Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:08:14 (3111)

2000-12-11 11:08:14# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er eðlilegt að vakin sé athygli á starfs\-áætlun þingsins eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert þegar eftir lifa fjórir virkir dagar af þeirri starfsáætlun sem við vinnum eftir og þó að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu sannarlega ekki að kveinka sér undan því að vera hér fram á Þorláksmessu þá er engu að síður stórmál á ferðinni og hæstv. ráðherra þarf að útskýra það betur af hverju nauðsynlegt er að afgreiða þetta mál fyrir jólin. Hér er stórmál á ferðinni sem þingið hlýtur að taka sér góðan tíma til að skoða. Sú leiksýning sem var um helgina milli hæstv. ráðherra og fulltrúa Sjálfstfl. í bankaráði, formanns bankaráðs, gefur ekki sérstakt tilefni til að ætla að það sé samstaða um þetta mál milli stjórnarflokkanna, gefur ekki mikið tilefni til þess að ætla að þetta skapi tiltrú á því sem fyrirhugað er í þessu sameiningarmáli og vekur upp spurningar hvort hæstv. ráðherra hafi misst tök hér sem yfirmaður bankamála þegar hún fær svona kveðjur frá formanni bankaráðsins sem ætlar að hunsa fyrirmæli yfirmanns bankamála, bankamálaráðherrans. Það er því með ólíkindum hvernig þetta mál allt er vaxið.

Herra forseti. Það er ekki boðlegt að ætla okkur að afgreiða þetta stóra mál á stuttum tíma þannig að ég held að stjórnarandstaðan eigi kröfu á því að vita hvort það standi virkilega svo að það eigi að afgreiða þetta mál fyrir jól. Jafnvel þó að niðurstaða samkeppnisráðs komi í vikunni þá eru það fáir dagar sem lifa af þessu þingi að það er ekki boðlegt að afgreiða svona stórt mál á svo stuttum tíma og ég sé ekki að það liggi neitt á því að afgreiða það endilega fyrir jólaleyfi.