Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:13:52 (3485)

2000-12-16 13:13:52# 126. lþ. 51.11 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[13:13]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrra atriðinu sem hv. þm. gagnrýndi þá hvet ég hann --- af því að hann er enn að tala um að ég fari með rangt mál --- til að lesa yfir nál. minni hlutans þar sem við förum alveg yfir þau atriði sem ég hef gagnrýnt hér í ræðustól, sem við fluttum brtt. um en hv. þm. felldi. Það er lágmark að maður geti ætlast til þess af formanni nefndarinnar að hann fari rétt með úr ræðustól.

[13:15]

Síðan varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sem hv. þm. beitti sér fyrir á síðasta þingi og hefur komið í ljós að var ekki rétt að gert --- stjórnarliðar hafa m.a. verið að gagnrýna það --- þ.e. að opna fyrir heimild lífeyrissjóðanna til þess að fjárfesta erlendis. Við höfum talað fyrir því að hafa markaðinn opinn og frjálsan. En það er hægt að setja ákveðnar skorður þegar fjárstreymið er orðið svo mikið hjá lífeyrissjóðunum út úr landinu að það er farið að veikja verulega gengi krónunnar og hafa þau efnahagslegu áhrif sem ekki bara ég eða þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið að lýsa heldur hvorki meira né minna en seðlabankastjóri. Ég man ekki betur en að hæstv. forsrh. hafi haft einhver orð um það líka að það hafi kannski verið óvarlegt að ganga svona langt í heimild til lífeyrissjóðanna þar sem þeim er heimilað að flytja úr landi á hverju ári sem samsvarar meira en öllum fjárlögum íslenska ríkisins, um 300 milljörðum kr. Það má setja einhverjar takmarkanir á slíkt, herra forseti, þannig að það hafi ekki þau áhrif sem það hefur haft á efnahagsumhverfið og gengi krónunnar sem hefur heldur betur fallið á umliðnum mánuðum meðan íhaldið hefur stjórnað efnahagsmálunum.