Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:55:21 (3495)

2000-12-16 13:55:21# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Verkfall framhaldsskólakennara hófst 7. nóv. sl. og ekki sér enn fyrir endann á þessari deilu þótt ljóst sé að viðræður hafi fært aðila fram á veginn. Samningsaðilar eru nú sammála um að tekið verði upp nýtt og breytt launakerfi, sambærilegt því sem margir hópar háskólamanna sömdu um á árinu 1997. Með nýju launakerfi er hluti samningsgerðar færður inn á stofnanir til útfærslu og þá skapast forsendur til að láta samninginn endurspegla áherslur viðkomandi stofnunar í starfi sem kemur bæði henni og starfsmönnum til góða. Það skapar forsendur til meta menntun, sérhæfni og ábyrgð til launa á einstaklingsgrunni.

Samningsaðilar eru sammála um að laun kennara skuli vera sambærileg launum annarra háskólamanna með sambærilega menntun. Samningsaðilar eru einnig sammála um að auka hlut dagvinnu á kostnað yfirvinnu í heildarlaunum og skilgreina störf kennara um leið á annan máta en nú er. Þá eru samningsaðilar sammála um að nýr samningur gefi möguleika á sveigjanleika í skólastarfi og að framhaldsskólinn nái að halda hæfu fólki í starfi og laða góða kennara og fræðimenn til starfa.

En hvert er þá vandamálið? Vandamálið er að viðræður um nýtt launakerfi og nýjan samning eru haldnar undir pressu verkfalls. Vinna við að útfæra nýtt launakerfi fyrir eina stétt er umfangsmikil og krefst tíma til að vel fari. Nýtt launakerfi krefst einnig viðhorfsbreytinga einstaklinga sem tilheyra viðkomandi stétt. Í stað þess að líta á sig sem hluta af heild þurfa þeir að hugsa um sig sem einstaklinga sem vegna mismunandi hæfileika, þekkingar og færni geta borið mismunandi laun úr býtum. (ÖJ: Á ekki að gera það á þinginu líka?) Þetta er ný hugsun fyrir stéttir þar sem laun hafa um árabil verið metin eftir starfsheitum, ekki hæfni einstaklinga. (ÖJ: En á þinginu?)

Ég þekki þetta. Ég fór í gegnum þetta ferli með minni eigin stétt, hjúkrunarfræðingum. Það var oft erfitt, en það var þess virði. Vandamálið er einnig að menn eru ekki sammála um hve langt eigi að ganga í að færa störf sem greitt hefur verið fyrir í yfirvinnu yfir í dagvinnu og verðmæti þess. En þessi deila er orðin nógu löng. Það þarf að leysa hana. Það þarf að leysa hana fyrir áramót. Unglingarnir okkar eiga það skilið.