Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:12:19 (3404)

2000-12-14 15:12:19# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. 1. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér komu, sjálfsagt eins og hv. formanni landbn., þessar alvarlegu athugasemdir um aðbúnaðinn í þessum flutningi mjög á óvart. Ég fagna því að hann hafi hér sagt að hann muni senda þetta áfram til landbrn. Ég mun fylgja því eftir innan hv. landbn. að svo verði gert og við fáum við því skýr svör hver sé hinn raunverulegi grundvöllur fyrir þessum umsögnum. Ef þetta er satt sem þarna er sagt þá er ekki um þær fyllstu sóttvarnir að ræða sem ég vil að séu viðhafðar þegar verið er að flytja dýr hingað til lands.

Varðandi átta tíma reglu Evrópusambandsins sem hv. formaður landbn. vill ekki gera mikið úr hér þá vil ég segja að auðvitað er það rétt að bæði innan Evrópusambandsins og annars staðar tíðkast að fara illa með dýr. En það er verið að reyna að bregðast við því með því að setja þessa reglu og fylgja henni eftir. Ég verð að segja að ég hef verið misjafnlega hrifin af þeim reglugerðum sem Evópusambandið hefur verið að gefa út en þarna finnst mér þó komin regla sem við ættum virkilega að taka fagnandi, við sem látum okkur velferð dýra og flutning þeirra, hvort sem það er til sóttvarnastöðva eða til sláturhúsa, að nokkru varða.