Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:36:51 (3226)

2000-12-12 17:36:51# 126. lþ. 46.11 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv. 159/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum með síðari breytingum.

Ég vil í örstuttu máli skýra frá því að eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf., Guðjóns A. Kristjánssonar, er ég áheyrnarfulltrúi í sjútvn. Ég er samþykkur því minnihlutaáliti sem hann setti fram og vil árétta að við vorum báðir andvígir því að þessi lög væru sett á síðasta ári. Við þóttumst sjá fyrir að framhald yrði á því á þessu ári.

Það ber að nefna, virðulegi forseti, að nú er að störfum nefnd að endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Það er ein ástæðan fyrir því að við töldum að ekkert hastaði að fara í þessa lagasetningu. Ég harma að menn skuli hafa farið í þessa lagasetningu hvað varðar norsk-íslenska síldarstofninn. Þrátt fyrir drauma manna um að síldin komi inn í íslensku lögsöguna hefur það ekki orðið og þannig mætti líta á stofninn sem úthafsstofn eins og aðra úthafsstofna sem við nýtum. Ég árétta hins vegar að auðvitað er draumurinn sá að norsk-íslenska síldin komi inn í lögsöguna á seinni stigum.

Ég vil ítreka að ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins og atkvæðagreiðslu.