Tollalög

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 17:07:53 (3522)

2000-12-16 17:07:53# 126. lþ. 52.8 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður eiginlega að svara því hvað hefur gerst síðan 1996 þegar fyrrv. hæstv. fjmrh. var að mæla fyrir þeirri breytingu sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er nú að mæla með að verði lögð af. Fór hæstv. fyrrv. fjmrh. bara með bull og fleipur á þeim tíma fyrir fjórum árum? Studdi hv. þm. ekki þá breytingu sem við kölluðum eftir í nefndinni? Hvað hefur gerst síðan fyrir fjórum árum sem kallar á þessa breytingu? Hv. þm. svaraði því ekki í efh.- og viðskn. en ætti auðvitað að sjá sóma sinn í því að svara því úr ræðustóli. Mun hann ekki eðli máls samkvæmt, ef hann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér, beita sér fyrir því að embætti ríkislögreglustjóra verði einnig lagt niður? Bæði þessi embætti hafa með höndum samræmingar-, eftirlits- og rannsóknarstarf gagnvart öðrum embættum á landsvísu. Nú er verið að færa þetta til tollstjórans í Reykjavík þannig að hann mun hafa samræmingar-, eftirlits- og rannsóknarstarf með höndum gagnvart öðrum hliðstæðum embættum á landsvísu. Þetta er það sem stendur eftir, herra forseti, að hv. þm. svari því hvort hann muni ekki fylgja málinu eftir og beita sér fyrir því ásamt væntanlega hæstv. fjmrh. að embætti ríkislögreglustjóra, sem er samræmingar- og eftirlitsapparat, sem hefur þanist út í kerfinu, verði sett næst upp á teikniborð og skoðað að leggja það niður.

En eftir orðaskipti okkar, herra forseti, er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson búinn að gera hæstv. fyrrv. fjmrh. ómerkan orða sinna, eins og hann sagði og er vitnað í í Alþingistíðindum og hv. þm. ætti að rifja upp í kvöld áður en hann fer að sofa.