Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 49  —  49. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á umfangi vændis.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,
Össur Skarphéðinsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson,
Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa vinnuhóp sem kanni umfang vændis á Íslandi. Í vinnuhópnum verði m.a. fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, Háskóla Íslands, Stígamótum og embætti ríkislögreglustjóra og landlæknis.
    Vinnuhópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2001.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á síðasta löggjafarþingi og er nú endurflutt nær óbreytt.
    Mikil umræða hefur farið fram á síðustu mánuðum um það hvort vændi sé stundað á Íslandi og þá hvert sé eðli þess og umfang. Ekki hafa nýlega verið gerðar rannsóknir sem hægt væri að nýta í þeim tilgangi að skoða þessi mál.
    Vændi er alþjóðlegt vandamál sem spyr ekki um landamæri og það er ekkert sem segir að það sé ekki hér á landi eins og annars staðar. Sifjaspell og kynferðisafbrot, t.d. gagnvart börnum, reyndust hlutfallslega engu færri hérlendis en í nágrannalöndunum þegar farið var að ræða þessi viðkvæmu mál.
    Mikilvægt er að skoða eðli vændis, þ.e. fylgdarþjónustu, símaþjónustu, netið, dansstaði o.fl., og hvort það er frábrugðið því sem gerist annars staðar, t.d. í öðrum norrænum ríkjum. Áríðandi er að athuga hvaða hópar stunda vændi hér á landi. Hér er ekki einungis átt við konur því einnig er vitað um vændi meðal karlmanna í öðrum löndum og nauðsynlegt að skoða hvort um slíkt er að ræða hér, enn fremur í hvaða mæli yngri aldurshópar eiga í hlut. Jafnframt er mikilvægt að reyna að komast að því hverjir það eru sem nýta sér vændi. Margar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis, t.d. í Finnlandi, Þýskalandi og víðar. Einnig þarf að kanna sérstaklega vændi sem fram fer á netinu og gera úttekt á því en vitað er að þar eiga sér stað kaup á margs konar kynlífsþjónustu. Í Svíþjóð hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á þessu sviði, bæði á umfangi og eðli þess sem er í boði og hvernig hægt er að stemma stigu við því.
    Til þess að koma með lausnir og viðbrögð við því sem virðist vera að gerast í samfélaginu er nauðsynlegt að skoða þessi mál frá sem flestum hliðum til að koma með raunhæfar tillögur og lausnir á vandanum eins og aðrar þjóðir hafa gert. Unnt verði að skoða hvaða lagabreytingar þarf að gera til að stemma stigu við vændi og hvort og þá hvaða samfélagslegar lausnir eru til staðar sem eru nothæfar til þess að leysa vandamál þeirra sem ratað hafa í slíka ógæfu. Slík könnun gerir kleift að áætla hvernig á að bregðast við vandamálum sem upp koma, svo sem varðandi forvarnir og kynsjúkdóma, en slíkt er mikið vandamál, t.d. í Eystrasaltslöndunum og í Rússlandi. Þar er glímt við kynsjúkdóma sem fyrir löngu hefur verið útrýmt á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að vinnuhópur af þessu tagi sé samsettur þverfaglega. Þannig sé tryggt að fram komi sem flestar hliðar á málinu og þar af leiðandi fjölbreyttar lausnir.