Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 288  —  261. mál.
Frumvarp til lagaum framkvæmd samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.
Bann við jarðsprengjum gegn liðsafla.

    Enginn má nota, þróa, framleiða, verða sér úti um með öðrum hætti, safna birgðum af, varðveita eða flytja jarðsprengjur gegn liðsafla þannig að það stríði gegn samningnum um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra frá 18. september 1997.

2. gr.
Innlent eftirlit.

    Ríkislögreglustjóri fer með eftirlit með framkvæmd laga þessara og samningsins.
    Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu, sbr. lög um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl.

3. gr.
Alþjóðlegt eftirlit.

    Rannsóknarsendinefndum sem starfa á grundvelli samningsins er heimilt að framkvæma hér á landi skoðanir sem kveðið er á um í samningnum í þeim tilgangi að fylgjast með hvort Ísland framfylgir samningsskuldbindingum sínum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og ríkislögreglustjóra skulu vera viðstaddir slíkar skoðanir.
    Þeir sem eru í rannsóknarsendinefnd sem starfar á grundvelli samningsins skulu njóta friðhelgi og forréttinda hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum.

4. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra sem í hlut á getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

5. gr.
Refsiákvæði.

    Brot gegn lögum þessum og reglum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að fjórum árum.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

6. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningi um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra sem samþykktur var í Ósló 18. september 1997 (hér eftir nefndur samningurinn). Jafnframt því að samningurinn bannar notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutning jarðsprengna sem beint er gegn liðsafla skuldbindur hann aðildarríkin til að eyða slíkum sprengjum sem þau eiga eða hafa umráð yfir. Samningurinn tekur hins vegar ekki til jarðsprengna sem beint er gegn skriðdrekum. Samningurinn, sem stundum er nefndur Ottawa-samningurinn, er þriðji alþjóðasamningurinn sem lýtur að jarðsprengjum sem beint er gegn liðsafla. Fyrri samningar, sem gerðir voru árin 1980 og 1996, miða að því að takmarka notkun jarðsprengna gegn liðsafla en þeir skuldbinda ekki aðildarríki líkt og Ottawasamningurinn til að framleiða ekki jarðsprengjur og eyða birgðum. Með þingsályktun 10. mars 1999 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Samningurinn var síðan fullgiltur 5. maí 1999 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember sama ár. Samningurinn er birtur á þingskjali 964 á 123. löggjafarþingi 1998–99.
    Aðdragandi samningsins er hin mikla dreifing og notkun jarðsprengna gegn liðsafla í heiminum og þær afleiðingar sem þetta hefur haft í för með sér. Þrátt fyrir víðtæka hreinsun á jarðsprengjum víða um heim á undanförnum árum er talið að a.m.k. 60–70 milljónir sprengna séu enn faldar í jörðu. Að öllum líkindum er um helmingur sprengnanna á landsvæði tólf ríkja. Talið er að um 10 milljónir sprengna séu í Angóla og svipað magn í hinum kúrdíska hluta Írak. Í Afganistan er álitið að um sex milljónir sprengna liggi niðurgrafnar og um fimm milljónir í Kambódíu. Mikill fjöldi sprengna er og í Bosníu-Hersegóvínu, El Salvador, Eþíópíu, Króatíu, Mósambík og Súdan.
    Samningurinn sem hefur að geyma 22 greinar hafði hinn 27. október 2000 verið undirritaður af 133 ríkjum og fullgiltur af hálfu 107 ríkja. Samningurinn öðlaðist gildi á fyrsta degi sjötta mánaðar eftir að 40. fullgildingarskjalið var afhent, þ.e. 1. mars 1999. Með samningnum var stigið stórt skref til að uppræta jarðsprengjur sem beint er gegn liðsafla. Þó ber að hafa í huga að allmörg ríki hafa ekki gerst aðilar að samningnum. Þar á meðal eru Bandaríkin, Indland, Kína, Rússland og Suður-Kórea.
    Með samþykkt þessa lagafrumvarps, sem samið var í dómsmálaráðuneytinu í samráði við utanríkisráðuneytið, hefur Ísland komið í framkvæmd ákvæðum samningsins hér á landi eins og krafist er af aðildarríkjunum skv. 9. gr. samningsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Meginmarkmið samningsins er að banna notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutning jarðsprengna gegn liðsafla. Í þessari grein er sett fram slíkt bann og er þar vísað beint til samningsins hvað varðar umfang bannsins.
    Í 2. gr. samningsins er að finna skilgreiningu á hugtökum, m.a. þessar:
     1.      „Jarðsprengja gegn liðsafla“ merkir jarðsprengju sem er ætlað að springa sakir nærveru manns, nálægðar hans eða snertingar og gerir einn mann eða fleiri ófæra, særir þá eða drepur. Jarðsprengjur, sem er ætlað að springa sakir nærveru ökutækis, nálægðar eða snertingar þess, en ekki manns, og hafa meðhöndlunarvarnarbúnað, teljast ekki jarðsprengjur gegn liðsafla af þeirri ástæðu að þær eru með þeim búnaði.
     2.      „Jarðsprengja“ merkir hergagn sem koma á fyrir undir yfirborði jarðar eða öðru yfirborði, leggja á það eða koma fyrir í námunda við það og er ætlað að springa sakir nærveru, nálægðar eða snertingar manns eða ökutækis.
     3.      „Flutningur“ merkir, auk eiginlegs flutnings jarðsprengna gegn liðsafla inn á innlent yfirráðasvæði eða út af því, flutning eignarréttar á og yfirráða yfir jarðsprengjunum, en ekki afsal yfirráðasvæðis þar sem jarðsprengjum gegn liðsafla hefur verið komið fyrir.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ríkislögreglustjóri hafi eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Þetta tekur mið af því að lögregla annast framkvæmd vopnalaga, nr. 16/1998. Á varnarsvæðum er gert ráð fyrir að utanríkisráðherra fari með lögsögu í samræmi við lög nr. 106/1954.

