Tollalög

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 16:26:04 (3518)

2000-12-16 16:26:04# 126. lþ. 52.8 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég er farin að halda að hv. formaður efh.- og viðskn. geri í því af ásettu ráði að reyna að ganga fram af minni hlutanum. Hann er að mæla fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. þar sem er verið að leggja niður embætti ríkistollstjóra, þar sem er verið að segja upp 23 starfsmönnum hjá því embætti með stuttum fyrirvara og hann er hálfa mínútu að mæla fyrir þessu máli. Er hægt að sýna þinginu meiri óvirðingu, að ekki sé nú talað um þessu embætti, sem komið var á fót fyrir nokkrum árum, eða starfsfólkinu?

Þetta undirstrikar, herra forseti, fyrstu setninguna í nál. okkar í minni hlutanum:

,,Óvönduð vinnubrögð hafa einkennt málsmeðferðina á þessu frv. sem keyra á í gegnum Alþingi á nokkrum dögum eftir að það var lagt fram án þess að það hafi fengið fullnægjandi skoðun í þingnefnd.``

Herra forseti. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því sem er að gerast á þessari virðulegu samkomu. Ég hef einstaka sinnum farið yfir það hvernig samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er háttað og hvernig löggjafarvaldið er sífellt að veikjast gagnvart framkvæmdarvaldinu og hvernig Alþingi er orðið hrein og klár stimpilstofnun fyrir ríkisstjórn og ráðherra sem eru með vinnumenn eins og hv. þm. Vilhjálm Egilsson hér að verki sem skoðar ekki einu sinni mál eins og þetta eins og á að gera.

Herra forseti. Ég er yfir mig hneyksluð á því hvernig stjórnarmeirihlutinn stendur að málinu. Mér finnst skömm að því að koma nálægt svona vinnubrögðum og ef það er einhver stofnun í þjóðfélaginu sem á að vanda til vinnubragða þá er það hér innan dyra. Fólkið í landinu sem kýs okkur til starfa treystir því að hér sé vandað til vinnubragða, að hér sé farið yfir verk framkvæmdarvaldsins sem framkvæmdarvaldið er að reyna að gera hér að lögum sem skiptir íbúa landsins og þjóðina miklu máli að sé gert.

Þetta er kannski ekki stórmál í hugum hv. þm. eða ríkisstjórnarinnar. En þetta er nokkuð stórt mál þegar grannt er skoðað. Ég er ekki fyrir fram að segja að það mætti ekki hugsa sér að skoða einhverjar breytingar á embætti ríkistollstjóra. En ég frábið mér að standa að þeim vinnubrögðum sem meiri hlutinn viðhefur í þessu máli.

Auðvitað hefði átt að gefa nefndinni svigrúm fram á næsta ár til að skoða þær grundvallarbreytingar sem er verið að gera á stjórnskipulagi tollamála í landinu með því að leggja niður ríkistollstjóraembættið.

Af hverju liggur svona mikið á að keyra málið í gegnum þingið á þeim ofsahraða sem hér er gert? Það er vegna þess að ríkistollstjóri er að láta af störfum. Hann er að hætta af sjálfsdáðum um næstu áramót. Þá setjast þeir niður í fjmrn., klóra sér í hausnum og komast að því að það sé best að leggja þetta embætti niður.

[16:30]

Gengið er á fund starfsfólksins 4. desember, ekki til þess að leita samráðs hjá fólki með mikla reynslu á þessu sviði sem hefur unnið áratugum saman í tollkerfinu heldur til að tilkynna því að embættið sé lagt niður. Mér er sagt að hæstv. fjmrh. hafi að vísu mætt í eigin persónu til að gera það og það er virðingarvert. En vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar. Þess er ekki einu sinni getið í áliti meiri hlutans hvað trúnaðarmenn starfsfólks höfðu um þetta mál að segja. Ég held að þeir fái nöfnin sín einhvers staðar á þetta nál. um að þeir hafi mætt á fundinn. En þeir höfðu ýmislegt til málanna að leggja í þessu sambandi.

