Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 264  —  98. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um ólaunaða samfélagsþjónustu í tengslum við dóma og refsingar.

1.    Er fullnusta refsingar með ólaunaðri samfélagsþjónustu takmörkuð við ákveðna brotaflokka?
    
Samkvæmt 22. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, með síðari breytingum, er heimilt að fullnusta allt að 6 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því. Í 26. gr. a sömu laga, sem tók gildi 1. janúar 2000, er heimilað að afplána vararefsingu fésektar, allt að 12 mánaða fangelsi, sem ekki innheimtist, með ólaunaðri samfélagsþjónustu ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því. Lögin takmarka heimildina ekki við ákveðna brotaflokka en mat á því hvort almannahagsmunir mæla gegn ólaunaðri samfélagsþjónustu tengist broti. Takmörkuð lengd fangelsisrefsingar sem heimilað er að afplána með ólaunaðri samfélagsþjónustu útilokar þá sem eru dæmdir fyrir mjög alvarleg brot frá þessu úrræði.

2.    Hafa umsóknir um samfélagsþjónustu borist frá kynferðisafbrotamönnum, og ef svo er, hafa þær verið samþykktar?
    
Fáar umsóknir um samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinnar refsingar hafa borist frá dæmdum kynferðisafbrotamönnum. Fjórir hafa sótt um, þremur umsóknum hefur verið hafnað og ein umsókn verið samþykkt. Þar var dæmd refsing 30 daga varðhald og persónulegar aðstæður mjög sérstakar.

3.    Hvers eðlis er sú samfélagsþjónusta sem umsækjendum stendur til boða að inna af hendi?
    Samfélagsþjónustan fer fram hjá líknar- og félagasamtökum og opinberum stofnunum og er aðallega um að ræða aðstoð við framkvæmdir, viðhald, þrif, umönnun og skrifstofustörf (sjá fylgiskjal).

4.    Hversu margir hafa nýtt sér samfélagsþjónustuna?
    322 hefur verið heimilað að afplána með ólaunaðri samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinnar refsingar, þar af hafa 36 rofið skilyrði samfélagsþjónustunnar og verið gert að afplána eftirstöðvar refsingar í fangelsi.
    Frá gildistöku breytinga á lögum um fangelsi og fangavist, 1. janúar 2000, þegar unnt varð, að vissum skilyrðum uppfylltum, að heimila manni sem fésekt innheimtist ekki hjá að afplána vararefsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, hefur verið samþykkt að 27 dómþolar afpláni með ólaunaðri samfélagsþjónustu í stað vararefsingar. Þar af hefur einn rofið skilyrði samfélagsþjónustunnar og honum verið gert að afplána eftirstöðvar í fangelsi.

5.    Hefur Fangelsismálastofnun verið í samstarfi við einhverja aðila vegna samfélagsþjónustunnar, og ef svo er, við hverja?
    Fangelsismálastofnun er í samstarfi við forsvarsmenn vinnustaða líknar- og félagasamtaka um fyrirkomulag samfélagsþjónustunnar. Jafnframt hefur stofnunin samráð við starfsmenn þessara vinnustaða sem hafa umsjón með dómþolum í samfélagsþjónustu. Enn fremur leitar stofnunin iðulega til lögreglu úti á landi um eftirlit með þeim sem gegna samfélagsþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Ef aðstæður eru sérstakar hefur Fangelsismálastofnun samstarf við áfengisráðgjafa, sálfræðinga, geðlækna, fíkniefnalögreglu o.s.frv.

6.    Hefur verið lagt mat á hvernig úrræðið hefur nýst frá tilkomu þess?
    Ekki hefur verið gerð rannsókn á endurkomum þeirra sem heimilað hefur verið að gegna samfélagsþjónustu í stað afplánunar fangelsisrefsingar en fyrirhugað er að það verði gert á næsta ári. Þá verða fimm ár liðin frá því að samfélagsþjónusta var fyrst lögleidd. Meðal skilyrða samfélagsþjónustunnar er að dómþoli gerist ekki sekur um refsiverðan verknað meðan hann gegnir þjónustunni, neyti hvorki áfengis né deyfilyfja, sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar og hlíti þeim fyrirmælum stofnunarinnar að vinna án undandráttar á tilsettum tíma þau störf sem honum er ætlað að vinna og tilkynna án undandráttar veikindi eða aðrar orsakir fyrir því að hann geti ekki mætt til vinnu og skila læknisvottorði sé þess óskað.
    Fangelsismálastofnun fylgist mjög vel með því að skilyrði þessi séu haldin og er það mat stofnunarinnar að mjög vel hafi tekist til. Rof á samfélagsþjónustu hafa verið um 10%. Svo lágt hlutfall rofa á skilyrðum samfélagsþjónustu, þrátt fyrir kerfisbundið eftirlit, bendir til þess að úrræðið gefist vel.



