Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 16:06:17 (3514)

2000-12-16 16:06:17# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er því fylgjandi að viðhalda hér svokölluðum hátekjuskatti. Þetta er vísir að margþrepa skattkerfi sem margir hafa talað fyrir, verkalýðshreyfingin hefur beitt sér fyrir. Mér finnst eðlilegt að framhald sé þar á þótt það sé alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta hafi verið tímabundin ákvörðun. Ég mun styðja þetta ákvæði frv.

Í þessu frv. um tekjuskatt og eignarskatt kennir margra grasa. Hér er tekið á ýmsum málum. En það ákvæði frv. sem mesta umræðu hefur fengið, og það ekki af tilefnislausu, lýtur að frestun skattlagningar á söluhagnaði hlutabréfa. Þannig er að þegar lögum um tekjuskatt og eignarskatt var breytt á árinu 1996 var samþykkt að heimila frestun á skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa hjá einstaklingum um tvenn áramót. En í greinargerð með lögunum á þeim tíma kom fram að markmiðið með þessu væri að auka aðlögunarhæfni atvinnulífsins að breyttum aðstæðum, auðvelda skipulagsbreytingar í atvinnulífinu og stuðla að því að fjármagn héldist í íslensku atvinnulífi jafnframt því að auka sparnað hjá almenningi.

Í greinargerð með þessu frv. er velt vöngum yfir því hvernig til hafi tekist í þessu efni. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ýmislegt bendir til þess að þeir sem hafa hagnast vel á sölu hlutabréfa á undanförnum árum hafi í vaxandi mæli nýtt sér umrædda frestunarheimild. Þá virðast sífellt fleiri telja að hagstæðara sé að ávaxta það fé í hlutafélögum, sem eru annars staðar en á Íslandi, vegna hagstæðari skattareglna og í ýmsum tilvikum í skjóli bankaleyndar. Leiða má líkur að því að í mörgum tilvikum falli skattlagningin jafnvel niður vegna skorts á upplýsingum. Þetta tvennt, frestun skattgreiðslna og hagstætt skattaumhverfi, eru án efa helstu ástæður þess að stærri fjárfestar hafa kosið að stofna eigin hlutafélög erlendis. Þannig má halda því fram að í gildandi reglum felist ákveðin hvatning fyrir einstaklinga til þess að fjárfesta í félögum erlendis fremur en hér á landi. Íslenskir fjárfestar hafa því getað takmarkað skatta sína með því að greiða sér arð frá hinu erlenda félagi sem er skattlagður með 10% skatti hér á landi. Þetta er gert þar sem hagstæðara er að fá fjármagnstekjur í formi arðs en söluhagnaðar þegar fjárhæðirnar eru orðnar háar.``

Ég vil taka fram í sambandi við vangaveltur manna um fjármagnsflótta og hvað beri að gera í því efni, hvernig beri að bregðast við, að ég vil taka þátt í þeim tilraunum sem gerðar eru á alþjóðavettvangi, einkum hjá OECD, um að reisa einhverjar skorður við undirboðum í skattkerfunum í stað þess að fylgja alltaf undirboðunum. Hér er hins vegar verið að reisa einhverjar skorður. Ég fagna því í reynd að þetta frv. komi fram þar sem þessi frestunarheimild er afnumin eða takmörkuð. Við hefðum kosið að afnám frestunarheimildarinnar tæki ekki aðeins til einstaklinga heldur lögaðila einnig, til fyrirtækja einnig, og við hefðum viljað að skattprósentan væri hærri en hér er gert ráð fyrir, sama skattprósenta og gildir um tekjur einstaklinga.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti hér á ranglæti þess að fara með skattprósentuna upp í tekjuskattshlutfallið og benti á að einstaklingur sem seldi væri í reynd búinn að greiða skatta í formi tekjuskatts fyrirtækisins upp á 30% og síðan kæmu 10% ofan á sem væri svipað og tekjuskattsprósentan.

Þessu er til að svara eða öllu heldur má taka dæmi að einstaklingur seldi hér í sjávarútvegsfyrirtæki. Ég held að það hafi verið fyrir 3 milljarða kr. Það sjávarútvegsfyrirtæki var búið að greiða tekjuskatt að sönnu. En það er ekki þar með sagt að hægt sé að setja jöfnuna upp á þennan hátt með svona einföldum hætti. Því fer afar fjarri. Eðlilegt er að viðkomandi hefði greitt sem svarar tekjuskattshlutfallinu en ekki fjármagnstekjuskattsprósentunni sem er 10%. En í því tilviki sem hér var vitnað til slapp viðkomandi við skattlagningu yfirleitt í skjóli frestunarákvæðisins vegna þess að með því að koma fjármagninu inn í nýtt fyrirtæki sleppur einstaklingurinn við alla skattlagningu.

