Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 14:40:08 (2922)

2000-12-07 14:40:08# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggja frammi til 1. umr. fjögur frv. frá hæstv. menntmrh. eða ríkisstjórninni, nánar tiltekið varðandi þjóðminjavörsluna í landinu. Ég verð að játa að þessi frv. eru langþráð. Það hefur lengi verið brýnt að endurskoða þessi lög og nú hafa frv. þess efnis verið lögð fram til 1. umr. Hæstv. ráðherra hefur gefið til kynna að vel verði tekið í þær tillögur hv. menntmn. eftir að hún hefur farið ítarlega yfir málið og leitað umsagna þeirra sem málið varðar.

Ég held að í þessum frv., eins og þau koma mér fyrir sjónir eftir lauslega yfirferð, séu mörg góð atriði sem yrðu til bóta. Hins vegar eru nokkur atriði sem orka tvímælis og þarf alla vega að taka til nánari skoðunar.

Með þessu frv. er lagt til að gerðar verði breytingar á skipulagi þjóðminjavörslunnar. Samt eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á inntaki þjóðminjavörslunnar sem rekja má til gamalla laga. Megintilgangur frv. er, að því er hér stendur, að einfalda stjórnkerfi þjóðminjavörslunnar og styrkja embætti þjóðminjavarðar. Það má til sanns vegar færa að með þessari lagasetningu er þjóðminjavörður settur yfir allt batteríið. Í frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á vegum Þjóðminjasafns Íslands fer fram fjölþætt starfsemi á sviði minjavörslunnar og er safnastarfsemi á vegum Þjóðminjasafns einungis einn af mikilvægum þáttum þeirrar starfsemi sem fer fram á vegum stofnunarinnar. Þykir því rétt að breyta heiti stofnunarinnar í embætti þjóðminjavarðar um leið og safnastarfsemi á vegum embættisins er gefið sérstakt vægi.``

Þetta er náttúrlega allt álitamál og mun rætt mjög náið í hv. nefnd.

Lagt er til að Þjóðminjasafn Íslands hafi sérgreindan fjárhag og að því ráðinn verði sérstakur safnstjóri. Auk þess er áætlað, sem ég tel mjög gott, að safnið hafi ráðgefandi hlutverk gagnvart öðrum byggða- og minjasöfnum og hafi forgöngu um samræmda safnastefnu.

Við endurskoðun laganna hefur verið tekið mið af því að safnastarfsemi í landinu hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. Það þarf að skilgreina hlut ríkisins nánar en áður og einnig hlutverk Þjóðminjasafnsins gagnvart öðrum söfnum á sviði þjóðminjavörslunnar. Það er mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að svo verði gert vegna þess að þar hefur aðeins borið á að hvað hafi rekið sig á annars horn.

Í sérstöku frv. sem liggur hérna fyrir um húsafriðun er líka gert ráð fyrir að mikilvægi þess málaflokks sé áréttað. Ég held að það sé mjög tímabært. T.d. vorum við nú á dögunum hér á hv. Alþingi að samþykkja margar fjárveitingar til endurgerðar og viðhalds gamalla húsa. Það tengist uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu í landinu og ég tel að það sé rétt sem hér kemur fram að húsafriðun hafi vaxið mjög fiskur um hrygg og rétt sé að leita allra bragða til að efla hana enn frekar.

[14:45]

Mikilvæg þróun hefur orðið í fornleifarannsóknum á undaförnum árum. Fleiri fræðimenn hafa haslað sér völl á þessu sviði eins og við þekkjum öll og margir með mjög góðum árangri. Fornleifarannsóknir eru í auknum mæli stundaðar af einkaaðilum. Þar hefur margt vel til tekist. Ég vil þó taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og raunar finnst mér standa í frv. sjálfu að það þurfi að vera mjög tryggt eftirlit með þeim rannsóknum sem einkaaðilar taka að sér því að hér eru takmarkaðar minjar sem hægt er að grafa eftir og mjög mikilvægt er að það sé gert þannig að tryggt sé að ekkert fari forgörðum.

Nokkur merk nýmæli eru í þessu frv., m.a. það að þjóðminjavörður verði ekki lengur forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands eins og hann er samkvæmt lögum frá 1989 heldur verði sérstakur safnstjóri ráðinn að Þjóðminjasafninu. Einnig er lagt til að þjóðminjaráð og fornleifanefnd í núverandi mynd verði lögð niður og lagt til að þjóðminjavörður taki við meginhlutverki þessara aðila og að sett verði á laggirnar úrskurðarnefnd er beri heitið fornleifanefnd og þangað verði hægt að skjóta tilteknum ákvörðunum þjóðminjavarðar. Ég tel að það þurfi að athuga þetta svolítið betur og jafnvel ætti það að vera skylda að æðra yfirvald fari ætíð yfir úrskurði þjóðminjavarðar í þessum málum.

Lagt er til að þjóðminjavörður hafi forustu um mótun heildarstefnu fyrir þjóðminjavörsluna. Ljóst er að ekki eru allir jafnhrifnir af því. Við höfum einmitt fengið um það ábendingar að ýmsir fornleifafræðingar, í báðum þeim félögum sem hér starfa, hafi hugmyndir um að þessum málum verði betur komið fyrir öðruvísi. Auðvitað verðum við að taka allar þær hugmyndir sem liggja fyrir til nákvæmrar athugunar og athuga hvort e.t.v. sé hægt að færa þessi mál betur til samræmis við hugmyndir fagmanna en þær virðast vera í þá átt að aðskilja beri fornleifavörsluna frá Þjóðminjasafni. Mér skilst að meira að segja hafi það borið til tíðinda að bæði félög fornleifafræðinga sem starfa á Íslandi séu að þessu leyti sammála og mun sumum a.m.k. þykja það umtalsverð tíðindi.

