Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:06:35 (3432)

2000-12-15 12:06:35# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:06]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu og hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir ætla ég að við séum öll sammála um að sé löngu tímabært að komi fram, enda alvitað að núgildandi lög um eftirlit með útlendingum eru að stofninum til frá 1965.

Frv. felur í sér, eins og fjallað hefur verið um, heildarendurskoðun á eldri lögum sem því er ætlað að leysa af hólmi en frv. er hins vegar engin heildarlöggjöf um útlendinga eða málefni þeirra. Frv. fjallar fyrst og fremst um réttarstöðu útlendinga við komu til landsins, við brottför og dvöl þeirra hér og tiltekin skilyrði til dvalar og búsetu og þeirra leyfa sem frv. áskilur. Eins og fram hefur komið geymir frv. fyrst og fremst meginreglur, skilyrði og ramma sem framkvæmdarvaldinu er ætlað að starfa innan og takmarkar ákvörðunarvald framkvæmdarvaldsins. En útfærsla tiltekinna efnisreglna og ýmissa atriða er varðar framkvæmd laganna er hins vegar eftirlátin ráðherra að kveða á um í reglugerðum.

Í frv. er gert ráð fyrir mjög víðtækum reglugerðarheimildum til ráðherra, bæði um ýmis efnisatriði sem lögin fjalla um og líka um framkvæmd laganna. Það skiptir geysilega miklu máli að vandað sé til þeirra reglugerða við smíði þeirra og þær verða auðvitað ekki hristar fram úr ermi ráðuneytisins en jafnframt er ljóst að það mun taka nokkurn tíma sem skýrir m.a. hvers vegna ekki er gert ráð fyrir gildistöku þessara laga fyrr en 1. júlí þrátt fyrir að aðild okkar að Schengen-samstarfinu hefjist 25. mars. Því virðist óhjákvæmilegt að óbreyttu að setja enn einn plásturinn á gildandi lög um eftirlit með útlendingum með því að lögleiða það sem hér hefur stundum verið vísað til sem litla frv. á þskj. 313 eða 284. máls, en fyrir því hefur þegar verið mælt, það hefur verið rætt og því vísað til hv. allshn. sem hefur hafið umfjöllun um það þó það hafi ekki verið afgreitt frá nefndinni. Vegna orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um það frv. og gildi þess að þjóðarrétti, þá er rétt að fram komi að til stendur eftir áramótin að leggja fram þáltill. um löggildingu Dyflinnarsamningsins og fyrr verður sá samningur ekki skuldbindandi fyrir okkur.

En við gerð þessa frv., sem hér er til 1. umr. kom fram í máli hæstv. dómsmrh. og er gerð grein fyrir því í athugasemdum með frv. að að verulegu leyti var stuðst við norsku útlendingalögin og þau eru í sjálfu sér eðlileg fyrirmynd vegna sömu stöðu okkar og Norðmanna vegna aðildar að EES-samningnum og Schengen-samstarfsins innan ESB. En það kemur einnig fram að við gerð þessa frv. var horft til þróunar og breytinga á löggjöf um málefni útlendinga, jafnt almennra laga, stjórnarskrár og mannréttindasáttmála og annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga sem við erum aðilar að. En þegar ákveðin og lögfest aðild okkar að Schengen-samstarfinu hefur haft í för með sér töluverðar breytingar á frv. frá því það var fyrst lagt fram á 123. löggjarþingi vorið 1993 en aðild að því samstarfi, svo og skuldbindingar samkvæmt Dyflinnarsamningnum um meðferð hælisleitanda sem gert var ráð fyrir aðild okkar að í athugasemdum við 7. gr. samningsins um þátttöku okkar í Schengen þýðir auðvitað í mjög verulegum atriðum samræmdar evrópskar reglur um þau málefni sem við erum hér að fjalla um.

Herra forseti. Frv. felur ekki í sér stefnumörkun í málefnum innflytjenda eða nýbúa og það fjallar ekki um stöðu útlendinga hérlendis, hvorki gagnvart félags- eða heilbrigðisþjónustu né skólakerfinu og það geymir engar reglur, stefnu eða leiðbeiningar um hvernig við ætlum að búa að því fólki sem kýs að koma hingað, setjast að til lengri eða skemmri tíma og starfa á íslenskum vinnumarkaði. Sú vinna að móta stefnu í málefnum innflytjenda er óunnin enn þá og þá vinnu tel ég brýnt að hefja og ljúka sem fyrst og áður en þau vandamál sem innflytjendur standa frammi fyrir og vandamál samfélagsins sem tengjast þeim verða stærri en þegar er orðið til tjóns jafnt fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem hlut eiga að máli og samfélagið. Það verður auðvitað ekkert aftur snúið með þá þróun innan Evrópu og alþjóðavæðinguna sem við erum þegar þátttakendur í en það skiptir mjög miklu fyrir okkur að taka þannig á þeim málum að það verði til hagsbóta fyrir íslenskt fjölmenningarlegt samfélag þar sem við öll viljum að jafnræði ríki.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vísaði þegar umræða hófst í gær um þetta frv. til orða eins gests hv. allshn. að hann hefði talað um að litla frv. og Dyflinnarsamningurinn, sem þar er vísað til, væri þægilegt verkfæri til að losa okkur við fólk. Ég sé mig tilneydda að leiðrétta þessi orð vegna þess að umræddur gestur talaði um að þetta væri þægilegt og nauðsynlegt verkfæri fyrir þá sem ynnu að málefnum útlendinga, lögreglu og útlendingaeftirlit til að starfa eftir. Hann sagði aldrei ,,til að losa okkur við fólk``.

Í umræðu á síðasta þingi um Schengen og aðild okkar að því samstarfi og um niðurfellingu vegabréfaeftirlits kom m.a. fram að heimildir lögreglu erlendis sem og hér á landi væru óskertar til að krefja útlendinga um skilríki til að sanna deili á sér og ég vil rétt hnykkja á því líka af því að gefið var til kynna hér í gær að það væri eitthvað óeðlilegt við slíkt eftirlit.

En ég fagna því mjög að þetta frv. er fram komið og ég vænti þess eins og aðrir sem hér hafa talað að það fái mjög ítarlega og vandaða meðferð í hv. allshn. að loknu umsagnarferli og með því að mælt er fyrir málinu nú vonast ég til að þeir sem koma til með að gefa umsögn um það fái til þess góðan tíma og málið fái að öðru leyti mjög vandaða meðferð í allshn. Ég vænti þess einnig að allshn., bæði trúaðir og vantrúaðir í henni, gæti þar mannréttinda til hins ýtrasta og þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem við erum aðilar að.