Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:42:14 (3429)

2000-12-15 11:42:14# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:42]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta einmitt fyrst og fremst vera mál sem við eigum eftir að ræða í nefndinni. Ég treysti líka dómstólum afar vel með þessar 12 vikur en mér finnst það samt a.m.k. umræðunnar virði að velta fyrir sér hve við erum að tala um mikinn hámarkstíma.

Ég fer ekki ofan af því að ég held að það eigi alltaf að vinna dálítið hratt og þétt í svona málum. Fólk er ekki í heimalandi sínu, það eru erfiðar kringumstæður þannig að mér finnst að við þurfum að skoða það svolítið. Við eigum auðvitað eftir að fá bæði aðila frá dómstólaráði og ýmsa aðra til að ræða þessi mál.

Mér fannst hins vegar, og það er kannski bara áferðin á því, að utanríkisráðuneyti annars staðar hefðu verið með vegabréf eða lögreglan. Þetta er kannski ákveðinn óvani hjá mér, mér finnst bara vera komið ofboðslega mikið þarna inn þannig að ég er í rauninni að setja ákveðnar spurningar við hvernig framkvæmdin verður. Það er kannski bara ágætt, þá fáum við ákveðna umræðu um það. Ég held að það geti orðið mjög frjó og skemmtileg umræða í allshn. um þetta frv. því að það er mjög margt í því en líka margt sem getur vakið spennandi umræður um mannréttindi og fleira.