Eins og ég gat um kemur fram í stjfrv., frv. hæstv. fjmrh., hvað hafi gerst í skjóli þessa ákvæðis, þ.e. mikill fjármagnsflótti úr landinu og að ríki og sveitarfélög hafi orðið af umtalsverðum skatttekjum. Hvert er umfangið í þessum fjármagnsflutningum? Það hefur komið fram hjá embætti ríkisskattstjóra að vegna þessarar heimildar í skattalögum, sem var lögfest 1996 eins og ég gat um, hafi einstaklingar nýtt sér að fresta um 20 milljörðum kr. á árunum 1998--1999. Gera menn sér grein fyrir umfanginu, þessum upphæðum, að á árunum 1998 og 1999 nýttu á sjöunda hundrað einstaklingar, 636 einstaklingar, sér rétt til þess að fresta skattlagningu á 20 milljörðum kr.? Einnig kom fram í þessum upplýsingum að áætla mætti að ríki og sveitarfélög hafi tapað í skattekjum allt að 8,5 milljörðum á þessum tveimur árum vegna þessarar heimildar.

Nú kann þetta að sjálfsögðu að orka tvímælis því að þetta er allt að því vélræn túlkun eða vélræn niðurstaða sem fengin er. Bent hefur verið á að menn hefðu þá hugsanlega farið aðrar leiðir og komið sér hjá því að greiða skatta einfaldlega með því að ráðast ekki í viðskipti af þessu tagi. Slíkt er alltaf álitamál. En þetta er umfangið.

Herra forseti. Ég lýsi ánægju með að menn skuli vilja afnema þessa frestunarheimild. Ég tel að skattprósentan ætti hins vegar að vera hin sama og gagnvart tekjuskatti einstaklinga en ekki 10%, að óeðlilegt sé að lækka hana eins og gert er með þessu frv., vegna þess að þetta var tvíþætt. Annars vegar greiddu menn fjármagnstekjuskatt upp að vissri upphæð, rúmum 3 milljónum, og helmingi hærri upphæð fyrir hjón og síðan var tekjuskattsprósentan þar fyrir ofan, en núna verður 10% skattur á alla heildarsummuna. Ég hefði talið eðlilegt að tekjuskattsprósentan yrði látin gilda um alla.

[16:15]

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan að það væri mjög undarlegt og óeðlilegt að viðhalda hátekjuskatti, að láta harðduglegt og heilbrigt fólk greiða til samfélagsins hátekjuskatt. En hverjir eiga að greiða hann, sjúkir eða lágtekjufólk? Hvar á að taka þessa peninga? Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ekki beinlínis verið stuðningsmaður þess að auka skatta á hátekjufólk eða stöndug fyrirtæki, öðru nær. Reyndar hefur öll skattastefna ríkisstjórnarinnar gengið út á að hlaða byrðum á lágtekjufólk, þá sem síst mega við því, herða skattheimtuna hjá þeim. Það eitt að neita því að hækka persónuafsláttinn eins og stjórnarandstaðan lagði til leiddi til þess að skattleysismörk lækka og skattgreiðendum úr hópi lágtekjufólks fjölgar á næsta ári um rúmlega 2.000, 2.100 að mati þeirra sem hafa skoðað þá útreikninga.

Ég held að helstu atriðin sem ég vildi nefna í tengslum við þetta mál hafi komið fram bæði í máli mínu og hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrsta talsmanni minni hlutans í þessu máli. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en árétta að þessu frv. er mjög ábótavant. Það er mjög óeðlilegt að undanskilja lögaðila frestunarheimildinni. Það er óeðlilegt að fara ekki með skattprósentuna upp í sama hlutfall og gildir um tekjuskatt, að vera sérstaklega að ívilna hátekjumönnum og fjármagnseigendum með þessum hætti. Ég vil árétta andstöðu mína við svokallaða valréttarsamninga inni í fyrirtækjum þar sem um er að ræða eins konar niðurgreiðslu til hlutafélaga. Þau eru styrkt til að fá starfsmenn sína til að fá borgað í hlutabréfum sem eru síðan skattlögð með lægra skatthlutfalli en gerist um launatekjur. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið frá verkalýðshreyfingunni, bæði Alþýðusambandi Íslands og BSRB um það efni.