Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:38:02 (2897)

2000-12-07 11:38:02# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er gerð tillaga um breytingu á lögum um eftirlit með útlendingum á þá leið að útlendingar eigi ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum. Í grg. með frv. kemur fram að samþykkt Dyflinnarsamningsins sé forsenda þess að við getum gengið inn í Schengen-samstarfið en samkvæmt áætlunum á það að taka gildi 25. mars nk.

Fyrir Alþingi liggur annað frv., frv. til laga um útlendinga mun það heita, og tekur það yfir þau lög sem hér er verið að gera breytingu á, lög um eftirlit með útlendingum. Ég tek undir það sjónarmið að eðlilegast hefði verið að fjalla um þetta mál heildstætt, að taka ekki þessar lagaklásúlur út úr hinum stóra lagabálki heldur taka á því heildstætt. En á móti eru reidd fram þau rök að ólíklegt megi heita að hitt frv. verði orðið að lögum fyrir fyrrnefnda dagsetningu, 25. mars, og þá þurfi að taka afstöðu til þessa máls.

Mjög vandfundin er línan á milli þeirra sjónarmiða sem gerð hefur verið grein fyrir við þessa umræðu og umfjöllun um þessi efni almennt, annars vegar mannréttindasjónarmiðum, að standa vörð um mannréttindi þeirra sem eru vegalausir, og svo hins sjónarmiðsins sem einnig hefur verið haldið á lofti að við eigum að gæta að því að opna ekki landið fyrir hverjum sem er, hugsanlega óprúttnu fólki sem hingað vill koma.

Ég vil í áherslum mínum leggja lið þeim sem taka undir með mannréttindasjónarmiðunum og set ákveðin spurningarmerki við þau rök sem koma fram í grg. með frv., en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma ákvæði um í hvaða ríki eigi að fjalla um umsókn um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar. Samningnum er ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og koma í veg fyrir að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Með samningnum er því bætt réttarstaða þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu.``

Það er við þessa síðustu setningu sem ég set ákveðin spurningarmerki, vegna þess að síðar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig getur hvert aðildarríki tekið umsókn til meðferðar þótt því sé það ekki skylt, enda samþykki umsækjandi það. Þá færist ábyrgð á meðferð beiðni til þess ríkis.``

Með öðrum orðum getum við ef við viljum veitt fólki hæli, því fólki sem óskar eftir því. Við erum því ekki að bæta réttarstöðu einstaklinganna sem hingað koma og vilja fá landvist og vegabréf með samþykkt Dyflinnarsamkomulagsins. Við erum ekki að gera það vegna þess að við höfum möguleika á að gera þetta, við höfum haft þessa möguleika og munum hafa þá eftir sem áður, þannig að ekki er verið að gera grundvallarbreytingu á þessu. Okkur er í sjálfsvald sett að taka á móti fólki og veita því full réttindi. Það breytist því ekkert þannig séð fyrir einstaklinginn.

Það sem breytist hins vegar er réttur ríkisins, okkar sem ríkis að vísa fólki frá okkur. Við styrkjum réttarstöðu ríkisins gagnvart útlendingum sem hingað koma og fáum lögbundna og samningsbundna heimild til að vísa fólki á dyr.

Og þá þurfum við að hyggja að því hvað hefur verið að gerast í þessum efnum. Ég beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. sl. vor um hve margir hefðu sótt um hæli af pólitískum ástæðum eða af mannúðarástæðum á síðustu fimm árum. Í svarinu kom fram að árið 1995 hefðu fjórir útlendingar sótt um hæli hér á landi og var öllum veitt dvalarleyfi, sem undirstrikar það sem ég sagði áðan að okkur er í sjálfsvald sett að veita slíkt leyfi ef við viljum. Árið 1996 sóttu fjórir um hæli og voru tveir sendir til baka, til Danmerkur í því tilviki. Árið 1997 sóttu sex um hæli, af þeim fengu fimm dvalarleyfi. Árið 1998 sóttu 24 um hæli og af þeim voru sex endursendir til nágrannaríkja og tveir hurfu á brott áður en til afgreiðslu málanna kom. Árið 1999 sóttu 25 um hæli.

Nú hefur það verið gagnrýnt hvernig við stöndum að málum gagnvart útlendingum sem hafa leitað hælis hér á landi sem pólitískir flóttamenn. Þetta var gert að umræðuefni í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu, þar á meðal í ríkissjónvarpinu. Í frétt ríkissjónvarpsins 26. nóvember kom fram að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefði undir höndum fimm úrskurði Útlendingaeftirlitsins þar sem hælisleitenda hefði verið synjað um landvist á grundvelli laga um eftirlit með útlendingum, væntanlega þeim lögum sem eru hér til umfjöllunar, lögum nr. 45/1965, en samkvæmt þeim lögum skal útlendingur sem sækir um landvist hafa gilt vegabréf og farseðil til baka, geta kostað framfærslu sína, hafa fjölskyldutengsl við Ísland og sækja um dvalarleyfi áður en hann kemur til landsins.