Mér sýnist að eins og þessi ríkisstjórn gengur um varðandi starfsfólk þegar verið er að leggja niður stofnanir, að þeirri venju sé haldið uppi gagnvart þessu embætti, þ.e. að sýna starfsfólkinu fullkomna óvirðingu og auðvitað er ekkert tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem þetta fólk hefur fram að færa í þessu efni. Trúnaðarmenn starfsfólks sem komu á fund nefndarinnar drógu mjög í efa kosti þessara breytinga og telja að með þeim sé verið að hverfa aftur til fortíðar og með lagaboði verið að færa skipulag tollamála til fyrra horfs. Þeir leggja áherslu á það. Og ég ætla að koma því á framfæri hér í þingsölum og vara þingheim við því að rasa um ráð fram í þessu máli. Og þeir óskuðu eindregið eftir því, af fyllstu kurteisi þó, að gefnir yrðu örfáir mánuðir til að kanna ítarlega þessa skipulagsbreytingu, en þeir sögðu að engin úttekt hefði farið fram á kostum þess og göllum að gera slíka breytingu.

Í umsögn ríkistollstjóra sem nú lætur af störfum kemur fram að hann telji það ekki framfaraspor né í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar að sama stjórnsýsluvald fari bæði með vald staðbundins stjórnsýsluvalds og eftirlit og boðvald gagnvart hliðsettum stjórnvöldum. En út á það gengur þetta frv. Það er verið að auka vald tollstjórans í Reykjavík og skipta upp þeim verkum sem ríkistollstjóraembættið hefur haft með höndum, flytja hluta af verkefnunum til fjmrn. og hluti er fluttur til tollstjórans í Reykjavík, samræming tollgæslu, tollheimtu og rannsóknarstarfa, svo dæmi sé tekið. Tollstjórinn í Reykjavík á að vera eins konar yfirhattur yfir öðrum sýslumannsembættum. Af hverju má þetta ekki alveg eins vera hjá sýslumanninum í Hafnarfirði þannig að hann hafi einhverja yfirumsjón fremur en tollstjórinn í Reykjavík?

Ríkistollstjóri segir að þetta gangi þvert á þá þróun sem orðið hefur á undanförnum árum á þessu sviði. Og hann segir í sinni umsögn:

,,Ákvörðun fjármálaráðherra 1990 um að færa slíkt vald frá tollstjóranum í Reykjavík til sjálfstæðs embættis og lagabreytingar sem Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, beitti sér fyrir 1996 endurspegla þessa réttarþróun. Skoðun mín er því sú að framkomið frumvarp sé ekki réttarbót og ekki framfaraspor á sviði tollamála. Nær hefði verið að taka nokkru lengri tíma til að huga fremur að heildarendurskoðun skatt- og tollkerfisins eins og bent var á í frumvarpi því sem lagt var fyrir Alþingi 1996.`` --- Af þessari sömu ríkisstjórn. --- ,,Þær hugmyndir sem fram komu í greinargerð með frumvarpi að síðastnefndum lögum tengjast einnig löngu tímabærum breytingum sem óhjákvæmilega þarf að gera á skipulagi stjórnsýsluumdæmanna sem varla getur talist í takt við þá byggða- og þjóðfélagsþróun sem orðið hefur síðustu áratugina.``

Meginathugasemd ríkistollstjóra um að sú breyting sem lögð er til í frv. sé ekki í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar að sama stjórnsýsluvald fari bæði með vald staðbundins stjórnsýsluvalds og eftirlit og boðvald gagnvart hliðsettum stjórnvöldum, er einmitt rauði þráðurinn í athugasemdum Sýslumannafélags Íslands og Tollvarðafélags Íslands.

Það sem hefur vakið óskipta athygli mína er að á Alþingi 1996 hélt þáverandi fjmrh., forveri núv. ráðherra, á lofti sömu athugasemdum og sagði að það væri grundvallaratriði í allri stjórnsýslu að réttarstaða þeirra sé skýr sem framfylgja eiga eða hlíta þeirri löggjöf sem gildir á hverjum tíma um tollamál. Gildir það jafnt um sambandið á milli æðra og lægra setts stjórnvalds og um samskipti borgaranna við þessi stjórnvöld. Sagði þáverandi fjmrh. að ekki gengi, eins og hann orðaði það, til lengdar að eitt hliðsettra stjórnvalda, tollstjórinn í Reykjavík, hefði bæði eftirlit með eigin gerðum og annarra tollstjóra og því var fyrirhugað að þessi skipan mála væri tekin til endurskoðunar að fenginni nokkurri reynslu.

