Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 73  —  73. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á jarðalögum, nr. 65 31. maí 1976, með síðari breytingum.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Svanfríður Jónasdóttir, Jóhann Ársælsson,
Sigríður Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir.


1. gr.

    Á eftir 72. gr. laganna kemur ný grein er verður 73. gr. og orðast svo:
    Lög þessi falla úr gildi eigi síðar en 1. janúar árið 2002.

2. gr.

    Á eftir síðustu grein laganna kemur svofellt ákvæði til bráðabirgða:
    Fyrir 1. október árið 2001 skal ráðherra hafa lokið við að endurskoða ákvæði jarðalaga og skal hann leggja frumvarp að nýjum jarðalögum fyrir þingið sem þá hefst. Markmið endurskoðunarinnar skal vera að tryggja eigendum bújarða sambærileg réttindi til ráðstöfunar á jörðum sínum og fasteignum, sem á þeim kunna að vera, og gilda almennt um ráðstöfunarrétt einstaklinga og lögaðila á fasteignum, þar á meðal rétt til að nýta þær eins og þeir sjálfir kjósa, selja þær eða leigja, ráðstafa þeim til erfingja eða nýta til annars en hefðbundinna búskaparnota, enda gangi það ekki gegn ákvæðum annarra laga, svo sem skipulagslaga og laga um náttúruvernd. Eigi þurfi að afla leyfis viðkomandi sveitarstjórnar né annarra opinberra aðila um slíka ráðstöfun á bújörðum eða fasteignum á þeim né til annarra nytja en hefðbundinna búskaparnota, enda séu ákvæði skipulagslaga og náttúruverndarlaga virt, en telji viðkomandi sveitarstjórn að fyrirhuguð ráðstöfun á bújörðinni eða fasteignum á henni við eigendaskipti gangi gegn hagsmunum sveitarfélagsins geti sveitarstjórn öðlast forkaupsrétt á jörðinni innan tiltekinna tímamarka, sem lögin ákveði.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Núgildandi jarðalög leggja óeðlilegar kvaðir á eigendur bújarða um ráðstöfun á þeim með leigu, sölu eða til erfingja svo og um nýtingu á bújörðum til annars en hefðbundins búskapar. Með þessum takmörkunum er eignarréttur bænda stórlega skertur og verðmæti bújarða þeirra og fasteigna á þeim rýrð umtalsvert. Völd jarðanefnda og sveitarstjórna til afskipta af réttindum eigenda bújarða til nýtingar og ráðstöfunar á eignum sínum er bæði óeðlilegur og óæskilegur þar sem umræddir aðilar geta bæði í senn neitað eiganda bújarðar um þau not á eignum sínum, sem viðkomandi telur hagfelldust, jafnframt því að neita honum um að selja eða leigja þeim aðila, er hann kýs. Eru jafnvel dæmi þess, að umræddir opinberir aðilar hafi nánast þvingað bónda til að selja bújörð sína öðrum aðila en hann sjálfur kaus og við mun lægra verði en hann hefði getað fengið. Þá hafa umræddir aðilar einnig heimildir til afskipta af því hvernig bóndi hyggst ráðstafa eignum sínum til erfingja. Slík afskipti af hálfu opinberra aðila eru fortakslaust óeðlileg og víðs fjarri þeim reglum sem gilda um ráðstöfun eigenda á öðrum fasteignum.
    Gildandi jarðalög eiga rætur sínar að rekja til allt annarra aðstæðna í landbúnaði en nú eru. Tilgangur þeirra var m.a. að tryggja eftir föngum að bújarðir, þar sem hefðbundinn búskapur var stundaður við setningu laganna, yrðu ekki teknar til annarra nota nema þá að fengnu sérstöku leyfi opinberra aðila. Við síðustu endurskoðun laganna var þessu markmiði áfram viðhaldið, jafnvel þótt aðstæður bænda til hefðbundins búskapar hefðu stórlega breyst, en þeim ákvæðum auk þess bætt við að binda samþykki fyrir jarðasölu þeim skilyrðum að væntanlegur kaupandi hafi í allt að tvö ár samfellt haft fasta búsetu á jörðinni eða í næsta nágrenni hennar og skuldbindi sig auk þess til þess að eignin verði áfram nýtt til hefðbundins landbúnaðar. Með öllum þessum kvöðum og takmörkunum á ráðstöfunarrétti bænda á eignum sínum hafa þær ótvírætt verið stórlega verðfelldar og því er viðhaldið á sama tíma og ríkisvaldið hefur lagt miklar takmarkanir við hefðbundin búskaparafnot af bújörðum og lagt fram mikið fé til uppkaupa á rétti bænda til hefðbundinna landbúnaðarnytja svo sem vegna sauðfjárræktar.
    Löngu er því tímabært að endurskoða gildandi jarðalög með það að markmiði að tryggja bændum sömu réttindi til afnota, leigu og sölu á eignum sínum og heimiluð eru öðrum eigendum fasteigna.
    Fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps flutti ásamt öðrum þáverandi alþingismönnum frumvarp þess efnis á Alþingi veturinn 1995–96.
    Frumvarpið gerði ráð fyrir umtalsverðri breytingu á skipan og stöðu jarðanefnda og mikið rýmkuðum heimildum til bænda til að gera þá ráðstöfun á eignum sínum, sem þeir teldu sjálfir hagkvæmasta. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu en því var þá lýst yfir af þáverandi landbúnaðarráðherra og margsinnis ítrekað af eftirmönnum hans að málið væri í skoðun í landbúnaðarráðuneytinu og vænta mætti þess innan skamms að frumvarp um ný jarðalög yrði lagt fram. Það hefur þó enn ekki verið gert þrátt fyrir að með hverju árinu sem liðið hefur þá verður augljósari nauðsyn þess að slíta hlekkina sem gildandi jarðalög eru og hafa verið á rétti bænda til að ráðstafa eignum sínum. Er því sú leið valin hér að leggja til að samþykkt verði „sólarlagsákvæði“ í gildandi jarðalög, þ.e. að þau falli úr gildi eigi síðar en 1. janúar árið 2002, en landbúnaðarráðherra verði jafnframt falið að leggja nýtt frumvarp að jarðalögum fyrir Alþingi haustið 2001, sem muni þá væntanlega leysa gildandi lög af hólmi. Flutningsmönnum þótti rétt að taka af öll tvímæli um í hvaða anda endurskoðun laganna þyrfti að vera, þ.e. að tryggja ætti bændum sambærileg réttindi til ráðstöfunar og nytja á eignum sínum og öðrum eigendum fasteigna, enda bryti sú ráðstöfun ekki í bága við önnur lög, svo sem skipulagslög eða lög um náttúruvernd.