Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:50:17 (2914)

2000-12-07 13:50:17# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er rétt að draga saman nokkrar staðreyndir í þessu máli þannig að menn geri ekki meira úr vandanum en efni standa til og geri heldur ekki of lítið úr honum. Það er augljóst að fólksflutningar innan lands, þar sem fólk flytur af landsbyggðinni og suður, eykur á húsnæðisvandann á höfuðborgarsvæðinu. Um það er engum blöðum að fletta. Það er öllum ljóst. Hins vegar dreg ég mjög í efa að stóryrtar yfirlýsingar hv. frummælanda og fyrrv. félmrh. í málinu eigi við rök að styðjast.

Í fyrsta lagi var úthlutað á þessu ári tæplega 500 heimildum til leiguíbúða. Í öðru lagi fengu Félagsíbúðir í Reykjavík um 100 heimildir og hafa ekki nýtt þær að öllu leyti á þessu ári. Í þriðja lagi hafa Félagsíbúðir í Reykjavík ekki sótt um nema 100 á næsta ári, sama fjölda og á síðasta ári. Í þeirri umsókn felst þeirra mat á vandanum. Þeir munu fá það sem sótt var um.

Einnig má benda á að húsaleigubætur munu hækka á milli ára og að stofnstyrkur er veittur til sveitarfélaga. Það má líka benda á að vextir eru niðurgreiddir þannig að ríkisvaldið veitir margháttaða aðstoð til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda.

Ég vil andmæla fullyrðingu hv. frummælanda, Ögmundar Jónassonar um að vaxtabætur verði skertar á næsta ári um 400 millj. kr. Það er ekki rétt. Reglur til vaxtabóta eru óbreyttar þannig að hjá þeim sem hafa lágar tekjur eru þær þær sömu og vaxtabæturnar voru á þessu ári nema hvað þær taka almennum verðlagsbreytingum. Hins vegar skerðast vaxtabætur hjá þeim sem hafa háar tekjur vegna þess að tekjur þeirra hafa hækkað á milli ára umfram almennar verðlagsbreytingar.