Þessi kerfisbreyting átti sér stað sennilega 1990. Þá var þetta í höndum tollstjórans í Reykjavík sem á að fá þessi verkefni núna aftur. En 1996 mælir þáv. fjmrh. fyrir þeirri skipan að þetta verði tekið af tollstjóranum í Reykjavík, sem þá var með framkvæmdina á höndum, en yrði sett undir ríkistollstjóraembættið og sagði, herra forseti, og ég ætla að endurtaka það, að ekki gengi til lengdar að eitt hliðsettra stjórnvalda, tollstjórinn í Reykjavík, hefði bæði eftirlit með eigin gerðum og annarra tollstjóra og því var fyrirhugað að þessi skipan mála var tekin til endurskoðunar að fenginni reynslu.

Það er einmitt lagt hér til, svo ég vísi bara beint í frv., herra forseti:

,,Samhliða fyrrgreindri tilfærslu verkefna til fjármálaráðuneytis verður tollstjóranum í Reykjavík falið að fara með tiltekið samræmingarhlutverk svo og að stýra, í samráði við viðkomandi tollstjóra, eftirlitsaðgerðum á landsvísu. Með slíkri hagræðingu er unnt að nýta betur þá fjármuni sem nú er varið til tollkerfisins til þess að styrkja mikilvæga þætti í starfsemi þess. Þar er einkum horft til herts fíkniefnaeftirlits og bættrar tollheimtu. Gert er ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík geti haft umsjón með rannsókn tollamála hvar sem er á landinu gerist þess þörf. Þrátt fyrir að tollstjóranum í Reykjavík sé falið að annast, í umboði ráðherra, tiltekna yfirumsjón þessara mála er lögð á það rík áhersla að hann hafi virkt samráð við tollstjóra í hverju umdæmi og að þeir fari með umsjón aðgerða í sínu umdæmi eftir því sem kostur er.``

Auðvitað er hægt að taka undir það með fyrrv. fjmrh., herra forseti, að það gangi ekki að eitt hliðsettra stjórnvalda, tollstjórinn í Reykjavík, hafi bæði eftirlit með eigin gjörðum og annarra tollstjóra og því hafi verið rétt að taka þá skipan mála til endurskoðunar sem þá gilti, á árinu 1996, að fenginni nokkurri reynslu. En nú er verið að hverfa aftur til þess horfs sem fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, mælti gegn fyrir fjórum árum í þessari sömu ríkisstjórn framsóknarmanna og sjálfstæðismanna.

Það er fróðlegt að rifja upp fleiri kafla úr ræðu fjmrh. þegar hann mælti fyrir þessari breytingu á tollalögum fyrir fjórum árum síðan sem segir raunverulega allt sem segja þarf í þessu máli. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er liður í áformum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að kveða skýrar á um hlutverk, ábyrgð og verkaskiptingu milli æðri sem lægri stjórnsýslustiga innan tollakerfisins til að gera það skilvirkara. Jafnframt að tryggja borgurunum betur en nú rétt til að fá efnislega umfjöllun sinna mála, m.a. þegar ágreiningur rís um tollmeðferð vöru.``

Síðan segir: ,,Við gildistöku tollalaga, nr. 55/1987, var ákveðið að stofna nýtt embætti ríkistollstjóra. Sérstakt heimildarákvæði var jafnframt sett í lögin þar sem gert var ráð fyrir að ákveða mætti að tollstjórinn í Reykjavík gegndi starfi ríkistollstjóra auk starfa sinna sem tollstjóri. Þetta fyrirkomulag var einungis hugsað sem liður í undirbúningi að stofnun sjálfstæðs embættis sem hefði með höndum yfirstjórn framkvæmdar tollheimtu og tolleftirlits og eftirlit og boðvald gagnvart einstökum tollstjórum.

