Innflutningur dýra

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 10:13:57 (3465)

2000-12-16 10:13:57# 126. lþ. 51.3 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[10:13]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti frá 1. minni hluta landbn., þ.e. fulltrúa Samfylkingarinnar, er farið sérstaklega yfir þann þátt sem snýr að rekstri einangrunarstöðva. Í því nál., sem við í Samfylkingunni styðjum að sjálfsögðu og erum sammála, kemur fram að það hljóti að vera arfur liðins tíma að rekstur slíkra stöðva skuli heyra beint undir landbrn. eins og verið hefur og eðlilegt sé að gefnar séu heimildir til að opna stöðvar annars staðar. Í þessu nefndaráliti segir, með leyfi forseta,:

,,Fyrir hefur legið áhugi dýralækna og annarra sérfræðinga á því að bjóða upp á svipaða þjónustu á höfuðborgarsvæðinu fyrir innflytjendur gæludýra og verið hefur í Hrísey. Engin rök eru fyrir því að standa gegn slíkum áformum svo fremi reksturinn falli í einu og öllu að gildandi lögum og reglugerðum og öðrum nauðsynlegum skilyrðum sem eru og verða sett um aðbúnað og rekstur slíkra sóttvarna- og einangrunarstöðva.``

[10:15]

Fulltrúar okkar, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og Sigríður Jóhannesdóttir, fluttu síðan brtt. sem afgreidd var við 2. umr. um málið. Hún fól í sér að af yrðu tekin öll tvímæli þess efnis að heimilt væri að starfrækja sóttvarnastöðvar annars staðar en í Hrísey og ekki endilega á vegum ríkisins.

Það hlýtur alltaf, virðulegi forseti, að þurfa að spyrja: Hver eru verkefni ríkisins? Hvaða verkefni eiga að liggja hjá ríkinu og hvaða verkefni skulu liggja hjá félagasamtökum eða einkaaðilum? Ég tel einsýnt og reyndar sjálfsagt að þetta verkefni sé eitt af þeim sem mætti gjarnan fara úr höndum ríkisins. Ríkið ætti hins vegar að móta reglurnar og hafa virkt eftirlit með rekstri einangrunarstöðva. Það eru fá rök sem mæla með því að þessi rekstur sé alfarið á höndum ríkisins. Ég vil við 3. umr. minna á brtt. frá 1. minni hluta landbn. og þau sjónarmið sem að baki henni liggja.

Úr því að hæstv. landbrh. er mættur vil ég gjarnan spyrja hann einnar spurningar. Í 41. gr. laga um náttúruvernd, um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera, segir:

,,Að því leyti sem ekki er kveðið á um í öðrum lögum, svo sem lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, getur ráðherra veitt leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera.

Ráðherra skal í reglugerð kveða á um skráningu, innflutning, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera hér á landi, sbr. þó 1. mgr. Þar má m.a. birta skrá yfir tegundir sem óheimilt er að flytja til landsins, svo og yfir tegundir sem heimilt er að rækta hérlendis og sleppa í villtri náttúru, þar með talið á skógræktarsvæðum.

Ráðherra skipar til fjögurra ára nefnd sérfræðinga stjórnvöldum til ráðgjafar um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera. Skulu stjórnvöld leita umsagnar nefndarinnar og Náttúruverndar ríkisins áður en tekin er ákvörðun um innflutning, ræktun eða dreifingu nýrra tegunda lifandi lífvera.``

Síðan er talið upp hverjir skuli eiga sæti í nefndinni:

,,Í nefndinni skulu eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar.``

Ég spyr um hvernig staðið er að þessu, hvort um tvöfalt kerfi leyfisveitinga er að ræða og hvort norskar kýr flokkast t.d. undir dreifingu á framandi lífverum eða dreifingu nýrra tegunda lifandi lífvera, eins og talað er um í lögunum. Hefur hæstv. umhvrh. þurft að koma að leyfisveitingu fyrir innflutningi fósturvísa úr norskum kúm og leyfisveitingu fyrir tilraunaræktun fasana hér? Hvernig er staðið að setningu þessara reglugerða og hvaða tegundir falla þá fyrst og fremst undir lög um náttúruvernd, þá þarf heimild umhvrh. og svo aftur landbrh.?

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvar munurinn er. Ég hef ekki náð í þá reglugerð sem setja á samkvæmt lögum um náttúruvernd, ekki heldur þá sem snýr að lögum um innflutning dýra. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort þessar norsku kýr flokkast ekki undir ræktun og dreifingu nýrra tegunda lifandi lífvera. Sannarlega er þarna um nýjar tegundir að ræða. Ég vildi beina þessum spurningum til hæstv. landbrh. Gæti hann upplýst okkur um í hverju þessi mismunur liggur og hvort í einhverjum tilvikum er um tvöfalt leyfiskerfi að ræða, þ.e. leyfi hæstv. umhvrh. og leyfi hæstv. landbrh.?