Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:11:20 (3424)

2000-12-15 11:11:20# 126. lþ. 50.8 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv. 151/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:11]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um breytingu á lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi.

Frv. þetta gengur fyrst og fremst út á að bregðast við breytingum á þessum markaði. Á árum áður var það nánast eingöngu Sementsverksmiðjan sem flutti inn sement, framleiddi sement og seldi sement í landinu. Nú eru fleiri aðilar að koma inn á markaðinn og meginefni frv. er að bregðast við þeirri breytingu, m.a. breytingum á stjórn.

Nefndin gerir brtt. við frv. Fyrri brtt. felst fyrst og fremst í orðalagsbreytingu sem felur þó í sér að bætt verði inn í lögin ákvæði um að ekki skuli leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem notað er heldur framleiðslu á viðgerðarefnum eða tilbúnum múrblöndum enda greiði sjóðurinn þá ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.

Í öðru lagi er gerð tillaga um breytingu á 3. gr. Þar eru felld niður ákvæði sem veittu ráðherra heimild til að ákveða að flutningsjöfnun væri ekki beitt vegna byggingar orkuvera eða annarra meiri háttar framkvæmda. Samkvæmt tillögu nefndarinnar mun flutningsjöfnun alltaf eiga við.

Tveir hv. nefndarmenn skrifa undir með fyrirvara, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson, en hv. þm. munu væntanlega gera grein fyrir fyrirvörum sínum.