Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:27:53 (2984)

2000-12-07 19:27:53# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:27]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Grundvöllurinn fyrir því heilbrigðiskerfi sem við höfum mótað undanfarin ár er jafnræði, m.a. í aðgengi. Það eru engin áform um það að breyta því. Hins vegar mættum við kannski hugleiða hvaða jafnræði er í biðlistum hér á landi. Er það jafnræði? Getur ekki einkarekstur, í því formi sem ég hef talað um, einmitt stytt biðlista og aukið jafnræði í heilbrigðisþjónustunni? Einkareksturinn mundi þannig sinna því fólki sem er á biðlista. (Gripið fram í.) Í því felast fleiri úrræði og ég fullyrði að með því fengist betri nýting á fjármagninu. Það er einu sinni svo að fólk fer betur með eigin peninga en annarra. Það er þannig.

Ég sé það sem mjög heppilegan kost í þessu dæmi að gera samninga við einkaaðila um rekstur ákveðinna þátta í heilbrigðisþjónustu. Ég vil sjá það í heilsugæslunni. Ég vil sjá það inni á sjúkrahúsunum. Ég vil brjóta sjúkrahússtarfsemina eins og hún er í dag upp í mun smærri einingar og fela ábyrgðina í hendur þeirra fagmanna sem þar starfa. Ég tel að þeir geti nýtt fjármagnið betur í minni einingum en starfræktar eru í dag.