Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:50:53 (2881)

2000-12-07 10:50:53# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:50]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í framhaldi af ræðu síðasta hv. þm. er rétt að spyrja hvaða ástæða skyldi vera fyrir því að ekki er hægt að nýta þá aðstöðu sem til staðar er í þeim stofnunum sem fyrir eru. Skyldi það hafa eitthvað með það að gera að ekki er veitt nægilegt fjármagn, til þessa málaflokks til að unnt sé að nýta þjónustuna eftir bestu getu?

Það er alveg makalaust að halda því fram að hægt sé að bæta úr ástandinu með því að byggja fleiri skurðstofur. Ég á mjög erfitt með að átta mig á þessu samhengi, herra forseti. Það sem skiptir máli í umræðunni er það að greinilega er mjög sterkur pólitískur vilji fyrir því innan Sjálfstfl. að farið sé út í frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Hann kom skýrt fram hjá hv. þm. Ástu Möller sem talaði áðan. Ég vil minna á það í því samhengi, herra forseti, að menn skoði samhengið á milli þessara 3,3 milljarða sem hv. þm. Ásta Möller nefndi. Hvaðan hafa þeir komið? Úr ríkissjóði. Hvar er hagræðingin sem hlaust af einkarekstrinum? Það sem hefur nákvæmlega gerst er að með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu hafa útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins aukist. Við skulum muna það líka í umræðunni.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. heilbrrh. hyggst standa fast á sínu og stefnu sinni í þessu máli en hvet jafnframt til þess að málið sé tekið upp á Alþingi. Ég óttast ef það er einungis undir einum ráðherra komið að veita leyfið og það þurfi ekki að koma til kasta Alþingis að taka svo áhrifamikla stefnubreytingu sem þetta mundi hafa í för með sér. Hvar stöndum við ef til þess kemur að Sjálfstfl. tekur við heilbrrn., herra forseti? Það er það sem ég óttast vegna þess að þar á bæ hafa helstu hugmyndafræðingar þeirra m.a. lýst því yfir að ekkert sé að því að leyfa efnahag manna að ráða því hverjir séu fyrstir á biðlistunum.