Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:09:53 (3357)

2000-12-14 12:09:53# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að sú nefnd sem er að vinna að kjörum lífeyrisþega með tengsl tekjutenginga og skatta skili sem fyrst niðurstöðum. En í raun er óþarfi að bíða eftir þeirri nefnd að þessu sinni því í lögunum sem við erum að fjalla um núna er undanþága fyrir ákveðinn hóp lífeyrisþega, þ.e. þá sem eru 70 ára og eldri. Hér höfum við verið að leggja til undanþágu fyrir örorkulífeyrisþega. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt til málamiðlun að hæstv. ráðherra mundi þá leggja til þrengri skilgreiningu á þessum hópi, þ.e. lífeyrisþega með fulla tekjutryggingu. Þetta er hópur sem hefur ekki verið að greiða skatta, þetta er hópur sem hefur ekki lent í þessum nefskatti. (Gripið fram í.) Þ.e. þeir sem búa einir. Þeir sem eingöngu eru með greiðslur frá Tryggingastofnun hafa ekki verið að borga skatta. (Gripið fram í.) Þeir eru núna að borga skatta vegna þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt bótunum, þeir greiða nú milli 30 og 40 þús. kr. á mánuði, þeir lenda núna í því að fá þennan nefskatt á sig. (Gripið fram í.) Þeir hafa ekki lent í því áður vegna þess að þeir voru undir skattleysismörkum fyrir þennan tíma þannig að þeir eru að fá þennan viðbótarskatt á sig núna í seinni tíð.

Við erum að leggja til og spyrjum hæstv. ráðherra hvort hún geti ekki fallist á það með málamiðlun vegna þess að þetta er mjög þungur baggi fyrir það fólk sem hefur ekkert nema almannatryggingabæturnar til að draga fram lífið á. Þess vegna hefði maður talið það vera sanngirnismál núna þegar jólin fara að nálgast að líta til þess hóps sem hefur minnst, sem hefur verið að leita til Hjálparstofnunar kirkjunnar, sem hefur verið að leita til Rauða krossins, sem þarf að leita sér ásjár vegna þess að hann hefur ekki nóg til þess að framfæra sig.