Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 369  —  231. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um samninga um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana við Evrópuríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

     1.      Er í undirbúningi í utanríkisráðuneytinu að gera samninga um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana, miðað við 2–3 mánaða dvöl, við eitthvert þeirra fjórtán ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins sem slíkir samningar hafa ekki verið gerðir við, þ.e. Albaníu, Armeníu, Aserbaídsjan, Bosníu og Hersegóvínu, Búlgaríu, Georgíu, Hvíta-Rússland, Króatíu, Makedóníu, Moldóvu, Rúmeníu, Rússland, Serbíu og Svartfjallaland og Úkraínu?
    Utanríkisráðuneytið hefur hafið undirbúning að gerð samnings við Króatíu um gagnkvæmt afnám skyldu ríkisborgara Íslands og Króatíu til að hafa undir höndum vegabréfsáritun í ferðum milli ríkjanna. Ekki er að svo stöddu unnið að undirbúningi samningsgerðar við önnur þau ríki sem nefnd eru í fyrirspurninni.

     2.      Ef svo er ekki, hver er ástæða þess?
    Samkvæmt Schengen-samningnum skulu aðildarríki samstarfsins framfylgja sameiginlegum viðmiðunum varðandi för fólks, sérstaklega varðandi reglur um vegabréfsáritanir. Ríkin skuldbinda sig til að framfylgja samræmdum reglum um útgáfu á áritunum sem óheimilt er að víkja frá nema með samþykki þegar sérstakar aðstæður krefjast. Þær viðmiðanir sem hér er vísað til fela m.a. í sér að Schengen-ríkin hafa á orðið ásátt um sameiginlega stefnu um það frá hvaða ríkjum krafist er vegabréfsáritana og frá hvaða ríkjum þeirra er ekki krafist. Samkvæmt samningum Íslands vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu fylgir Ísland þessari stefnu. Við núverandi aðstæður er ekki gert ráð fyrir samningagerð við þau ríki sem tilgreind eru í fyrirspurninni fyrir utan Króatíu. Stefna þessi er nú til endurskoðunar.

     3.      Telja íslensk stjórnvöld mikilvægt að ná samningum við eitthvert þessara ríkja um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana?
    Íslensk stjórnvöld telja það eðlilegt markmið í sjálfu sér að einstaklingar geti ferðast á milli ríkja án þess að þurfa að hafa undir höndum vegabréfsáritun. Af Íslands hálfu hefur ekki verið lagt mat á gildi þess að afnema skyldu til vegabréfsáritana gagnvart þeim ríkjum sem hér eru nefnd fyrir utan það sem þegar er í undirbúningi gagnvart Króatíu. Þó er ljóst að stækkun Evrópusambandsins, og þar með Schengen-svæðisins og Evrópska efnahagssvæðisins, gerir það að verkum að semja þarf við sum þeirra ríkja sem getið er í fyrirspurninni.

     4.      Hafa ríkin á Balkanskaga einhverja sérstöðu í þessu sambandi?
    Ekki verður séð að ríkin á Balkanskaga hafi sérstöðu umfram önnur ríki sem nefnd eru í fyrirspurninni. Svo sem fram hefur komið er þegar hafin vinna við samningsgerð við Króatíu. Að mati Schengen-ríkjanna eru aðstæður með þeim hætti í öðrum ríkjum Balkanskaga að ekki er að svo stöddu grundvöllur fyrir frekari samningagerð.