Ljóst var að ekki gengi til lengdar að eitt hliðsettra stjórnvalda, tollstjórinn í Reykjavík, hefði bæði eftirlit með eigin gerðum og annarra tollstjóra og því var fyrirhugað að þessi skipan mála væri tekin til endurskoðunar að fenginni nokkurri reynslu. Nú að tæpum níu árum liðnum frá setningu tollalaga er fengin nokkur reynsla af þeirri skipan tollstjórnarinnar og ýmsum þeim lagafyrirmælum sem þá voru lögfest.`` --- Ég vek athygli á því að hæstv. fyrrv. fjmrh. er að lýsa því ástandi sem ríkisstjórnin vill innleiða á nýjan leik. Ég endurtek orð hæstv. ráðherra: ,,Nú að tæpum níu árum liðnum frá setningu tollalaga er fengin nokkur reynsla af þeirri skipan tollstjórnarinnar og ýmsum þeim lagafyrirmælum sem þá voru lögfest. Verður að telja í ljósi fenginnar reynslu að nauðsynlegt sé að gera á lögunum ýmsar breytingar bæði að því er varðar yfirstjórn tollamála og einstök ákvæði er mæla fyrir um tolleftirlit, álagningu, innheimtu og úrlausn ágreiningsmála. Grundvallaratriði í allri stjórnsýslu er að réttarstaða þeirra sé skýr sem framfylgja eiga eða hlíta þeirri löggjöf sem gildir á hverjum tíma um tollamál. Gildir það jafnt um sambandið á milli æðra og lægra setts stjórnvalds og samskipta borgaranna við þessi stjórnvöld.``

Herra forseti. Ég er hér að ljúka því að fara yfir orðrétta tilvitnun úr ræðu fyrrv. fjmrh.

Við setningu tollalaga árið 1987 var sá kostur valinn að heimila ráðherra að fela tollstjóranum í Reykjavík að hafa eftirlit með og boðvald yfir hliðsettu stjórnvaldi. Jafnframt var ákveðið að setja tollgæsluna í heild sinni undir yfirstjórn ríkistollstjóra og fela sérstökum tollgæslustjóra stjórn hennar líkt og áður.

Fram kom hjá þáv. fjmrh. að reynslan af þessu fyrirkomulagi hafi leitt í ljós að staða þessara aðila væri stjórnunarlega og stjórnskipulega óæskileg og valdmörk milli þeirra óljós.

Herra forseti. Það er þetta sem ríkisstjórnin er að innleiða á ný og hæstv. fyrrv. fjmrh. lýsti mjög vel 1996. Fram kom hjá þáv. fjmrh. að reynslan af þessu fyrirkomulagi hafi leitt í ljós að staða þessara aðila væri stjórnunarlega og stjórnskipulega óæskileg og valdmörk milli þeirra óljós. Það var þegar tollstjórinn í Reykjavík fór með það hlutverk sem á nýjan leik á að færa honum með þessu frv. Orðrétt sagði síðan fjmrh.:

,,Sé á annað borð talin ástæða til þess að færa yfirstjórn vissra þátta tollamála sem stjórnunarlega eiga undir fjármálaráðuneyti ætti tvímælalaust að fela hana sjálfstæðu embætti og kveða nánar í lögum á um verkefni sem það bæri ábyrgð á, svo og að kveða skýrt á um stöðu lægra settra tollyfirvalda gagnvart slíku embætti.``

Eins og fram kom hjá trúnaðarmönnum starfsfólks, herra forseti, þá hefur engin úttekt farið fram á kostum og göllum þeirra kerfisbreytinga sem nú á að fara að gera með því að færa tollskipulag aftur til fyrra horfs sem fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, gagnrýndi mjög fyrir fjórum árum. Þessi hugmynd virðist að mestu snúast um að nota tækifærið og gera þessa breytingu af því að núv. ríkistollstjóri lætur af störfum um næstu áramót.

Herra forseti. Það vantar mjög mikið á, svo vægt sé til orða tekið, að faglega sé hér staðið að verki og að haldbær rök séu sett fram fyrir því að flýta þurfi svo þessari breytingu að ekki sé hægt að gefa Alþingi eðlilegan tíma til að fjalla um málið. Þetta er, herra forseti, mjög skýrt dæmi um hroðvirknisleg og ómarkviss vinnubrögð sem virðast ganga gegn grundvallarreglu stjórnsýsluréttar.

