hafa skuldum í áratug að það gerist ekki með þeim hætti að almenn skattahækkun verði á landsmenn, en það virðist ætla að verða svo framarlega sem stjórnarliðar ætla ekki að hlusta á nein rök í málinu varðandi það sem hér hefur verið leitt fram. Í því sambandi langar mig til að benda á það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Kristján L. Möller, rifjaði upp vegna samanburðar af stöðu fólks í nokkrum byggðum á Norðurlandi vestra. Það sem ég vil í rauninni segja um þetta mál er að ég mun styðja þá hugmynd sem komið hefur fram frá Samfylkingunni um að ríkið lækki tekjuskatt þó að sveitarfélögin séu í þeirri stöðu mörg hver að þurfa að nota útsvarshækkunina alveg í topp til að auka tekjur sínar vegna þess að þau eru einfaldlega það illa stödd mörg hver með þjónustu sína og tekjur að þau eiga engan annan kost, þá held ég að það sé ekki rétt að samfara slíkri lagfæringu, sem er lagfæring á söfnun skulda í heilan áratug eins og komið hefur fram í skýrslu tekjustofnanefndar, komi til sérstakrar skattahækkunar á fólk.

Mig langar aðeins að víkja að því sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., vék að áðan. Þegar hann var að ræða um hvort hér væri um heildarskattahækkun að ræða eða ekki, þá benti hann ef ég tók rétt eftir á barnabæturnar sem áform eru um að hækka. Þá hlýtur maður að spyrja: Voru þær tillögur settar fram með sérstöku tilliti til þess að færa rök fyrir því að skattahækkunin væri ekki eins mikil á barnafólk og tillögurnar sem núna stendur til að samþykkja í þessu frv. gætu borið með sér? Var það svo að stjórnarliðar kæmu fram með tillöguna um hækkun barnabóta eingöngu til þess að vega á móti því sem nú stendur til að gera í tekjuskattsmálunum? Mér fannst þetta hálfpartinn liggja í svari hv. þm. Vilhjálms Egilssonar áðan og væri gott ef hann vildi skýra það aðeins út fyrir mér hvort þetta hafi verið hugsað allt í þessu samhengi, barnabætur, útsvarshækkun sveitarfélaganna, niðurfelling fasteignaskattsins niður á raunvirði á landsbyggðinni sem löngu er tímabært og síðan þessi 0,33% lækkun á tekjuskatti sem ríkisstjórnin boðar og eftir standi þá skattahækkun almennt hjá fólki.

Ég tók eftir því í umræðunum í dag að rætt var um skattastefnu sem var kynnt í umræðum í gær og var á þá leið að félmrh. kynnti þá stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja niður markaða tekjustofna eins og t.d. til málefna fatlaðra úr erfðafjárskatti, það væri almenn stefnumótun ríkisstjórnarinnar að leggja niður sérstaka markaða tekjustofna til ákveðinna verkefna. Ég tók það svo að það væri almenn stefna sem stjórnarmeirihlutinn stæði að. Síðan var hæstv. utanrrh. í dag að kynna sérstaka tekjustofna fyrir Útflutningsráð sem er þá alveg hin hliðin á málinu, þ.e. annan daginn er verið að tala um að verið sé að leggja niður sérstaka markaða tekjustofna og það samrýmist ekki nútímafjármálastjórn að hafa það inni í kerfinu og daginn eftir er síðan lagt til að tryggðir verði sérstakir tekjustofnar, í þessu tilfelli til Útflutningsráðs. Mér fannst í þeim málflutningi að á mánudegi væri ekki talað fyrir sömu stefnu og á þriðjudegi.

Hægt er að hafa langt mál um skattlagningu á fyrirtæki og þá sem eru í atvinnurekstri. Ég hef heyrt í máli manna að lagt hefur verið mikið upp úr því að menn þyrftu að lækka skatta á fyrirtæki og liðka þar fyrir með öllu mögulegu móti. Ég ætla ekki að tala fyrir því að vera sérstakur áhugamaður um háa skatta, hvorki á fyrirtæki né einstaklinga. En í mjög merkilegu svari sem vitnað var einnig til í dag við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um skatta á útgerðarfyrirtæki, þá birtist á blaði, sem ég hef svo sem vitað í mörg ár og hef bent á áður í umræðum, að útgerðarfyrirtæki landsins, jafnvel þau stærstu, greiða ekki neina tekjuskatta, eru í því að nýta sér skattalegt hagræði, safna saman tapi með sameiningu og kaupum og það eru í raun og veru þegnar landsins sem á undanförnum árum eða jafnvel áratugum hafa staðið að því að greiða tekjuskatta. Útgerðarfyrirtækin hafa ekki verið þátttakendur í því svo neinu nemur. Þrátt fyrir að hér séu talin upp 20 stærstu fyrirtækin sem eigi rúmlega helminginn af þorskígildunum eru ekki nema tvö af þeim sem greiða tekjuskatt á árinu 1998 og þrjú á árinu 1999. Og ætli síðasta sameiningin sem átti sér stað við Eyjafjörð hafi ekki að stórum hluta verið vegna skattalegs hagræðis, færa bara 1,7 milljarða kr. ef ég man rétt sem var færanlegt tap frá KEA yfir til Samherja. Svona eru þessi mál. Ég veit ekki hvort þarf nokkuð að bæta í varðandi það að fyrirtækin komist fram hjá skattgreiðslum eða einstaklingar sem hafa verið að taka fé út úr atvinnuvegunum komist hjá skattgreiðslum með frestun á söluhagnaði. Mér sýnist samkvæmt því sem áður var sagt að mönnum hafi tekist það alveg prýðilega að vera skattlausir í þessu landi.

Það má síðan í lokin minna á að verið er að reyna að beita fyrir alþjóðleg viðskiptafélög með sérstökum skattaívilnunum og til þess fá menn fjármuni á hverju ári að laða þau til landsins. Ef ég man rétt er sérstakur samstarfssamningur við Verslunarráð Íslands sem er í því að kynna að það sé aðlaðandi fyrir alþjóðleg viðskiptafélög að starfa hér á landi vegna sérstaks skattalegs hagræðis. Það var svo sem á bætandi við það sem á undan hefur verið vitnað til hér, annars vegar um skatta fyrirtækja sem hafa safnað til sín meira en helmingnum af öllum aflakvótum á Íslandsbyggðum og hins vegar þær upplýsingar sem komið hafa fram á síðustu dögum um hvernig einstaklingum hefur tekist að komast hjá skattgreiðslum af söluhagnaði. Það væri svo sem að vonum að við þyrftum að huga sérstaklega að því að búa til fleiri undanskot í þá veru að fyrirtæki borgi ekki skatta.