Tollalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:44:06 (2987)

2000-12-07 19:44:06# 126. lþ. 43.12 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:44]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég átti reyndar ekki von á að þetta frv. yrði tekið fyrir í dag þannig að sá sem hafði skoðað það hjá mér er ekki í þinginu sem stendur. Ég ætla hins vegar ekki að gera athugasemdir við að þetta mál fari áfram en vil koma með nokkrar spurningar.

Sú fyrsta lýtur í raun að samráði við starfsfólk. Um leið og ég hafði beðið um orðið gerði hæstv. fjmrh. því nokkur skil en ég vil bæta við spurningu þar að lútandi:

Hefur því starfsfólki sem vinnur hjá ríkistollstjóra verið tryggð störf annars staðar og hversu margir vinna við embættið?

Munu þessar breytingar hafa einhver áhrif á þjónustu við neytendur sem hafa mikil samskipti við embættið?

Breytir þessi nýja tilhögun einhverju í þjónustu almennt við neytendur eða kostnað við þá þjónustu?

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra nefndi árangurssamninga við tollstjórann í Reykjavík. Er verið að gera því skóna að tollstjórinn í Reykjavík verði með um það bil sömu verkefni og sýslumennirnir út um land?

Herra forseti. Þar sem þetta er svo lítið skoðað af minni hálfu geri ég fullan fyrirvara við málið og lýsi því yfir að það verður skoðað af okkur í Samfylkingunni í nefnd.