[16:45]

Á meðal þess sem þyrfti að kanna eru hugmyndir fyrrv. fjmrh. um að breyta núverandi skipan á þann veg að taka rannsóknarþátt tollamála frá ríkistollstjóra líkt og gert var árið 1992 í skattamálum. Nefndi fyrrv. fjmrh. að skoðað hefði verið hvort ekki væri æskilegt að færa rannsóknarþáttinn undir embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins og sameina vissa þætti tolla- og skattamála. Ekki gafst ráðrúm í nefndinni til að kanna þennan þátt málsins fremur en annað sem að þessu máli snýr.

Ekkert er kannað í þessu efni hvað best er að gera í þessu sambandi, engin úttekt liggur fyrir þar sem menn geta metið kosti og galla ýmissa leiða heldur er bara keyrt beint strik inn í fortíðina aftur, sem fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, varar við, herra forseti.

Við í nefndinni kölluðum eftir því hvort ekki væri nauðsynlegt að bera saman hvort forsendur væru þá líka til að leggja niður ríkislögreglustjóraembættið vegna þessarar stefnubreytingar ríkisstjórnarinnar sem gefur skoðun og stefnu fyrrv. fjmrh. langt nef í þessu máli. Ef þessi stjórnskipulega breyting er rétt og eðlileg, herra forseti, af hverju þá ekki að skoða embætti ríkislögreglustjóra einnig, að leggja það niður, ef rétt er og eðlilegt að fara þessa leið? Það embætti hefur þanist út á kostnað almennrar löggæslu í landinu og er orðið miklu stærra, bæði í rekstri og húsnæði en áætlað var í upphafi. En verksvið þess embættis, ríkislögreglustjóraembættisins, er hliðstætt ríkistollstjóraembættinu, eins og að hafa með höndum samræmingar-, eftirlits- og rannsóknarstarf. Og væri fróðlegt að heyra frá hæstv. fjmrh. hvort hann sé ekki með það í undirbúningi að beita sér fyrir því að beina því til dómsmrh. að skoða það að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra, sem hefur með höndum samræmingar-, eftirlits- og rannsóknarstörf með líkum hætti og ríkistollstjóraembættið. En það gafst ekki ráðrúm til þess í nefndinni, í þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem þar voru viðhöfð af meiri hlutanum, að bera þessi tvö embætti saman, sem eðli máls samkvæmt var sjálfsagt að gera, ef það er skynsamleg stefna að leggja þetta embætti niður, og skoða þá einnig að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra, sem er með samræmingar-, eftirlits- og rannsóknarstörf undir höndum með sama hætti og ríkistollstjóraembættið. En svo mikið lá á að nefndin fékk ekki tíma til þess að skoða það.

Í umsögn Tollvarðafélags Íslands kemur m.a. fram að þeirri spurningu sé ekki nógu vel svarað hvers vegna embætti ríkistollstjóra er lagt niður og allt tal um hagræðingu og betri nýtingu mannskaps og auðveldari rannsókn mála hljómar einkennilega á sama tíma og stjórnvöld eru að gera embætti ríkislögreglustjóra og ríkisskattstjóra veigameiri til að auðvelda fyrrgreind atriði. Í ljósi þess sé mjög erfitt að skilja framlagningu frumvarpsins og tilflutning verkefna til ráðherra og tollstjórans í Reykjavík.

Ljóst er að samkvæmt frv. verður tollstjóranum í Reykjavík m.a. falið samræmingarhlutverk á landsvísu og umsjón með rannsókn tollamála hvar sem er á landinu og að stuðla að bættri tollheimtu tollembættanna og þar með talið síns eigin.