[11:45]

Bjarney Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofunnar, sagði aðspurð í umræddu sjónvarpsviðtali, með leyfi forseta:

,,Ákvæði sem er verið að beita eiga ekki við um hælisleitendur. Þau eiga við um fólk sem er að koma hingað til að dveljast sem ferðamenn eða til dvalar til að vinna eða setjast að á Íslandi, þau eiga ekki við um hælisleitendur. Þetta eru almenn ákvæði um hvað þarf til að fá dvalarleyfi á Íslandi og þar er ekki tekið tillit til þess að hælisleitendur ferðast án skilríkja og án vegabréfsáritana, því í raun og veru felur eðli flóttans það í sér að fólk getur ekki haft þessi skilríki og þessi leyfi fyrir fram.``

Síðan kemur fram að samkvæmt vinnureglum Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um meðferð mála hælisleitenda sé ekki hægt að nota það sem ástæðu til synjunar um hæli að einhver hafi ferðast á fölsuðum skilríkjum eða án vegabréfsáritana. Bjarney Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofunnar, segir enn fremur í þessu sjónvarpsviðtali, með leyfi forseta:

,,Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna felur ekki í sér vinnureglur um hvernig eigi að taka á þessum málum en vinnureglur Flóttamannastofnunar eru mjög skýrar um það ...`` --- Síðar segir að framkvæmdin á Íslandi sé í andstöðu við þær vinnureglur.

Um þetta hefur verið fjallað í sölum Alþingis og hefur komið fram gagnrýni á það hvernig íslenska ríkið stendur að málum gagnvart hælisleitendum.

Mér er fullljóst að þetta eru ekki einföld mál. Við þurfum þess vegna að vanda okkur mjög vel við alla lagasmíð. Mér finnst mjög mikils virði og mikilvægt að við stöndum vaktina út frá þessu sjónarmiði mannréttindanna gagnvart pólitískum flóttamönnum, fólki sem er ofsótt í heimalöndum sínum og á hvergi í hús að venda. Þess vegna þurfum við að vanda okkur.

Ég fæ ekki betur séð en að þessi lagabreyting ein og sér sé fyrst og fremst til þess fallin að styrkja réttarstöðu íslenska ríkisins gagnvart hælisleitendum, að lögfesta og samningsbinda rétt okkar til að vísa fólki á dyr. Út á það gengur málið. Vegna þess að heimildin til að taka á móti fólki og opna faðminn er til staðar. Eins og kom áðan fram í upptalningunni höfum við tekið á móti fjölda flóttamanna, pólitískra flóttamanna og fólki sem hingað hefur komið af mannréttindaástæðum og veitt því hæli og höfum allar heimildir til þess.

Hins vegar er hér hluti af miklu víðtækara máli, þetta er hluti af Evrópusamrunanum í reynd. Þetta er hluti af Evrópusamrunanum og Schengen-samkomulaginu. Það var ekki lítið haft við þegar verið var að keyra það í gegnum þingið enda þótt öll rök mæltu gegn því, a.m.k. þegar litið var ofan í pyngjuna. Þegar litið var ofan í pyngjuna er hér á ferðinni eitthvert mesta peningasukk og rugl sem um getur. Menn þurfa ekki annað en að fara til Keflavíkur til að sjá hvað þar er að gerast og þetta var gert gegn ráðum flestra góðra manna sem komu að þeim málum. Það voru hugmyndafræðingarnir, þessir með eitt auga í miðju enni, fólkið sem horfir aldrei til hliðanna, er aldrei reiðubúið að skoða málin heildstætt, það voru þeir sem réðu ferðinni og þeir sögðu: Þetta er hluti af Evrópusamrunanum, enda er í greinargerð með Schengen-tillögunum vísað í Rómarsáttmálann og sagt að þetta hafi alltaf staðið til í hinu evrópska stórríki.

Núna stöndum við náttúrlega frammi fyrir nauðungarfrumvörpum af þessu tagi. Okkur er sagt að við þurfum að flýta okkur vegna þess að dagsetningarnar hafi verið ákveðnar. Við eigum að fara inn í Schengen 25. mars. Þá er þetta gert eins og í öðrum málum, svipan reidd til höggs og síðan fara fram einhverjar málamyndaumræður á Alþingi. En allir vita hver niðurstaðan verður vegna þess að reynslan er náttúrlega sú að menn þurfa að éta þennan pakka allan, það er bara staðreynd sem ber að horfa á.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu. Mér finnst mjög brýnt að við stöndum vaktina fyrir hönd þeirra sem sækja til Íslands af mannréttindaástæðum eða sem pólitískir flóttamenn. Ég vek athygli á því að þessi lagagrein og þessi breyting er alls ekki til þess fallin að styrkja stöðu þess fólks. Hún styrkir ekki stöðu þeirra einstaklinga. Hún styrkir hins vegar réttarstöðu íslenska ríkisins til að vísa þessu fólki á dyr.

Ég á sæti í allshn. sem áheyrnarfulltrúi. Þar mun ég að sjálfsögðu hlusta á allar þær röksemdir sem fram verða reiddar því að væntanlega verður leitað til aðskiljanlegra aðila, þar á meðal Mannréttindaskrifstofunnar. Á rök sem frá slíkum aðilum koma mun ég að sjálfsögðu hlusta áður en ég tek endanlega afstöðu til þessa frv.