Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:06:51 (2979)

2000-12-07 19:06:51# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þáltill. um heilbrigðisáætlun til ársins 2010, langtímamarkmið í heilbrigðisþjónustu.

Hér er mjög gott mál komið fram. Það er mikil nauðsyn á því að setja sér slík markmið sem byggja á greiningu og eru mælanleg eins og þessi. Fyrri heilbrigðisáætlanir voru opnari og meira almenns eðlis og eins og hér hefur komið fram var kannski erfiðara að átta sig á því hvernig ætti að ná þeim markmiðum. En hér eru heilbrigðismarkmið sett fram eftir þörf og með mælanlegum markmiðum. Meiningin er að fara yfir það á hverju ári hvernig hefur gengið að ná þessum markmiðum og vonandi verða þá einhver úrræði til þess að bregðast við og herða aðgerðir til þess að ná markmiðunum ef þau hafa ekki náðst á árinu.

Áætlunin er sett fram í samræmi við Evrópuáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Markmiðin eru 21 og skiptast í sex efnisþætti sem varða samábyrgð og jafnræði, bætt heilsufar, forvarnir og heilsuvernd, þverfaglegar aðgerðir, árangursríka heilbrigðisþjónustu og rannsóknir, samstarf og verkáætlanir. Fyrir heilbrigðisþjónustuna alla og í raun þjóðina er þetta ekki plagg til þess að geyma uppi í hillu. Þetta eru markmið sem allar heilbrigðisstofnanir eiga að vinna eftir og vinna eftir þeirri forgangsröð sem hér er sett fram. Það er ekki að ástæðulausu að áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir eru fyrstar af þeim sjö þáttum sem dregnir eru fram sem forgangsverkefni. Það eru þeir þættir sem hafa hvað mest áhrif á heilsu fólks og þeir þættir sem við getum að sama skapi mest unnið í.

Allir þessir sjö þættir sem settir eru fram sem forgangsverkefni hafa mest áhrif og sem við höfum möguleika til að bæta. Að mínu mati eru það raunhæf markmið sem hér eru sett fram. Ég ætla að vona okkar allra vegna að okkur takist að ná þeim og innan þess tíma sem hér er nefndur.

Ég ætla ekki að tala ítarlega um þessa heilbrigðisáætlun. Hún tekur í heild til ársins 2010 og hana á að endurskoðuða að fimm árum liðnum. Í kaflanum Stjórnkerfi og skipulag er m.a. rætt um fjarheilbrigðisþjónustu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Á næstu árum má búast við enn meiri samþjöppun sérfræðilegrar heilbrigðisþjónustu. Innan fárra ára verður vart um að ræða nema nokkur fjölgreinasjúkrahús. Háskólasjúkrahús verður miðstöð hátækni- og sérfræðiþjónustu sem önnur sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir tengjast með samhæfingu í rekstri og notkun fjarheilbrigðisþjónustu. Háskólastarfsemi mun einnig verða starfrækt utan sjúkrahúsa, jafnt innan heilsugæslunnar sem sérgreinaþjónustu utan sjúkrahúsa.``

Ég vil vekja sérstaka athygli á fjarheilbrigðisþjónustu sérfræðinga að. Rétt eins og með háskólanám þá er tæknin góð í fjarkennslu en það kemur samt ekki í staðinn fyrir að fá sérfræðingana á staðinn og ég vil koma því að að það væri mjög áhugavert að auka sérfræðiþjónustuna einnig með aukinni tímabundinni farandsérfræðiþjónustu.

Ég tek undir þá forgangsröðun sem kemur fram í kaflanum um Markmið og forsendur og gleðst yfir því að hvergi skuli vera lögð áhersla á einkavæðingu í þessum markmiðum. Lögð er áhersla á samfélagslega þjónustu og ég er mjög ánægð með að sjá þessar áherslur. Bak við þessa áætlun er mikil vinna. Mjög margir hafa komið að verki og þetta hefur verið nokkurra ára vinna. Margir hafa gefið umsagnir. Og ég trúi því að góð sátt náist í þinginu um þessa áætlun. Við munum taka hana fyrir og ræða hana betur þegar hún kemur frá heilbr.- og trn.