Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 10:49:07 (3416)

2000-12-15 10:49:07# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og fram kom í lok ræðu frsm., formanns félmn., þá skrifa ég undir nál. með fyrirvara. Ég get í aðalatriðum vísað annars vegar til ræðu sem ég flutti við 1. umr. málsins og gerði þar ýmsar athugasemdir og hins vegar til þess sem fram kemur í nál. Nefndin er sammála um að líta beri á þetta sem tímabundið verkefni og ekki fordæmisgefandi um það hvernig starfsfræðslumálum einstakra hópa launamanna er fyrir komið.

Hitt er annað mál og um það eru líka allir sammála að þetta verkefni er ákaflega þarft og almenn ánægja er með að loksins skuli hafa tekist að koma starfsfræðslumálum ófaglærðs verkafólks í einhvern farveg. Það gerir það að verkum að þó ýmislegt mætti setja út á þá aðferð sem þarna var valin, þ.e. að ávísa kostnaðinum á Atvinnuleysistryggingasjóð með þeim hætti sem samkomulagið gerir og frv. gengur út á að lögfesta, þá leggjast menn ekki gegn því, hvorki heildarsamtök á vinnumarkaði né þingmenn en með vísan til þess þó að á þetta sé litið sem tímabundið átak og fyrst og fremst sem aðferð til að koma þessum málum af stað en stefna beri að því að starfsfræðslumál þessara hópa eins og annarra launamanna komist í þann farveg sem lög um starfsfræðslu gera ráð fyrir. Þess vegna er það svo, herra forseti, að við leggjum til að frv. verði samþykkt og fögnum því að þessi mál séu að komast á hreyfingu en eftir því hefur verið leitað mörg undanfarin ár og oft í kjarasamningum að koma starfsfræðslumálum þessara hópa á vinnumarkaði af stað. Er þá litið til fordæmis margra annarra stétta sem hafa fyrir löngu samið um átak í málum sínum eins og iðnaðarmenn, rafiðnaðarmenn og fleiri sem hafa náð fram í kjarasamningum myndarlegum framlögum til þess að standa straum af fræðslu, starfsmenntun og endurmenntun félagsmanna sinna á þessu sviði.

Það er líka ljóst, herra forseti, að taka þarf á í málefnum margra annarra hópa og hér voru nefnd í nál. og framsöguræðu staða bankamanna þar sem mikill fjöldi ófaglærðs starfsfólks býr við mikið atvinnuóöryggi um þessar mundir af alkunnum ástæðum án þess þó að í kjarasamningum hafi stéttarfélagi þeirra tekist að ná fram enn sem komið er samningsbundnum framlögum til starfsfræðslumála. Á því þarf að verða bót og það er sérstaklega tekið fram í nál. að félmn. er þeirrar skoðunar að náist slíkir samningar fram á næstu mánuðum eða missirum fyrir hönd fleiri hópa en hér eiga hlut að máli þá beri að sjálfsögðu að taka það til skoðunar hvernig það yrði þá lögfest eða greitt fyrir því að það næði fram að ganga jafnvel þó að það þýddi að taka þyrfti upp þessi lög og víkka út þær heimildir sem verið er að lögfesta hvað varðar greiðslur út Avinnuleysistryggingasjóði þó svo æskilegast væri að málum væri skipað þannig sem vísað er í í nál., þ.e. að þetta lyti almennum ákvæðum stafsfræðslulaga.