Lagt er til að settur verði á stofn sérstakur fornleifasjóður sem úthluti styrkjum til rannsóknarverkefna og svo er líka lagt til að þjóðminjavörður bjóði út fornleifarannsóknir. Ég verð að segja að ég set stórt spurningarmerki við að það eigi að bjóða út rannsóknir á fornleifum, a.m.k. ef maður hugsar til þess að þær fái lægstbjóðandi eins og venja er þegar um útboð er að ræða. Ég held að það þurfi að athuga þau mál mjög gaumgæfilega og ef það á að leyfa einhver slík útboð hljóti auðvitað að þurfa að setja um þau mjög strangar reglur. Ég tek undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði á undan mér, að slíkt gæti átt við þegar um er að ræða neyðarrannsóknir sem eru einfaldar, skjótunnar rannsóknir. Þá kynni þetta að vera réttlætanlegt.

Í frv. segir að ríkissjóði sé skylt að viðhalda friðlýstum fornleifum og talað er um að hlutverkið fornleifarannsókn sé skilgreint í lögum en ekki reglugerð eins og nú er. Svo kemur hér fram að komið hafi til tals við undirbúninig lagafrv. að brýnt væri að efla forvörslu og setja á laggirnar sérstaka stofnun sem geti sinnt forvörslu fyrir öll söfn í landinu. Ég verð að segja að ég styð slíkar hugmyndir mjög eindregið. Ég held að þetta gæti orðið til að efla alla forvörslu í landinu og rjúfa þá einangrun sem þeir örfáu aðilar sem vinna við slíkt hér á landi búa við í dag. Þetta gæti aukið líka mjög afköst og skilvirkni sem við þurfum vissulega á að halda.

Svo er hér frv. til safnalaga. Ég tel að flest það sem kemur fram í því frv. horfi til bóta. Þó set ég spurningarmerki við það sem kemur fram í 5. gr. um að Náttúruminjasafn Íslands verði sett á stofn á öðrum grundvelli en hingað til hefur verið gert ráð fyrir í lögum. Það þýðir ekki, hæstv. forseti, að ég hafi verið ánægð með fyrirkomulagið eins og það hefur verið. Ég er ein af þeim sem ólust upp í Skuggahverfinu í Reykjavík. Um margra ára skeið fór ungviðið í því hverfi klukkan ellefu á morgnana í barnaguðsþjónustu í Austurbæjarbíói hjá séra Emil og eftir hádegið gengum við hönd í hönd á Náttúrugripasafnið sem var þá þar sem núna er Safnahúsið við Hverfisgötu. Þetta var okkur til mjög mikillar ánægju og vakti forvitni okkar. Við fórum að reyna að lesa okkur til um dýr og beinagrindur sem við vorum að skoða þarna. Mér er mjög minnisstæður risakolkrabbi sem alltaf var stoppað við reglulega. Eftir að ég varð kennari taldi ég það heilagt hlutverk mitt að skilja aldrei svo við bekk að ég færi ekki með hann í Náttúrugripasafnið. En því miður var þá málum safnsins svo komið að þar var ekki hægt að taka á móti gestum nema fáum í einu þannig að ég gat aldrei sinnt þessari köllun og hef í mörg ár vonast til að þarna yrði ráðin á bót og myndarlegar fjárveitingar kæmu til Náttúrufræðistofnunar Íslands sem gerðu henni kleift að byggja upp safnið þannig að það væri í raun sýningarhæft og hægt að sýna þar töluverðan hluta af þeim merku gripum sem þar eru til og mun flestum vera pakkað ofan í kassa.

Því miður hefur ekki verið orðið við óskum mínum og fleiri í þessu efni. En það þýðir ekki að ég styðji umhugsunarlaust þær hugmyndir sem hér koma fram um að skilja Náttúruminjasafnið alveg frá Náttúrufræðistofnun vegna þess að ég held að í rauninni séu hlutverk þessara tveggja stofnana svo samtengt að vart sé hægt að hugsa sér að slíkt verði gert, enda kemur hér strax fram að gert sé ráð fyrir að einhverjar rannsóknir, sem áður hafa þá væntanlega verið á höndum Náttúrufræðistofnunar, færist yfir í Náttúruminjasafnið. Ég áskil mér a.m.k. leyfi til að hugsa þetta atriði mjög grannt við meðferð hv. menntmn. á frv.

Ég fagna frv. til húsafriðunar. Ég held að það sé til stórra bóta að gera húsafriðunarnefnd að sérstakri stofnun undir Þjóðminjasafni.

Frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi er ekki mjög efnismikið. Athugasemd mun hafa verið gerð af Eftirlitsstofnun EFTA við gildandi lagaákvæði og eru þessar breytingar gerðar að miklu leyti til að koma til móts við þær athugasemdir og einnig til að færa frv. að þjóðminjalögum og er það sjálfsagt.

Ég ítreka áður en ég lýk máli mínu að þó að flest í þessu horfi til bóta frá mínum bæjardyrum séð er ágreiningur í röðum fagmanna um þessi frumvörp, um það er ekki blöðum að fletta, og það mun sjálfsagt setja mikinn svip á starf nefndarinnar. Ég hef t.d. í höndum bréf þar sem gerðar eru athugasemdir við það að fornleifavarslan verði ekki aðskilin frá Þjóðminjasafni eins og gert er á Norðurlöndum og fornleifafræðingar, þ.e. bæði félögin, telja löngu tímabært. Þeir gera líka athugasemdir við hert miðstýringarvald þjóðminjavarðar í minja- og safnamálum og ýmislegt fleira sem mun sjálfsagt koma fram milli umræðna og fá sína umfjöllun í hv. menntmn.