Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:45:30 (3349)

2000-12-14 11:45:30# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:45]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég og hæstv. heilbrrh. áttum við nokkur orðaskipti um það mál sem hér er til umræðu sem er breyting á lögum um málefni aldraðra þar sem verið er að hækka svokallaðan nefskatt á alla 16 ára og eldri að undanskildu fólki með mjög lágar tekjur og þeim sem eru eldri en 70 ára. Þau orðaskipti eru ástæða þess að ég óskaði eftir nærveru hæstv. ráðherra við 2. umr. málsins og ég þakka fyrir að hæstv. ráðherra er hér mætt í salinn.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það, herra forseti, þó full ástæða sé til að ræða um skattamálin og þær skattaklyfjar sem er verið að auka á heimilin í landinu þessa daga. Þetta frv. er einn angi af því og þó að fyrir stóran hluta fólks í þessu þjóðfélagi sé 500 kr. aukinn nefskattur ekki há fjárhæð sem flestir geta reitt fram í þetta mikilvæga málefni þá eru 500 kr. nokkuð stór biti fyrir fjölda fólks, þ.e. fyrir lífeyrisþega og það fólk sem er tekjulægst í þjóðfélaginu. Það munar nokkuð um þennan pening, ekki síst þegar það er nú ljóst eftir að við höfum rætt skattahækkanir sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir almennt á heimilin í landinu. Sú hækkun sem áformuð er og ríkisstjórnin beitir sér fyrir með útsvarshækkunum mun raska skattleysismörkum og það liggur fyrir að raungildi skattleysismarka munu ekki halda sér. Tillögur okkar stjórnarandstæðinga hafa verið felldar í því efni, sem þýðir að tvö til þrjú þúsund manns, ekki síst í hópi lífeyrisþega og námsmanna, bætast í hóp skattgreiðenda og fara að greiða skatt auk þess sem skatturinn hækkar almennt á launafólk í landinu og raskar forsendum kjarasamninga.

Það frv. sem við ræðum hér er ekki heppilegt inn í þessa umræðu eða kjarasamningaumræðuna í heild sinni. En látum það nú vera, herra forseti. Þetta mál hefur verið tekið til meðferðar í hv. heilbrn. og fengið þar skoðun og eftir það hefur verið flutt brtt. af fulltrúum minni hlutans í heilbrn. og ég er flutningsmaður að þeirri tillögu líka.

Ég rifja upp að hæstv. ráðherra sagði við 1. umr. málsins þegar ég var að taka það til að þarna væri verið að setja pinkla á lífeyrisþega, að lífeyrisþegar væru undanþegnir þessu gjaldi. Ég gat ekki betur heyrt, herra forseti, en að ráðherrann hafi sagt við 1. umr. málsins að lífeyrisþegar væru undanþegnir þessu gjaldi. Ef mig misminnir þá biðst ég afsökunar á því, en að minnsta kosti skildi ég orð ráðherrans þannig að lífeyrisþegar væru undanþegnir og ég fagnaði því einmitt í ræðu minni að gjaldið skyldi þó ekki lenda á þeim. En við nánari skoðun málsins kemur í ljós að það eru bara þeir sem eru 70 ára og eldri sem eru undanþegnir gjaldinu og lágtekjuhópur sem er undir tilteknum tekjumörkum sem eru í lögunum tilgreind 71.594 kr. eða lægri upphæð á tekjuárinu 1997. Nú hafa þessar upphæðir eitthvað breyst, vegna þess að þær eiga að uppfærast í samræmi við þær breytingar sem verða persónuafslætti þannig að þessi upphæð er orðin nokkuð hærri.

Það liggur sem sagt fyrir að örorkulífeyrisþegar, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, eru ekki undanþegnir þessu gjaldi. Þessi lága fjárhæð sem tekur til fólks með mjög lágar tekjur, er lægri en skattleysismörkin og þar munar nokkru. Skattleysismörkin eins og þau eru tilgreind í þessum lögum eru um 58.000 kr., en skattleysismörkin í dag eru orðin 63.878 en örorkulífeyrisþegi sem býr einn og fær fulla tekjutryggingu, greiðir skatt, er sennilega með u.þ.b. 68.000 kr. á mánuði. Þessi hópur greiðir t.d. skatt og hann hefur ekkert annað sér til framfærslu en lífeyri almannatrygginga og er að vísu á undanförnum árum farinn að greiða skatt sem nemur á ári um 30.000--40.000 kr.

Það er þessi hópur, herra forseti, sem ég hef áhyggjur af. Mér finnst að við ættum að reyna að sameinast um að skoða í þessari umræðu hvort ekki væri hægt að undanþiggja hann með sama hætti og 70 ára og eldri. Í hópi 70 ára og eldri, ég veit ekki af hverju sú viðmiðun hefur verið tekin, það er sennilega langt síðan það var og ég veit ekki hvort ráðherra þekkir skýringuna á því af hverju miðað var við 70 ára, og ég spyr: Þekkir ráðherrann skýringuna á því af hverju örorkulífeyrisþegar voru ekki með í þessari undanþágu? Ekki er hægt að benda á töluna 701.000 vegna þess að það er miklu lægra en skattleysismörkin eru og því falla öryrkjar með fullum þunga inn í þessa skattlagningu, jafnvel þó þeir séu öryrkjar með fulla tekjutryggingu.

