Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:56:06 (3460)

2000-12-15 16:56:06# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það vekur svo sem ekki neina sérstaka undrun að hv. stjórnarandstæðingar hafa ekki treyst sér til að ræða þetta mál málefnalega, en það eru öll efni til þess að ræða það á málefnalegan hátt.

Þegar umræðan stóð hér fyrst um það með hvaða hætti væri best að standa að því að sameina bankana þá stóð umræðan í öllum meginatriðum um það, bæði hér á þessum vettvangi og í þjóðfélaginu, hvort ætti að sameina bankana fyrst og selja svo eða hvort ætti að selja fyrst og sameina svo. Í þessum sal eru menn sem töluðu um að selja fyrst og sameina svo. Og það er ekki mjög langt síðan þó að þeir menn séu búnir að gleyma því sem þannig töluðu, menn sem eru meira að segja búnir að gleyma því hvernig ræðan sem þeir fluttu hér fyrst í dag hljómaði, þá er ekki ótrúlegt að þeir séu búnir að gleyma öðrum hlutum.

En deilan stóð í meginatriðum um þetta: Átti að selja bankana og láta markaðinn sameina eða átti að sameina fyrst og selja svo og láta ríkið njóta ávaxtanna af hagræðingu?

Sá úrskurður sem nú liggur fyrir útilokar hvort tveggja, við skulum gá að því, hann útilokar hvort tveggja. Hann útilokar það líka að eftir að búið er að selja bankana, eins og yfirlýsingar liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinanr, að þá geti markaðurinn sameinað bankana. Ef einhver aðili ætti að fagna alveg sérstaklega í dag þá er það hinn stóri banki, Fjáfestingarbankinn og Íslandsbanki sameinaðir, því að búið er að ákveða og úrskurða það að honum skuli ekki verða veitt nægileg samkeppni. Hann mun hafa yfirburðastöðu. Það er meginatriðið sem hér kemur fram. Það er jólapakkinn sem felst í þessum úrskurði sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að tala um. Það er meginsigurvegarinn ef svo má segja, því að ekki á að veita þeim banka, þeim langstærsta banka sem verður, almennilega samkeppni. Það liggur fyrir.

Þetta hvort tveggja felst í úrskurðinum, það er rétt að menn átti sig á því, að ekki er hægt að sameina bankana eftir að búið er að selja, eins og margir í þessum sal lögðu til.

Og við heyrum núna að varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrum talsmaður hennar heitir núna bara --- ýmsir þingmenn sögðu eitt og annað.