Hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:32:18 (3325)

2000-12-14 10:32:18# 126. lþ. 49.91 fundur 207#B hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Nýverið var tilkynnt að hæstv. menntmrh. hefði heimilað Ríkisútvarpinu hækkun afnotagjalda. Okkur er öllum ljóst að Ríkisútvarpinu var mikil nauðsyn á að fá auknar tekjur og ráðstöfunarfé. Fjárhagsstaða, fjárþörf og fjármál Ríkisútvarpsins voru rædd í fjárln. og forsvarsmenn Ríkisútvarpsins komu fyrir nefndina og kynntu fyrir henni fjárhagsáætlun sína fyrir næsta ár. Jafnframt greindu þeir frá því að með reglulegu millibili, um meira en ársskeið, hefðu verið send bréf til hæstv. menntmrh. og beðið um hækkun á afnotagjöldum en svör ekki fengist.

Við umræðu í fjárln. spurðist undirritaður fyrir um hvort ekki væri ætlunin að taka fjármál Ríkisútvarpsins fyrir í nefndinni fyrir afgreiðslu fjárlaga. Þá var upplýst að ekki lægju fyrir neinar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar eða beiðni um það og þess vegna væri það ekki gert.

Við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi fluttu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs tillögu um að fé yrði aukið til Ríkisútvarpsins en hún var felld.

Herra forseti. Ég fagna því að ráðstöfunarfé Ríkisútvarpsins skuli aukið en ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Samkvæmt hvaða lögum er það gert, tveimur, þremur dögum eftir að við höfum lokið við að ganga frá fjárlögum? Í lögum um Ríkisútvarpið segir: ,,Útvarpsstjóri kynnir fjárhagsáætlun fyrir útvarpsráði en sendir hana menntamálaráðherra. Alþingi staðfestir áætlunina endanlega í fjárlögum.`` Það höfum við gert við afgreiðslu fjárlaga.