Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 16:16:47 (3212)

2000-12-12 16:16:47# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í ræðu minni áðan stillti ég orðum mínum nokkuð í hóf. Ég fór yfir stöðu mála eins og þau lágu fyrir milli 2. og 3. umr. Ég gerði að umræðuefni fund í efh.- og viðskn. þar sem fulltrúar frá samtökum lífeyrisþega komu á okkar fund og þær umsagnir sem bárust á milli 2. og 3. umr. Einnig gerði ég í örfáum orðum grein fyrir brtt. þeirri sem við höfum flutt um þetta mál. Ég ákvað að fara ekki yfir málið vítt og breitt eins og við 2. umr. þar sem við fórum nokkuð ítarlega yfir áhrifin af aukinni skattbyrði á kjör fólks almennt og kjarasamningana.

Ræða hæstv. ráðherra hér áðan gefur hins vegar fullt tilefni til að fara aftur yfir þessi mál eins og við 2. umr. málsins. Ég verð að segja, herra forseti, að ég var nokkuð hissa á að hæstv. fjmrh. skyldi vekja málið upp á nýjan leik eins og hann gerði. Ég er sammála ráðherranum um að allt hafi verið sagt sem hægt er að segja í þessu máli. Það stendur raunverulega eftir að stjórn og stjórnarandstaða er á öndverðum meiði um hvernig taka eigi á málinu og hvaða áhrif þessi aukna skattbyrði hafi á kjarasamninga.

Herra forseti. Ég get ekki skilið þannig við málið að orð ráðherrans standi við lok 3. umr. án þess að ég fari yfir örfáa þætti í máli hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra sagði enn og aftur að hann sæi ekki að þetta frv. hefði nein áhrif á forsendur kjarasamninga. Það er ekki aðeins að við í stjórnarandstöðunni séum á öndverðum meiði við hæstv. ráðherra í því efni heldur virðist gervöll verkalýðshreyfingin á öndverðum meiði við ráðherrann. Verkalýðshreyfingin, forustan á almenna vinnumarkaðnum og einstök félög sem hafa látið í sér heyra, er aðili að þeim kjarasamningi sem samþykktur var í vor og tveir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafa undirritað yfirlýsingu í tengslum við hann, um fimm þætti sem voru settir fram til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á árinu 2000. Þegar annar samningsaðilinn, þ.e. verkalýðsfélögin, er þeirrar skoðunar að þessi skattahækkun muni grafa undan samningum og ógna forsendum þeirra þá hljótum við að taka það alvarlega, herra forseti. Ég ítreka að hæstv. ráðherra er, væntanlega ásamt ríkisstjórn og stjórnarliði, á allt annarri skoðun. Um það standa deilurnar.

Ég tók eftir því, herra forseti, þegar hæstv. fjmrh. ræddi um þetta í sjónvarpi og gerði lítið úr áhrifum þessarar skattahækkunar, þ.e. þeim þætti hennar sem snýr að skattleysismörkum. Ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi orðað það þannig að honum fyndist þetta lítið mál, snúast um smáaura en ef annað væri uppi á borðinu þá þyrftu hann og verkalýðshreyfingin að tala saman um þetta mál. Efnislega sagði ráðherrann eitthvað á þá leið.

Úr því að fyrir liggur að það eru deilur á milli hæstv. ráðherra, og þá væntanlega líka hæstv. forsrh., og verkalýðshreyfingarinnar um hvort hér sé smámál á ferðinni, hvort málið snúist aðeins um smáaura eða 80 kr. eins og hæstv. ráðherra ítrekað heldur fram, þá er ástæða til að spyrja, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra ætli að kalla til sín fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar til að fara yfir málið og kanna hvort þeir komist að samkomulagi. Hæstv. ráðherrar og verkalýðshreyfingin þyrftu að ræða hvort hér eru á ferðinni smáaurar sem taki því ekki að ræða mikið um á þingi hvað þá, hæstv. forseti, að flytja um það brtt. eins og við í stjórnarandstöðunni höfum gert.