Af því þetta er nefskattur hljótum við að viðurkenna að það er óréttlátt að maður með 2 millj. þarf að borga sama í nefskatt --- eru þetta ekki 4.500 kr. eða eitthvað álíka? --- og öryrki með 68 þús. kr. eða 65 þús. kr. Við verðum að fara mjög varlega þegar við erum að breyta eða leggja á nefskatta sem koma svona óréttlátlega niður. Við getum ímyndað okkur að 4.500 kr. eru hátt hlutfall af mánaðartekjum lífeyrisþega með 68 þús. kr., við erum að tala um stóran hluta af þeim meðan það skiptir engu máli fyrir manninn með 1 eða 2 millj. kr. á mánuði.

Það er þess vegna sem ég spyr um það, herra forseti, og það var þess vegna sem ég óskaði eftir nærveru ráðherrans. Er hægt að ná einhverri sátt um það með stjórnarliðinu að slík brtt. verði flutt? Nú minni ég á að sú brtt. sem liggur fyrir er töluvert víðtækari. Þar stendur: ,,Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs, þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs og örorkulífeyrisþegar`` segir hér í brtt. sem Ásta R. Jóhannesdóttir er 1. flm. að. Ég spyr: Er hægt að ná einhverri sátt um það við hæstv. ráðherra að hún flytti brtt. um það að örorkulífeyrisþegar með engar tekjur aðrar en tekjur úr almannatryggingakerfinu, örorkulífeyrisþegar með fulla tekjutryggingu, yrðu líka undanþegnir þessu gjaldi? Menn spyrja þá kannski: Hvað með námsmenn? eða eitthvað slíkt. En við erum að skilgreina afmarkaðan hóp, örorkulífeyrisþega með fulla tekjutryggingu, ef við mundum bæta þeim hópi fólks við þá sem eru undanþegnir gjaldinu. Þetta er víðtækara og ég sem flm. að þessari tillögu er auðvitað þeirrar skoðunar að allir örorkulífeyrisþegarnir ættu að vera undanþegnir þessu. Væntanlega mundum við þá ræða um það í okkar hópi, ef jákvæð viðbrögð kæmu frá hæstv. ráðherra, að draga tillögu okkar til baka ef ráðherrann væri tilbúinn til að flytja slíka brtt. nú við 3. umr. málsins og um það væri hægt að ná sátt.

Einnig er ástæða til að halda því til haga að það er ansi mikið af ráðstöfunarfé þessa sjóðs sem fer í rekstur, 55%, og hefur verið allar götur frá 1992. En bæði búum við við meira góðæri en var á þeim tíma, viðfangsefnin eru orðin brýnni og meiri og lengri biðlistar þannig að vissulega er ástæða til að skoða það að draga eitthvað úr hve mikið fé fer í rekstur. En ég skal ekki fjölyrða um þann þátt, herra foreti, ég er fyrst og fremst að kalla eftir viðbrögðum ráðherra út af orðaskiptum okkar við 1. umr. og hermi það ekki fast upp á ráðherra að hann hafi sagt ,,lífeyrisþegar`` það gæti verið að ráðherrann hafi sagt ,,ellilífeyrisþegar`` en þá er það rangt út af fyrir sig líka, því það er miðað við 70 ára aldur en ekki 67 ára. En aðalatriðið er, hvað sem því líður, hvort hægt sé að ná einhverri sátt við hæstv. ráðherra og stjórnarliða um að taka þessa litlu breytingu inn. Ég er alveg viss um að við erum hér kannski að ræða um, ef ég ætti að giska á það, einhvers staðar á bilinu 3--5 millj. Með því að taka alla örorkulífeyrisþegana inn minnir mig að ég hafi skoðað að það væru 15--16 millj. 47% örorkulífeyrisþega eru með fulla tekjutryggingu, við erum þá að tala um tæplega helming, þannig að kannski væri um að ræða 5 millj. Að minnsta kosti er það ekki stór tala, herra forseti, þannig að ég spyr hvort hægt væri að ná sátt um það.

Síðan ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra í lokin, af því ráðherra er hér viðstaddur, að þegar við vorum að ræða í efh.- og viðskn. almennt um skattlagningu á aldraða og öryrkja og fulltrúar samtaka aldraðra og samtaka öryrkja komu á þann fund nefndarinnar, þá gat ég ekki heyrt annað en að fulltrúar þessara hópa hefðu verið að búast við því að núna við 3. umr. fjárlaga kæmi eitthvað frá ríkisstjórninni sérstaklega til að leiðrétta kjör þeirra. Þeir höfðu þessar væntingar eftir einhver samtöl við ráðherra, ég vissi ekki hvort það var hæstv. heilbrrh., a.m.k. samtöl við þá sem stjórna þessu landi, að nefnd væri starfandi að skoða sérstaklega kjör aldraðra. Nú veit ég ekki hvort hún er jafnframt að skoða kjör öryrkja en sennilega er hún að skoða kjör beggja þessara hópa. Þeir höfðu vænst þess að eitthvað sérstakt umfram það sem er í fjárlagafrv. mundi sjá dagsins ljós fyrir jólaleyfi þingmanna. Þess vegna er ástæða til þess að spyrja að því: Er verið að skoða eitthvað sérstakt til að bæta kjör þessara hópa?

Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um að kjör þeirra hafa dregist aftur úr öðrum hópum. Þeir hafa ekki fengið sambærilegt og aðrir láglaunahópar í þjóðfélaginu á umliðnum árum og þeir hafa sjálfir verið að kalla eftir því að ríkisstjórnin skoðaði það mál sérstaklega og þeir fengju leiðréttingu á kjörum sínum.

Ég spyr ráðherrann líka um það hvort málið sé með þeim hætti að öryrkjar og aldraðir eigi von á einhverjum sérstökum viðbótargreiðslum eða lífeyrisgreiðslum umfram það sem er á fjárlögum og hvort eitthvað sé til skoðunar í því efni á borði ríkisstjórnarinnar.