Fylgiskjal.


Dæmi um vinnustaði þar sem ólaunuð samfélagsþjónusta hefur verið innt af hendi.


ABC – hjálparstarf
Aðaldælahreppur
Akranesbær
Alnæmissamtökin
Áfangaheimilið Byrgið
Áhaldahús Reykjanesbæjar
Bolungarvíkurkaupstaður
Búðahreppur
Byggðasafn Akranesbæjar
Dagvistun aldraðra – Reykjanesbær
Dalvíkurbær
Dvöl – athvarf fyrir geðfatlaða
Félagasamtökin Vernd
Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga
Félagsmiðstöð aldraðra Kjarnalundi –
    Akureyrarbær
Félagsmiðstöð Snæfellsbæjar
Flateyrarhreppur

Foldabær – heimili fyrir alzheimersjúklinga
Foldabær – Reykjavíkurdeild RKÍ
Fræðslu- og frístundasvið Akureyrarbæjar
Garðabæjardeild RKÍ
Geðhjálp
Gerðahreppur
Golfklúbbur Hveragerðis
Góði hirðirinn
Grindavíkurbær
Handknattleiksdeild Breiðabliks
Handknattleiksfélag Kópavogs
Hitt húsið
Hitt húsið – félagsmiðstöð fyrir fatlaða
Hitt húsið – félagsmiðstöðin Tipp Topp
Hjálparsveit skáta í Reykjavík
Hjálpræðisherinn á Akureyri
Hjálpræðisherinn á Íslandi
Hlíðabær – dagvistun aldraðra á vegum RKÍ
Hólmavíkurhreppur
Hvítasunnukirkjan Fíladelfía
Ísafjarðarkaupstaður/elliheimilið Hlíf
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar
Íþróttabandalag Vestmannaeyja
Íþróttafélag fatlaðra
Íþróttafélagið Fylkir
Íþróttafélagið Fylkir/Góði hirðirinn
Kattavinafélagið
Kattholt
Kattholt – Kattavinafélagið
Knattspyrnudeild KA
Knattspyrnufélag Reykjavíkur
Knattspyrnufélagið Fram
Knattspyrnufélagið Haukar
Knattspyrnufélagið ÍA
Knattspyrnufélagið KA
Knattspyrnufélagið Valur
Knattspyrnufélagið Víkingur
Krýsuvíkursamtökin
Krýsuvíkursamtökin/Góði hirðirinn
Landgræðsla ríkisins
Leikfélag Akureyrar
Nafnlausi leikhópurinn
Norræna húsið
Nytjamarkaður – Bolholti 6
Nytjamarkaður RKÍ
Nytjamarkaðurinn
Rauði kross Íslands
Rauði kross Íslands á Austurlandi
Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands
Rockville
Sambýlið að Holtavegi 27
Sambýlið Hrauntungu
Sambýlið Klettahrauni 17, Hafnarfirði
Sauðárkróksbær
Selfosskaupstaður
Skógræktarfélag Rangæinga
Skóla- og menningarskrifstofa Akureyrarbæjar
Snæfellsbær
Stokkseyrarhreppur
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Sumardvalarheimilið Reykjadal
Svifflugfélag Íslands
Svæðisskrifstofa fatlaðra á Vesturlandi
Svæðisskrifstofa Suðurlands um málefni fatlaðra
Tónabær
Valsheimilið/Menningarfélag, Brydebúð
Vesturbyggð
Vin – athvarf fyrir geðfatlaða
Vin – Reykjavíkurdeild RKÍ
Vin – Reykjavíkurdeild RKÍ/Akranesbær
Vistheimilið Bjarg
Vopnafjarðarhreppur
Ölfushreppur