Hæstv. ráðherra teflir því fram í rökum sínum að enginn hafi hreyft hugmyndum um breytingar á skattleysismörkum í tengslum við útsvarshækkun hjá Reykjavíkurborg. Ef ég man rétt, þá nefndi hann Reykjavíkurborg. Hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. í þessari ríkisstjórn eru hreinlega með Reykjavíkurborg á heilanum í hverju málinu á fætur öðru. Þá snýr málið svolítið öðruvísi við, herra forseti, af því að við flytjum þetta mál --- ráðherrann sagði að það yrði að setja þetta mál í samhengi --- í samhengi við kjarasamningana. Áhrif þessarar skattahækkunar á skattleysismörkin komu ekki almennilega fram fyrr en við 2. umr. þegar verkalýðshreyfingin sjálf eða fulltrúar hennar höfðu óskað eftir að koma á fund í efh.- og viðskn. og vöktu athygli hennar á þessu samhengi skattleysismarka við kjarasamninga. Að því leyti, herra forseti, er þetta mál öðruvísi vaxið en í því dæmi sem hæstv. fjmrh. kýs að stilla upp til samanburðar. Þó að þessi skattahækkun kippi ekki ein og sér fótunum undan kjarasamningum þá er hún þó veigamikil viðbót í þann pott sem í hefur safnast á liðnum mánuðum og getur gert það að verkum að launaliði kjarasamninga verði sagt upp.

Verðlag hefur hækkað og verðbólguspár hækkað meira en forsendur t.d. fjárlagafrv. gerðu ráð fyrir, Þjóðhagsstofnun spáir 5,8% hækkun á verðlagi. Þegar týndir eru til ýmsir þættir sem fulltrúar launþega hafa teflt fram og fulltrúar samtaka lífeyrisþega einnig, þegar hækkanir á þessu ári, herra forseti, eru settar í einn pott með þeim kjaraskerðingaráhrifum sem þær hafa á heimilin í landinu þá getur almenn skattahækkun auðvitað haft úrslitaáhrif. Við vekjum athygli á þessu til að verja kjarasamningana vegna þess að enginn vill sjá að forsendurnar breytist þannig að segja þurfi upp kjarasamningum með þeim afleiðingum sem það getur haft fyrir allt efnahagsumhverfið. Við höfum litið á málið frá því sjónarhorni.

Mér finnst hæstv. ráðherra ganga nokkuð langt þegar hann fjallar um fasteignagjöldin. Við höfum rætt um hækkun á fasteignagjöldum í fasteignamati en ráðherrann segir að enginn geri kröfur á borgaryfirvöld um að lækka eða hækka skattleysismörkin í því sambandi. Hæstv. ráðherra verður líka að halda til haga af hverju þessi spenna hefur verið á fasteignamarkaðnum á síðustu mánuðum sem leitt hefur til hækkunar á fasteignamati og þar með á fasteignagjöldum. Ég ætla bara að nefna tvo veigamikla þætti í því sambandi, herra forseti. Ég held að þeir sem skoða málin í réttu ljósi og samhengi viðurkenni að hluti áhrifanna af breytingu á húsnæðiskerfinu fyrir tveimur árum hafi verið spenna á fasteignamarkaðnum. Félagslega íbúðarkerfinu var lokað með þeim afleiðingum að hluti þeirra 1.000--1.500 einstaklinga sem höfðu fengið fyrirgreiðslu í félagslega húsnæðiskerfinu fór á almennan fasteignamarkað á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingarnar voru þær að verð á íbúðum hækkaði hér verulega, sérstaklega á tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðum. Síðan beitti ríkisstjórnin sér fyrir því, með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar, að rýmka greiðslumatið. Með hvaða afleiðingum? Afleiðingarnar voru þær að auka þurfti útgáfu á húsbréfum sem leiddi til spennu á fasteignamarkaðnum með þeim afleiðingum að húsnæðiskostnaður hækkaði, verð á íbúðum og einnig leiguverð. Það kom fram í aukinni vísitölu og hærra fasteignamati. Þessi spenna hefur valdið hækkun á fasteignamati og þar með hækkun á fasteignagjöldum. Afleiðingar af aðgerðum sem ríkisvaldið beitir sér fyrir leiða til þessarar hækkunar á fasteignamati og þar með fasteignagjöldum. Það vill svo til að það eru sveitarfélögin í landinu sem hafa tekjur af fasteignagjöldum.

