Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:44:59 (2878)

2000-12-07 10:44:59# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:44]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Ég vil sérstaklega þakka svör ráðherra. Eins og skýrt kom fram í fréttum í morgun þá er því borið við, af þeim sem eru að undirbúa rekstur einkavædds sjúkrahúss, að hin opinbera þjónusta sé hrunin eða uppfylli á engan hátt þarfir heilbrigðisþjónustunnar í landinu og því verði að einkavæða heilbrigðisþjónustuna og bæta þjónustuna.

Það verður að skilgreina hugtakið einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Í dag er umtalsverð þjónusta veitt með einkarekstri, þjónusta sem greidd er af ríkinu. Í dag eru greiddir meira en 3 milljarðar til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu. 3,3 milljarðar fara af ríkisfé inn í þennan einkarekstur. En er það þá einkarekstur? Með auknum einkarekstri verður til mismunun og er dýrari þjónusta í heildina.

Það vantar fé til heilbrigðisþjónustunnar. Ég hvet hæstv. heilbrrh. til að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna við fjárlagagerðina núna og veita það fé í þjónustuna sem talið er að þurfi til að standa undir kröfum almennings. Það mundi kippa stoðunum undan þeim viðbárum sem heyrst hafa, að ónóg þjónusta kalli á einkavæðingu.