Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:01:11 (2815)

2000-12-06 14:01:11# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Auðvitað erum við öll sammála um það, hæstv. iðnrh., að það þarf að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. En það er bara ekki alveg sama hvernig það er gert. Það er sama hvernig hv. stjórnarliðar láta. Það hefur hverfandi minnkun á losuninni að reisa álver á Íslandi, hverfandi minnkun hnattrænt, og við getum gert svo miklu meira með því að einbeita okkur að því að minnka losun í öðrum geirum. En þetta virðist hæstv. ríkisstjórn hreinlega ekki skilja.

Vegna orða hv. þm. Árna Ragnars Árnasonar vil ég taka það fram að það er lykilatriði í rammasamningnum um loftslagsbreytingar að þar beri allar þjóðir sameiginlega ábyrgð en mismunandi mikla byrði og þeir sem bera mesta byrði, hv. þm., eru þeir sem hafa mestar forsendur til þess, sem hafa mengað mest og eiga mesta peninga. Þetta er ekki mikið flóknara en það. (ÁRÁ: Þetta má lesa í gögnum ...) Herra forseti. Gæti ég fengið frið til að tala?

Við Íslendingar búum við einstakar aðstæður. Það fer ekkert á milli mála. Við eigum mikið af endurnýjanlegum orkulindum og það er einstakt. En það er ekki sama hvernig þær eru nýttar og í hvað þær fara. Hvað ætlar hv. þm. Hjálmar Árnason að gera þegar vetnisdraumarnir rætast, þegar hann verður búinn að eyða orkunni í eitthvað annað? Veit hann hvað þarf mikla orku í það? (HjÁ: Já, já.) Hann veit það, já. Væri ekki ráð, hv. þm., að hafa vaðið fyrir neðan sig, að ljúka við rammaáætlunina, að skipuleggja fram í tímann? Við erum að tala um loftslagsbreytingar sem munu eiga sér stað hér á næstu 25, 50, 100 árum. (HjÁ: Maður á að kynna sér málið.) Þá verðum við öll löngu dauð. En það er annað fólk sem tekur við þeim arfi. (Gripið fram í: Því þá að hafa áhyggjur af þessu?)