Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:40:46 (3347)

2000-12-14 11:40:46# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður tíundað hverju við höfum náð fram af því sem við stefndum að varðandi barnakort. Ég held að við getum verið fullsæmd af því. Við höfum náð verulega góðum árangri og verulega miklu af því sem við stefndum að. Ég dreg ekki fjöður yfir það að við höfum ekki að fullu náð því sem við settum fram, að það væru ótekjutengd barnakort handa öllum börnum. Svo er ekki en hins vegar er dregið úr tekjutengingunni hjá þeim börnum sem eru yfir sjö ára aldri og barnakort fyrir þau sem eru yngri en sjö ára. Það er verulegur áfangi í að ná því fram sem við stefnum að.

Þegar við metum þetta í heild sinni, stöðu fjölskyldunnar og barnafólks, bæði hvað varðar bætur úr ríkissjóði, atvinnutekjur, skatta og annað sem skiptir máli við efnahag fjölskyldunnar, þá er þar ólíku saman að jafna þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ríkisstjórn. Þá var atvinnuleysi, samdráttur og kaupmáttarfall og staða fjölskyldunnar varð verri og verri ár frá ári. Það vilja menn auðvitað ekki heldur efnahagsstefnu sem byggir upp stöðuga atvinnu og gefur möguleika á vaxandi tekjum og batnandi efnahag. Það hefur þessari ríkisstjórn tekist, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta, annað en í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem ráðherra þegar undanhald og afturför var á flestum sviðum.