Um 3. gr.

    Í 8. gr. samningsins er fjallað um aðstoð og aðferðir við framfylgd samningsins. Er þar gert ráð fyrir að aðildarríkin geti á sérstökum fundi aðildarríkjanna tekið ákvörðun um að senda rannsóknarsendinefnd til þess ríkis sem grunur leikur á um að brjóti gegn ákvæðum samningsins. Rannsóknarsendinefndin sem er skipuð allt að níu sérfræðingum hefur einungis heimild til að dveljast á yfirráðasvæði hlutaðeigandi aðildarríkis í 14 daga. Hlutaðeigandi aðildarríki ber að veita rannsóknarsendinefndinni aðgang að öllum svæðum og mannvirkjum undir stjórn þess þar sem talið er líklegt að unnt verði að afla gagna sem varða meint samningsbrot, þó með þeim undantekningum sem greinir í samningnum.
    Með 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði heimild fyrir slíku alþjóðlegu eftirliti hér á landi í samræmi við ákvæði samningsins. Gert er ráð fyrir að fulltrúar utanríkisráðuneytisins og ríkislögreglustjóra skuli vera viðstaddir skoðanir samkvæmt greininni.
    Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er þeim sem eru í rannsóknarsendinefnd sem starfar á grundvelli samningsins veitt friðhelgi og forréttindi hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum. Í 10. mgr. 8. gr. samningsins segir að þeir sem eru í rannsóknarsendinefnd skuli njóta réttinda og griðhelgi skv. VI. gr. samningsins um réttindi og griðhelgi Sameinuðu þjóðanna sem var samþykktur 13. febrúar 1946. Sá samningur hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 13/1948.

Um 4. gr.

    Í greininni er að finna heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Um 5. gr.

    Í 9. gr. samningsins eru gerðar kröfur um að aðildarríkin geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir og bæla niður starfsemi sem er aðildarríki óheimil samkvæmt samningnum, meðal annars með því að ákveða viðurlög. Hér er lagt til að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ef brot er ítrekað eða stórfellt er lagt til að refsing geti orðið fangelsi allt að fjórum árum. Þá er lagt til að tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögunum verði refsiverð.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um framkvæmd samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla
og um eyðingu þeirra.

    Í frumvarpinu eru lögð til nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum í alþjóðasamningi um bann við notkun jarðsprengna sem Alþingi veitti ríkisstjórninni heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd árið 1999. Samningurinn tók gildi 1. nóvember sama ár. Gert er ráð fyrir að ríkislögreglustjóri fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Ætla má að lítið reyni á slíkt eftirlit hér á landi og er því talið að kostnaðaráhrif af setningu laganna verði óveruleg.