Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 137  —  137. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, með síðari breytingum.

Flm.: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Ragnheiður Hákonardóttir.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í stjórn sparisjóðs skulu sitja fimm menn kosnir af stofnfjáreigendum samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins.
     b.      3. mgr. fellur brott.


2. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Fulltrúaráð skal skipað stofnfjáreigendum hlutaðeigandi sparisjóða samkvæmt samningi þeirra þar um.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu lögin ekki koma til framkvæmda gagnvart einstökum sparisjóðum fyrr en kjörtímabili núverandi stjórna hvers um sig rennur út.

Greinargerð.


    Markmið frumvarps þessa er að afnema þátttöku sveitarfélaga í stjórnum sparisjóða að því leyti sem þátttakan á ekki rætur að rekja til stofnfjár. Gildandi lög gera ráð fyrir að sveitarfélög eigi a.m.k. tvo stjórnarmenn af fimm í öllum sparisjóðum landsins algerlega óháð því hvort viðkomandi sveitarfélög eigi nokkra aðild að stofnun sparisjóðsins eða leggi fram fjármuni þar að lútandi. Margt hefur breyst á undanförnum árum hvað varðar rekstur sparisjóðanna og bankanna almennt. Sparisjóðirnir hafa vaxið hratt að undanförnu og eru í mikilli samkeppni við aðrar bankastofnanir. Í slíku umhverfi og nútímarekstrarumhverfi er afar mikilvægt að stjórnendur fyrirtækja séu fulltrúar þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta, þ.e. stofnfjáreigenda í þessu tilviki. Því skýtur afar skökku við að í stjórn sparisjóða skuli sitja fulltrúar aðila sem oft eiga engra hagsmuna að gæta við rekstur þeirra. Tengsl sveitarfélaga við sparisjóði eru mjög mismunandi og tilviljanakennd og réttlæta á engan hátt 40% stjórnarsetu. Skipan stjórna sparisjóðanna samkvæmt gildandi lögum er óeðlileg og óholl bæði fyrir sveitarfélögin og sparisjóðina.
    Í 1. mgr. 1. gr. er gert ráð fyrir að allir stjórnarmenn séu kosnir af stofnfjáreigendum en ekki að hluta af sveitarfélögum.
    Í 2. mgr. 1. gr. er lagt til að 3. mgr. 36. gr. laganna verði felld brott, enda ekki þörf fyrir ákvæðið þar sem allir stjórnarmenn verða kosnir af stofnfjáreigendum.
    Í gildistökuákvæði 3. gr er gert er ráð fyrir að fulltrúar sveitarfélaganna í stjórnum sparisjóðanna ljúki sínu kjörtímabili og kosið verði í samræmi við nýjar reglur við næstu stjórnarskipti.