Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 293  —  265. mál.
Frumvarp til lagaum framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)1. gr.
Bann við tilraunum með kjarnavopn.

    Enginn má framkvæma tilraunasprengingar með kjarnavopn eða aðrar kjarnasprengingar þannig að það stríði gegn samningnum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn frá 10. september 1996.

2. gr.
Innlent eftirlit.

    Geislavarnir ríkisins fara með eftirlit með framkvæmd laga þessara og samningsins.
    Geislavarnir ríkisins geta krafist allra upplýsinga og annarra gagna sem nauðsynleg þykja við athugun einstakra mála.
    Geislavarnir ríkisins geta að undangengnum dómsúrskurði gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum. Við framkvæmd athugunar skal lögregla veita Geislavörnum ríkisins nauðsynlega aðstoð.
    Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu, sbr. lög um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl.

3. gr.
Alþjóðlegt eftirlit.

    Eftirlitsmönnum sem starfa á grundvelli samningsins er heimilt að framkvæma hér á landi eftirlit sem kveðið er á um í samningnum í þeim tilgangi að fylgjast með því hvort Ísland framfylgir samningsskuldbindingum sínum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og Geislavarna ríkisins skulu vera viðstaddir slíkar skoðanir.
    Eftirlitsmenn sem starfa á grundvelli samningsins skulu njóta friðhelgi og forréttinda hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum.

4. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra sem í hlut á getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

5. gr.

Refsiákvæði.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að sex árum.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

6. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Jafnframt bætist nýr töluliður við 6. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 147/1998, svohljóðandi:
    11.        Fyrir háttsemi sem greinir í samningi um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn frá 10. september 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningi um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sem samþykktur var í New York 10. september 1996 (hér eftir nefndur samningurinn). Um er að ræða alþjóðasamning sem hefur að geyma ákvæði um bann við hvers konar tilraunum með kjarnasprengingar. Áður hafa verið gerðir samningar um bann við tilraunum í andrúmslofti, í geimnum og neðansjávar (1963), sem og um takmörkun sprenginga við 150 kílótonna styrkleika (1974). Með þingsályktun 13. maí 2000 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Samningurinn var síðan fullgiltur 26. júní sama ár. Samningurinn er birtur á þingskjali 887 á 125. löggjafarþingi 1999–2000.
    Afvopnunarráðstefnan í Genf hóf samningaviðræður um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn 26. janúar 1994. Ráðstefnan gat einungis tekið ákvarðanir með almennu samþykki þeirra ríkja sem tóku þátt í henni og þegar upp var staðið var eitt ríkjanna, Indland, ekki reiðubúið til að samþykkja þau samningsdrög sem samstaða var um að öðru leyti. Af þessum sökum var samningurinn lagður fyrir aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem kallað var saman sérstaklega í þessum tilgangi og samþykkti það samninginn með miklum meiri hluta 10. september 1996. Samningurinn var lagður fram til undirritunar 24. september 1996 og var hann undirritaður af Íslands hálfu sama dag.
    Samningurinn sem hefur að geyma 17 greinar og 2 viðauka hafði hinn 27. október 2000 verið undirritaður af 160 ríkjum og fullgiltur af hálfu 66 ríkja. Samningurinn öðlast ekki gildi fyrr en þau 44 ríki sem tilgreind eru í 2. viðauka við samninginn hafa fullgilt hann. Af þessum ríkjum hafa 30 ríki fullgilt samninginn en 40 undirritað hann. Þrjú ríkjanna, Indland, Norður-Kórea og Pakistan, hafa ekki undirritað samninginn. Kjarnorkuveldin Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland hafa öll undirritað samninginn. Bretland, Frakkland og Rússland hafa jafnframt fullgilt hann.
    Með samningnum er sett á laggirnar sérstök alþjóðastofnun með aðsetur í Vínarborg. Stofnunin samanstendur af þingi aðildarríkjanna, framkvæmdaráði og tækniskrifstofu. Stofnunin hefur umsjón með framkvæmd samningsins og rekstri alþjóðaeftirlitskerfisins og sérstakrar gagnamiðstöðvar.
    Með samningnum er komið á fót eftirlitskerfi til að sannreyna hvort honum sé framfylgt í aðildarríkjunum. Eftirlitskerfið grundvallast af fjórum meginþáttum: alþjóðlegu eftirlitskerfi, staðbundnu eftirliti, samráði og skýringum ríkjanna og loks traustvekjandi aðgerðum. Alþjóðlega eftirlitskerfið samanstendur af alls 321 stöð víðs vegar um heim í samtals 89 löndum. Kerfið er tvískipt, aðalkerfi og varakerfi. Tvær þessara stöðva verða staðsettar hér á landi til mælinga á geislavirkni og jarðhræringum. Stöð til mælinga á geislavirkni tilheyrir aðalkerfinu og verður staðsett á Rjúpnahæð. Verður hún í umsjón Geislavarna ríkisins sem einnig munu sjá um að miðla upplýsingum frá stöðinni til alþjóðlegrar gagnamiðstöðvar sem safnar saman upplýsingum frá stöðvum víðs vegar um heim. Stöð til jarðskjálftamælinga sem Veðurstofa Íslands hefur umsjón með er staðsett í nágrenni Borgarness og er henni ætlað að þjóna varakerfinu. Í staðbundnu eftirliti felst að eftirlitshópur sem skipaður er af tækniskrifstofu stofnunarinnar er sendur til einstaks ríkis í þeim tilgangi að upplýsa hvort tilraunasprenging með kjarnavopn eða nokkur önnur kjarnasprenging hafi verið framkvæmd í bága við samninginn. Með samráði og skýringum milli aðildarríkja er átt við að áður en ríki óskar eftir staðbundnu eftirliti í öðru ríki skuli ríkin fyrst reyna til hlítar að skýra og leysa sín á milli, með eða fyrir milligöngu stofnunarinnar, hvert það mál sem valdið getur áhyggjum um að ekki sé staðið við grundvallarskuldbindingar samkvæmt samningnum. Traustvekjandi aðgerðir samkvæmt samningnum felast í að hvert ríki tilkynni tækniskrifstofunni með fyrirvara hverja þá efnasprengingu af ákveðnum styrkleika sem stendur til að framkvæma á yfirráðasvæði þess.
    Allsherjarbann við kjarnasprengingum hefur mikla þýðingu til að stemma stigu við vígbúnaðarkapphlaupi á sviði kjarnavopna. Samningurinn setur ríkjum skorður í þróun og smíði kjarnavopna, einkum þeim ríkjum sem ekki eiga slík vopn fyrir en hafa í hyggju að koma þeim upp. Einnig hamlar samningurinn gegn frekari þróun nýrra vopna þeirra ríkja sem þegar hafa á að skipa kjarnavopnum. Samningurinn hefur þannig mjög mikið gildi í viðleitni til að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og hefta frekari þróun þeirra.
    Með samþykkt þessa lagafrumvarps, sem samið var í dómsmálaráðuneytinu í samráði við utanríkisráðuneytið, hefur Ísland komið í framkvæmd ákvæðum samningsins hér á landi eins og krafist er af aðildarríkjunum skv. 3. gr. samningsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Meginmarkmið samningsins er að banna hvers konar tilraunir með kjarnavopn og kjarnasprengingar, sbr. 1. gr. samningsins. Í þessari grein er sett fram slíkt bann og er þar vísað beint til samningsins hvað varðar umfang bannsins.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. samningsins skal hvert aðildarríki tilnefna eða setja á stofn umsjónarstjórnvald sem skuli starfa sem miðstöð fyrir tengsl við alþjóðastofnunina og önnur aðildarríki. Í 3. mgr. 4. gr. samningsins er gert ráð fyrir að umsjónarstjórnvaldið taki þátt í eftirliti með því að bann við tilraunum með kjarnavopn sé virt hér á landi. Miðað er við að Geislavarnir ríkisins fari með hlutverk umsjónarstjórnvalds hér á landi.
    Til að framfylgja banni við tilraunum með kjarnavopn og kjarnasprengingar hafa Geislavarnir ríkisins víðtækar heimildir til að krefjast upplýsinga og annarra gagna, sem og að gera vettvangskannanir að undangengnum dómsúrskurði í samræmi við almennar reglur. Við slíkt eftirlit skal lögregla veita Geislavörnum ríkisins nauðsynlega aðstoð.
    Á varnarsvæðum er gert ráð fyrir að utanríkisráðherra fari með lögsögu í samræmi við lög nr. 106/1954.

