Sýslumannsembættið í Ólafsfirði

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:09:20 (3179)

2000-12-12 14:09:20# 126. lþ. 46.1 fundur 192#B sýslumannsembættið í Ólafsfirði# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að það sé allt í lagi með samskipti starfsmanna ráðuneytisins og bæjarstjórnar á Ólafsfirði. Þetta er mál sem hefur verið nokkuð lengi í vinnslu. Þannig er mál með vexti að sýslumaður á Ólafsfirði var fluttur tímabundið til samkvæmt eigin ósk og gerðar ákveðnar breytingar á embættinu. Til stóð að sú tilhögun stæði aðeins yfir í eitt ár þannig að það er rétt hjá hv. þm. að kominn er lengri tími. Hins vegar eru fulltrúar bæjarstjórnar nýbúnir að vera á fundi hjá mér þar sem var farið yfir málið. Þar voru m.a. kynntar tillögur að ýmsum verkefnum sem væri hugsanlegt að kæmu í staðinn fyrir sýslumannsembættið á staðnum þar sem stöðugildum mundi þá fjölga.

Sýslumaðurinn á Akureyri fer núna með þjónustu við bæjarbúa þar og ég veit ekki annað eftir samtölum mínum við ýmsa bæði úr bæjarstjórn og bæjarbúa en að þar ríki ánægja með þá þjónustu sem sýslumaður á Akureyri hefur veitt.

Það er líka rétt að flytja þurfti lögregluna til í sýslumannsbústaðinn því að það háttar þannig til að ekki er hægt að nýta húsnæði lögreglustöðvarinnar á Ólafsfirði lengur, það er svo illa farið. Þetta er því bráðabirgðaráðstöfun og ég veit ekki annað en mönnum hafi verið fullkunnugt um það.