Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:30:45 (2970)

2000-12-07 18:30:45# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er samfélagið og allt velferðarkerfið greitt af sköttum. Ég var ekki að mótmæla því. Ég var að mótmæla því að menn tala eins og ekkert muni um þetta. Skattgreiðendur munar gífurlega mikið um þá skatta sem þeir greiða. Margir eru plagaðir af sköttum. Að sjálfsögðu þurfa hv. þm. að leggja skatta á almenning en við verðum að gera það með virðingu og ekki tala þannig niður til fólks að ekkert muni um skattana.

Svo vildi ég spyrja að því, af því að ég missti af því, til hvaða nefndar þessu frv. er vísað vegna þess að þetta er greinilega skattamál. Í fjárlögum er þetta flokkað undir skatta á einstaklinga og þetta frv. á að fara í hv. efh.- og viðskn., herra forseti.