Á tollstjórinn í Reykjavík þá að hafa eftirlit með sjálfum sér í þessu efni? Ýmsar spurningar vakna í þessu máli. Ég vænti þess, herra forseti, að það liggi ljóst fyrir í málflutningi okkar hvað hér er hroðvirknislega staðið að verki og hvað vinnubrögðin eru þinginu til skammar í þessu máli. Hægt er að fullyrða, herra forseti, að málið hefur ekki fengið þinglega meðferð. Meiri hlutinn ræður auðvitað, en a.m.k. er hægt að segja að gengið er mjög á lýðræðislegan rétt minni hlutans, lýðræðið er fótumtroðið. Þeir sem skipa meiri hlutann víla það ekki fyrir sér að ganga svo svínslega á rétt minni hlutans eins og hér er gert. Málinu er þjösnað úr nefnd í fullkominni andstöðu við minni hlutann.

Ljóst er að breytingin sem hér er verið að gera er til þess fallin að auka á óskýrleika stjórnsýslukerfisins og ljóst er að með því að setja hliðsett stjórnvald yfir önnur á sama sviði er verið að bjóða upp á hagsmunaárekstra. Ég sé ekki annað en að verið sé að bjóða upp á hagsmunárekstra með þessu. Stjórnsýsla ríkisins er stigskipt á þann hátt að æðri stjórnvöld hafa yfirstjórn og eftirlit með þeim stjórnvöldum sem lægra eru sett og breytingar á innbyrðis sambandi stofnana eða annarra stjórnvalda hljóta því að þurfa mikillar skoðunar við, herra forseti, áður en þær eru framkvæmdar. Þróun stjórnsýslukerfisins hér á landi hefur hin síðustu ár verið ákaflega ómarkviss og handahófskennd og frumvarp þetta er þar engin undantekning á. Minni hlutinn leggur til að mótuð verði framtíðarstefna um þróun stjórnsýslukerfisins þar sem m.a. er tekin afstaða til þess í hvaða tilvikum sé réttlætanlegt að setja á fót eða leggja niður stjórnsýslustofnanir á borð við þá sem hér er til umræðu. Slíkar breytingar á ekki að framkvæma með hraði og án þess að afleiðingarnar séu ljósar eða hvaða áhrif þær breytingar hafa.

Við höfum auðvitað reynsluna sem ég var að vitna í til að styðjast við og hæstv. fyrrv. fjmrh. gerði glögga grein fyrir úr þessum sama ræðustól fyrir fjórum árum. En á það hlustar meiri hlutinn greinilega ekki og er staðráðinn í að þjösna þessu máli með offorsi og ólýðræðislegum hætti í gegnum þingið.

Ástæða væri til, herra forseti, að fara yfir langar umræður sem áttu sér stað um frv. fyrir fjórum árum. Ég er hér bara með hluta af þeim umræðum. Þegar ég óskaði eftir að fá þær úr skjalasafninu kom þykkur bunki. Það var að yfirveguðu og vel ígrunduðu máli sem fyrrv. fjmrh. beitti sér fyrir þeirri breytingu sem nú er verið að leggja af. Því er ástæða til að fara yfir þær umræður í ljósi þess hvernig meiri hlutinn er að troða málinu með ólýðræðislegum hætti í gegnum þingið. Ég spyr: Hefur hv. formaður efh.- og viðskn. ekkert samviskubit yfir því að óvirða þessa virðulegu stofnun sem hann vinnur nú í? Hv. þm. hefur ekkert samviskubit yfir því, brosir bara úr sínum stól þarna úti í salnum.

En við í minni hlutanum höfum áhyggjur af því hvernig vinnubrögðum er háttað í þessu máli. Við viljum skoða kosti og galla þess að fara út í slíka kerfisbreytingu. Við neitum henni ekkert fyrir fram en við viljum að hún sé tekin einmitt á grundvelli þess sem ég sagði áðan að mótuð verði framtíðarstefna um þróun stjórnsýslukerfisins þar sem tekin er afstaða til þess í hvaða tilvikum réttlætanlegt sé að setja á fót eða leggja niður stjórnsýslustofnanir á borð við þá sem hér er til umræðu. Slík fagleg vinnubrögð viljum við hafa uppi í þessu máli sem öðrum. Það kann ekki góðri lukku að stýra að standa að málum eins og hv. meiri hluti hefur gert.

