Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:19:09 (3362)

2000-12-14 12:19:09# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál núna. Það hefur verið fjallað mjög rækilega um það. Ég ætla aðeins að fara örfáum orðum um frv. um breytingar á barnabótakerfinu.

Í fyrsta lagi langar mig til að segja í tilefni af orðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan að ríkisstjórnin hefði búið í haginn fyrir aukinn kaupmátt á umliðnum árum og hér væru nú blóm í haga víðast hvar. Ég vil minna á þau varnaðarorð sem hafa verið höfð uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar um stöðuna almennt í efnahagsmálum. Það stefnir í að viðskiptahallinn verði tæpir 70 milljarðar kr. á næsta ári sem eru 8--9% af landsframleiðslu. Eftir því sem ég fæ best skilið hefur þetta hlutfall ekki verið hærra nokkru sinni, enda eru skuldir þjóðarinnar þegar á heildina er litið meiri og hærri og hærra hlutfall af landsframleiðslu en verið hefur og stefnir því miður enn á verri veginn, þannig að menn skyldu nú fara varlega þegar þeir eru að tala um blóm í haga í efnahagslífinu.

En það sem mig langaði til að gera að umræðuefni hér undir lokin er sú yfirlýsing hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, talsmanns Framsfl. í barnabótamálinu, að þessar breytingar séu sérlega til hagsbóta fyrir einstæða foreldra. Það er rétt og ég hef tekið undir það að fyrir suma einstæða foreldra eru þær breytingar til hagsbóta, en aðeins að takmörkuðu leyti. Staðreyndin er sú að það eru að koma til sögunnar ótekjutengdar barnabætur upp á rúmar 33 þús. kr., 33.400 kr. eða þar um bil með hverju barni fram að sjö ára aldri.

Barnabótakerfið hefur verið þannig uppbyggt að barnabætur með fyrsta barni hafa verið 107.622 kr., barnabætur með börnum umfram eitt 128.105 kr. Síðan hefur verið viðbót vegna barna yngri en sjö ára sem nemur 31.703 kr. Þessar bætur hafa allar verið háðar tekjutengingu og þegar fólk er komið yfir ákveðin mörk í tekjum skerðast þessar bætur og það á við um allar þær sem ég gat um. Núna gerist það við tilkomu ótekjutengda hlutans að þessi síðasti liður, 31.703 kr., fellur út þannig að þeir foreldrar sem eiga börn yngri en sjö ára og eru undir tekjuskerðingarmörkunum eru ekki að fá kjarabætur og það á einnig við um einstæða foreldra. En svo háttaði hins vegar að með fyrsta barni einstæðra foreldra var þetta framlag ekki greitt, 31.703 kr., þannig að fyrir þá einstæðu foreldra og náttúrlega alla vegna þess að það er fyrsta barnið er þetta tekjuaukning, þá er þetta viðbót sem kemur. En gagnvart hinum börnum einstæðra foreldra er þarna ekki um aukningu að ræða.

Það sem ég vildi þess vegna leggja áherslu á er að fyrir foreldra með börn sjö ára og yngri innan tekjuskerðingarmarkanna eru þetta eru kjarabætur, ekki þær kjarabætur sem verið er að guma af. Og fyrir einstæða foreldra með einhvern barnahóp er þetta viðbót fyrir fyrsta barnið en ekki fyrir hin börnin.

Þessi aukning í barnabótakerfið gagnast fyrst og fremst foreldrum sem eru yfir skerðingarmörkunum, það gagnast þeim í rauninni best og má segja sem svo að það komi vel á vondan vegna þess að við í stjórnarandstöðu og í verkalýðshreyfingu og víðar höfum verið að krefjast þess að barnabæturnar verði ekki tekjutengdar eða dregið verulega úr tekjutengingunni, og þá er niðurstaðan náttúrlega þessi. Menn verða að horfast í augu við það að þessar bætur eru náttúrlega fyrst og fremst að gagnast hinum tekjuhærri. Þetta er staðreynd.

Þess vegna vildum við í stjórnarandstöðunni í efh.- og viðskn. skoða aðrar hugmyndir, að við nálguðumst það takmark að draga úr tekjutengingu barnabótanna með öðrum hætti. Við gerðum það með því að lyfta skerðingarmörkunum, að láta fjármunina renna til þess að lyfta skerðingarmörkunum. Það hefði hjálpað millitekjuhópum í stað þess að beina fjármagninu að mestu leyti til tekjuhæsta fólksins. Hins vegar má segja að komið sé til móts við þetta sjónarmið vegna þess að tekjuskerðingarmörkin eru hækkuð, þau eru hækkuð í kerfinu.

Herra forseti. Ég kom fyrst og fremst hingað upp til þess að leiðrétta það sem rangt var í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, talsmanns Framsfl. í barnabótamálunum, að þetta gagnaðist fyrst og fremst einstæðum foreldrum. Það er ekki rétt. Staðreyndin er sú að hlutfallslega fer mest af þessum fjármunum til hinna tekjuhærri í samfélaginu. Þetta er nú einu sinni staðreynd málsins sem ég vildi koma á framfæri.