Hæstv. ráðherra þarf líka að halda því til haga að ríkið hefur haft umtalsverðar tekjur og mun meiri af þeirri spennu sem hér hefur verið í þjóðfélaginu. Hve mikið af tekjuafgangi ríkissjóðs á næsta ári, þessu ári og síðasta ári, skyldi vera vegna spennu á markaðnum? Ég veit ekki til að hæstv. ráðherra hafi séð ástæðu til að beita sér fyrir skattalækkun af þeim sökum. Hann spyr okkur hins vegar um af hverju sveitarfélögin geri ekki slíkt þegar fasteignagjöldin hækka.

Samkvæmt tekjuhlið og tekjuáætlun við 3. umr. fjárlaga sjáum við að ríkissjóður hefur verulegar viðbótartekjur umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. af þeirri spennu sem er á markaðnum með auknum tekjuskatti og reyndar einnig virðisaukaskatti. Þannig er, herra forseti, nauðsynlegt að halda þessu til haga út af orðum hæstv. ráðherra hér áðan.

Ég gæti auðvitað fjallað um ræðu hæstv. ráðherra í fleiri orðum. Ég sé hins vegar ekki mikinn tilgang í því þó ýmislegt komi upp í hugann vegna þessa máls og orða ráðherrans. Vissulega væri ástæða til að ræða það sértaklega. Ég held, herra forseti, að ástæðan fyrir því hversu hvumpinn hæstv. ráðherra virðist vera sé fyrst og fremst sú að hann hafi ekki góða samvisku út af þeim skattahækkunum sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir á launafólk í landinu og þeirri niðurstöðu sem varð í fjárhagslegu uppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga á sama tíma og ríkisstjórnin beitir sér fyrir skattalækkun á fámennan hóp þeirra sem eiga hlutabréf, eru forríkir af hlutabréfaeign hér á landi. Það er ekki hinn almenni eigandi hlutabréfa í þessu landi heldur þeir sem eiga yfir 3,2 millj., 6,4 millj. séu það hjón. Það eru 636 einstaklingar svo að það sé rifjað upp, herra forseti, sem frestuðu skattlagningu á síðustu tveimur árum upp á 20 milljarða kr. Þetta er hópurinn sem lækka á skatta hjá. Á sama tíma stefnir í að sú tillaga verði felld sem við flytjum um að halda í raungildi skattleysismarka sem um var samið í kjarasamningum.

Herra forseti. Orð hæstv. ráðherra gáfu mér tilefni til að bæta nokkuð við ræðu mína frá því áðan, sem ég ætlaði ekki að gera. Ég minni á að hér er ekki um örfáar krónur að ræða fyrir tekjulægsta hópinn sem á skjól í skattleysismörkunum sem hér mun raskað. Hver króna skiptir verulegu máli fyrir þetta fólk í framfærslu þeirra á þessu og næsta ári. Þá er búist við skattahækkunum í kjölfar þeirrar niðurstöðu sem varð í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég vildi láta þetta koma fram um leið og ég skora á hv. þm. að samþykkja tillögu sem við beitum okkur fyrir, um hækkun á skattleysismörkunum. Tillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar beittu sér fyrir undir forustu Guðmundar Árna Stefánssonar, um að ríkisstjórnin, sem eðlilegt og réttlátt hefði verið, lækkaði sinn hlut í staðgreiðslunni, var felld. Sú tillaga var felld þannig að hér er gerð önnur tilraun sem hefur sama markmið, að reyna að komast hjá því að auka skatta á lágtekjufólk í landinu.