Ég hef farið yfir umsögn Tollvarðafélagsins. Fjórir af trúnaðarmönnum starfsmanna eru í Tollvarðafélaginu, stór hluti þeirra er í SFR og þeir mótmæltu mjög hvernig að verki er staðið, höfðu áhyggjur af því hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir þau mikilvægu störf sem sinnt er á tollasviðinu og óskuðu eftir því af fyllstu einlægni að reynt yrði að standa þannig að málum að gildistakan ætti sér ekki stað með þeim hraða sem hér er lagt til og svigrúm skapaðist bæði fyrir starfsmenn og til að undirbúa þessa endurskipulagningu með faglegri hætti en hér er gert og að menn gætu séð fyrir sér, áður en frv. yrði að lögum, hvaða áhrif þessi breyting hefði og menn gætu á yfirvegaðan hátt metið kosti hennar og galla. En eftir því er ekki farið, herra forseti, hvað mikið sem við í minni hlutanum leggjum áherslu á það og einnig starfsfólk embættisins.

Sýslumannafélagið sendi inn umsögn og þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir því að tollstjórinn í Reykjavík skuli í umboði ráðherra annast samræmingu tollframkvæmdar og eftirlits- og rannsóknarstarfa á tollsvæði íslenska ríkisins. Þótt vissulega kunni hin ætlaða skipan að styðjast við hagkvæmnissjónarmið vegna stærðar tollstjóraembættisins í Reykjavík verður að hafa í huga að raunin verður sú, að hliðsettum embættismanni er ætluð samræming starfa annarra hliðsettra embættismanna.``

Maður sér alveg fyrir sér, herra forseti, hvernig framkvæmdin á þessu getur orðið þegar svona er staðið að verki. Þetta er ekki stjórnsýslulega rétt að hafa slíka skipan á málum.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Hann getur að eigin frumkvæði [þ.e. tollstjórinn í Reykjavík] eða samkvæmt kæru hafið rannsókn á hverju því atriði og svo framvegis segir í greininni. Aðrir tollstjórar skulu veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd starfanna. Þar með er ítrekað boðvald hans gagnvart öðrum tollstjórum.``

Þar með er ítrekað boðvald sem hliðsettur embættismaður hefur, að hann hefur boðvald yfir öðrum hliðsettum embættismanni. Ekki er nú bragur að þessu í stjórnsýslunni, herra forseti, að standa þannig að málum. Það er þetta sem við vildum fá að skoða nánar.

Síðan segir í umsögninni frá sýslumönnum, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt h. lið (37. gr.) getur hann`` --- enn er verið að tala um tollstjórann í Reykjavík --- ,,skriflega og með rökstuddum hætti mælt fyrir um að afgreitt mál skuli tekið upp að nýju, að uppfylltum nánari skilyrðum. Enn ber að sama brunni, boðvald hans yfir hliðsettum embættismönnum.``

Síðan segir: ,,Skammur tími hefur gefist til þess að skoða boðaðar mjög veigamiklar breytingar á tollalögunum. Þar með kann ýmislegt að yfirsjást. Með þeim fyrirvara eru þessar athugasemdir settar fram. Ekki hefur gefist tækifæri til þess að ræða frumvarpið á félagsfundi og það ekki verið kynnt félagsmönnum Sýslumannafélagsins sérstaklega af hálfu fjármálaráðherra.``

Svo mikill hraði er á þessu máli, svo skammt er frá því að það var lagt fram að það er ekki einu sinni víst að allir sýslumenn viti um þessa breytingu sem hér á að ganga yfir.

[17:00]

Herra forseti. Auðvitað á að vísa því máli frá sem við ræðum hér. Ekki er boðlegt að ræða þetta undir lok þingsins með þessum hraða. Ég vísa fyrir hönd minni hlutans allri ábyrgð á málinu á hendur ríkisstjórninni og tel, herra forseti, eðlilegt og rétt og í samræmi við efni málsins og hvernig að því er staðið að vísa því frá. Ég vona, herra forseti, að meiri hlutinn sjái að sér áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu og mun á síðari stigum umræðunnar fara frekar yfir þær umsagnir sem borist hafa og þá athyglisverðu umræðu sem fram fór um málið á árinu 1996 sem sýnir fram á hvernig fyrrv. fjmrh. vildi þá standa að málum sem meiri hluti þingsins er nú að gefa langt nef.