Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 11:30:45 (3480)

2000-12-16 11:30:45# 126. lþ. 51.11 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og sent það til umsagnar allmargra aðila og fengið fólk á sinn fund svo sem getið er um í nál.

Nefndin gerir tillögur um breytingar á frv. sem eru í nokkrum liðum. Í 1. lið brtt. eru gerðar tillögur til breytinga á 1. gr. frv. sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis.

Í öðru lagi eru gerðar brtt. við 6. gr. frv. og þá er í fyrsta lagi verið að gera þá tillögu að ný málsgrein bætist við sem felur það í sér að Seðlabanki Íslands geti sett nánari reglur um fyrsta söludag einstakra almennra útboða í því skyni að draga úr sveiflum í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum. Regla þessi er í gildi, en meiningin var með frv. upphaflega að fella hana niður en nefndin leggur til að þessi regla verði áfram við lýði. Í öðru lagi undir þessum lið brtt. er gerð sú tillaga um undanþágu frá 25. gr. sem fjallar um útboð að þar séu hlutabréf eða samvinnuhlutabréf einungis boðin eigendum í félagi enda séu þeir færri en 50 og hlutafé eða stofnsjóður B-deildar samvinnufélags lægri en 50 millj. kr. verði undanþegin þeim ákvæðum um útboð sem er í frv. Rökin fyrir þessu eru þau að þeir sem þarna eiga í hlut eru fyrst og fremst starfsmenn eða aðilar sem eru mjög nátengdir viðkomandi fyrirtækjum og eiga þess vegna að þekkja svo vel til að almenn ákvæði um útboð eigi ekki að þurfa að gilda á þessu sviði.

Í 3. lið brtt. eru gerðar tillögur til breytinga á 7. gr. frv. og þar eru einar fimm brtt. á ferðinni. Í fyrsta lagi er gerð sú tillaga að ákvæði kaflans taki til viðskipta með verðbréf sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skv. 13. tölul. 2. gr. Hér er fyrst og fremst verið að ákveða að þessi kafli taki til alls EES-svæðisins, en gildissviðið sé ekki takmarkað við íslenskan markað.

Í annan stað er undir þessum lið verið að taka út nokkur orð þannig að 1. tölul. 1. mgr. b-liðar 31. gr. orðist svo að óheimilt sé fyrir innherja að nýta trúnaðarupplýsingar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfa --- og orðin ,,sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta`` falli niður. Ástæðan fyrir þessu er sú að menn geta haft ásetning um að ganga á svig við lögin án þess að það hafi kannski síðan endanlega í för með sér hagnað, en brotaásetningurinn geti verið til staðar engu að síður.

Undir þessum lið er enn fremur gert ráð fyrir að 32. gr. breytist og orðist þannig:

,,Fruminnherjar skulu ganga úr skugga um það áður en þeir eiga viðskipti með verðbréf félags, sem þeir eru fruminnherjar í, að ekki liggi fyrir trúnaðarupplýsingar innan félagsins.`` Greinin er orðuð svo í frv.: ,,Fruminnherjar skulu forðast að eiga viðskipti með verðbréf félagsins þegar ætla má að fyrir liggi trúnaðarupplýsingar hjá útgefanda, svo sem skömmu fyrir birtingu ársreiknings eða milliuppgjörs eða skömmu fyrir tilkynningu um mikilvægar ákvarðanir eða atvik sem varða útgefanda verðbréfanna.``

Talið er að það orðalag sem var í frv. sé ekki nákvæmt að því leyti til að erfitt sé fyrir dómstóla að kveða á um sekt eða sakleysi og megintilgangurinn með því að setja inn þessa grein í frv. var nákvæmlega það sem brtt. nefndarinnar gengur út á. Það þýðir að fruminnherjar hafa ákveðinni rannsóknarskyldu að gegna og skulu ganga beinlínis úr skugga um það áður en þeir eiga viðskipti með verðbréf félags að ekki liggi trúnaðarupplýsingar fyrir.

Þá má geta þess um 37. gr. frv., h-lið, að gert er ráð fyrir því að breyta orðalagi sem yrði þá nákvæmara. Enn fremur er í sömu grein verið að segja að stjórn viðkomandi félags skuli setja sér reglur skv. 1. mgr. Þetta á við reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga og skal senda þær reglur Fjármálaeftirlitinu og kauphöll eða skipulegum tilboðsmarkaði þar sem verðbréf félagsins eru skráð eða óskað hefur verið skráningar þeirra. Síðast en ekki síst á að staðfesta reglurnar af Fjármálaeftirlitinu. Það er sú breyting sem verður á efnislega samkvæmt tillögum meiri hluta nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Þetta eru brtt. þær sem meiri hluti efh.- og viðskn. leggur til að gerðar verði við frv. Á nál. er þess getið hverjir skipa þennan meiri hluta.

Að svo breyttu leggur nefndin til að frv. verði samþykkt.