Um 3. gr.

    Samkvæmt D-lið 4. gr. samningsins hefur hvert aðildarríki rétt til að óska eftir staðbundnu eftirliti á yfirráðasvæði eða á sérhverjum öðrum stað undir lögsögu eða stjórn sérhvers aðildarríkis eða á sérhverju svæði utan lögsögu eða stjórnar ríkja. Tilgangur slíks staðbundins eftirlits er að upplýsa hvort tilraunasprenging með kjarnavopn eða nokkur önnur kjarnasprenging hafi verið framkvæmd í bága við 1. gr. samningsins og að svo miklu leyti sem unnt er að safna saman upplýsingum um hvers kyns staðreyndir sem gætu aðstoðað við að bera kennsl á aðila sem hugsanlega hefur brotið gegn ákvæðum samningsins. Framkvæmdaráðið tekur ákvörðun um hvort orðið verði við beiðni um staðbundið eftirlit. Verði beiðni tekin til greina skal framkvæmdastjóri tækniskrifstofunnar gefa viðkomandi ríki tilkynningu þar að lútandi. Eftirlitið felst í því að eftirlitshópur sem tilnefndur er af framkvæmdastjóra tækniskrifstofunnar er sendur til viðkomandi ríkis. Hvert aðildarríki þarf fyrirfram að samþykkja lista tækniskrifstofunnar yfir skoðunarmenn. Ef framkvæma á skoðun í aðildarríki hafa fulltrúar viðkomandi ríkis rétt á að vera viðstaddir skoðunina og skulu aðstoða ef með þarf. Skoðunarmenn mega samkvæmt samningnum skoða alla þætti er lúta að starfsemi þar sem hugsanlegt er að tilraunasprenging með kjarnavopn eða önnur kjarnasprenging hafi verið framkvæmd.
    Með 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði heimild fyrir alþjóðlegu eftirliti hér á landi í samræmi við ákvæði samningsins. Gert er ráð fyrir að fulltrúar utanríkisráðuneytisins og Geislavarna ríkisins skuli vera viðstaddir skoðanir samkvæmt greininni.
    Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er eftirlitsmönnum sem starfa á grundvelli samningsins veitt friðhelgi og forréttindi hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum.

Um 4. gr.

    Í greininni er að finna heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Það veltur á efni slíkra ákvæða í hlut hvaða ráðherra kemur að setja reglugerð.

Um 5. gr.

    Í 3. gr. samningsins eru gerðar kröfur um að aðildarríkin geri nauðsynlegar ráðstafanir til að koma skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum til framkvæmda. Þannig er hverju aðildarríki gert skylt að banna þá háttsemi sem er óheimil samkvæmt samningnum. Hér er lagt til að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Ef brot er ítrekað eða stórfellt er lagt til að refsing geti orðið fangelsi allt að sex árum. Þá er lagt til að tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögunum verði refsiverð.

Um 6. gr.

    Lagt er til að gerðar verði viðeigandi breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um refsilögsögu til samræmis við 1. mgr. 3. gr. samningsins. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn.

    Í frumvarpinu eru lögð til nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum í alþjóðasamningi um bann við tilraunum með kjarnavopn sem Alþingi veitti ríkisstjórninni heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd árið 2000. Samningurinn var fullgiltur 26. júní sama ár. Samkvæmt frumvarpinu munu Geislavarnir ríkisins fara með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Í tengslum við það eftirlit verður sett upp mælistöð á Rjúpnahæð í Reykjavík án kostnaðar fyrir Ísland. Hins vegar er gert ráð fyrir að Geislavarnir ríkisins kaupi sérstakan hugbúnað til greiningar á mæligögnum og er sá stofnkostnaður áætlaður 2,4 m.kr. Þá er áætlað að árlegur rekstrarkostnaður stofnunarinnar við framkvæmd eftirlitsins verði 1,1 m.kr., aðallega vegna launakostnaðar og utanlandsferða. Ætla má að lítið reyni á eftirlit með kjarnavopnum að öðru leyti hér á landi.