Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:54:43 (3255)

2000-12-13 11:54:43# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki þetta tal um útúrsnúninga. Ég ætla ekki að fara að metast um það. Hér mætti halda langa ræðu um hvernig starfsmenntasjóður hefur virkað gegnum tíðina. Ég þarf ekki annað en að rifja upp ár mín sem starfandi skólameistari og viðleitnina þá til að notfæra sér þann sjóð.

Ég held að hv. þm. hljóti eins og aðrir að gera sér grein fyrir því að áform um starfsmenntun í samfélaginu hafa ekki náð að ganga fram sem skyldi. Áherslur samfélagsins eru með öfugum formerkjum eins og allar úttektir sýna, hvernig þjóðfélagið leggur meiri áherslu á almennt stúdentspróf t.d. í framhaldsskóla en á starfsmenntun. Það er nánast öfugt hlutfall við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Við getum dregið af því ýmsar ályktanir. Latínugráni er sagður ríða húsum hér í þjóðfélagi okkar. Þannig áherslur birtast alls staðar.

Ég er algjörlega ósammála þeirri fullyrðingu hv. þm. að ekki sé til metnaður. Ég tel að þetta frv. sýni einmitt metnað til að taka á atvinnuleysi í gegnum starfsmenntun. Um það er enginn ágreiningur hygg ég. Það er það meginmarkmið þessa frv. og að því er stefnt með miklum metnaði. Ég hygg að Vinnumálastofnun og einstakar deildir hennar hafi einmitt sýnt viljann til að leggja áherslu á starfsmenntun til að hjálpa fólki úr því böli sem atvinnuleysið er.