Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:57:00 (3209)

2000-12-12 15:57:00# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig deili ég áhyggjum þingmannsins út af því spursmáli hvort forsendur kjarasamninganna muni halda þegar komið verður fram í febrúar/mars á næsta ári og það er full ástæða til þess að allir geri það. En ég held ekki að þetta atriði um ætlaða lækkun skattleysismarkanna sé atriði sem velti þungu hlassi í því sambandi.

Mér finnst hins vegar alveg ástæða til þess að velta vöngum yfir öðrum atriðum í þessu sambandi vegna þess að í kjarasamningunum er gert ráð fyrir tvenns konar atvikum sem geta valdið endurskoðun á samningnum, tvenns konar forsendubreytingu sem getur gert það. Annars vegar er það önnur þróun verðlags en út frá var gengið. Við sjáum það náttúrlega ekki enn þá. En við fengum jákvæða vísbendingu í morgun um að ekki er allt sem sýnist í þessum verðlagsmálum vegna þess að verðlagsbreytingin í morgun frá því í síðasta mánuði var núll og heildarhækkun innan ársins 2000 er 4,2% þannig að fjárlagaforsendan um 4,5% hækkun verðlags er fjarri því að vera út í hött.

Hitt atriðið eru kjarasamningar annarra aðila sem geta haft áhrif á endurskoðunarákvæði hinna almennu kjarasamninga eða kjarasamninga Flóabandalagsins. Mér heyrist nú að ýmsir í stjórnarandstöðunni séu á þeim buxunum að fullt tilefni sé til þess að hækka laun annarra hópa um verulega myndarlegar upphæðir. Ætli þeir hafi þá ekki í því sambandi gleymt þessari forsendu Flóabandalagssamninganna? Mér finnst það líklegt.