Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 370  —  310. mál.




Frumvarp til laga



um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000.)


Um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu
og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.
1. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. 3.–6. gr. laganna, skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 480 m.kr. renna í ríkissjóð á árinu 2001.

Um afnám laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts
og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila.

2. gr.

    Lögin falla úr gildi 1. janúar 2001.

3. gr.

    Ríkissjóður yfirtekur eignir og skuldir erfðafjársjóðs miðað við stöðu þeirra 31. desember 2000.

Um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt.


4. gr.


    Í stað orðanna „til erfðafjársjóðs“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

Um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingu.
5. gr.

     a.      1. tölul. 39. gr. laganna fellur brott.
     b.      Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 161/1996, um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra, greiðist á árinu 2001 af ráðstöfunarfé sjóðsins kostnaður við félagslega hæfingu og endurhæfingu samkvæmt 27. gr. laganna og kostnaður vegna starfsemi stjórnarnefndar skv. 52. gr. laganna.

Um breytingu á erfðalögum, nr. 8/1962.
6. gr.

     a.      Í stað orðsins „erfðafjársjóð“ í fyrri málslið 1. mgr. 55. gr. laganna kemur: ríkissjóð.
     b.      Síðari málsliður 1. mgr. 55. gr. laganna fellur brott.

Gildistaka.
7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til fjárlaga byggist m.a. á ákveðnum forsendum um að lögum verði breytt til að markmið þeirra nái fram að ganga. Venju samkvæmt hefur slíkum ákvæðum verið safnað í eitt frumvarp. Ákvæðum í frumvörpum af þessu tagi hefur þó farið ört fækkandi á síðustu árum. Það stafar einkum af því að gerð hefur verið gangskör að því að afnema þá tilhögun, sem fest hafði rætur allt of víða og fólst í því, að framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna voru bundin í lög, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna. Með slíkum ákvæðum er fjárveitingarvald Alþingis í raun fyrirfram bundið þegar að fjárlagagerðinni kemur, en það dregur um leið úr þeim áhrifum sem fjárstjórnarvaldi Alþingis er með fjárlögum ætlað að hafa á hagstjórn ríkisins, til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap. Í samræmi við þessi sjónarmið er í 2., 3., og 4. gr., a-lið 5. gr. og 6. gr. frumvarps þessa lagt til að lögbundin ráðstöfun tekna af erfðafjárskatti og erfðafé í Framkvæmdasjóð fatlaðra verði afnumin. Framlög til sjóðsins verða því ákveðin í fjárlögum hverju sinni. Tæknilega er hér um aðra útfærslu að ræða en boðuð hefur verið í 2. tölul. 6. gr. fjárlagafrumvarpsins, en efnislega hefur tillaga ríkisstjórnarinnar um framlög til sjóðsins í fjárlögum næsta árs ekki tekið breytingum.
    Í 1. gr. og b-lið 5. gr. frumvarpsins eru á hinn bóginn lagðar til tímabundnar skerðingar á ráðstöfun lögbundinna gjalda og tekna í samræmi við þau áform sem boðuð hafa verið í 6. gr. fjárlagafrumvarpsins. Í ljósi þess hvern áskilnað 1. mgr. 42. gr. stjórnarskráinnar gerir um efni fjárlaga þykir hins vegar verða að leita eftir heimild til þeirra skerðinga í almennum lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, rennur sérstakur eignarskattur, sem lagður er á samkvæmt lögunum, í sérstakan sjóð sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 2001 er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 630 m.kr. Hér er lagt til að af þessum tekjum renni 150 m.kr. í ríkissjóð, samanborið við 146 m.kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2000.

Um 2.–6. gr.


    Hér er lagt til að tekjur af erfðafjárskatti og erfðafé renni framvegis í ríkissjóð í stað erfðafjársjóðs eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum. Til samræmis eru lagðar til breytingar á erfðalögum, lögum um málefni fatlaðra og lögum um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila. Um nánari skýringar vísast til almennra athugasemda. Jafnframt er hér lagt til að Framkvæmdasjóður fatlaðra standi undir kostnaði við félagslega hæfingu og endurhæfingu og kostnaði við starfsemi stjórnarnefndar á árinu 2001 eins og undanfarin ár.

Um 7. gr.

    Gildistökuákvæði þarfnast ekki skýringa.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001 o.fl.

    Með frumvarpinu eru lögfest ákvæði sem eru nauðsynleg til að áform í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2001 nái fram að ganga. Er annars vegar um að ræða tímabundna ráðstöfun á tekjum af sérstökum eignarskatti í ríkissjóð á árinu 2001 og hins vegar varanlega breytingu á lögum um málefni fatlaðra og afnám ráðstöfunar erfðafjárskatts í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þess í stað verður framlag í sjóðinn ákvarðað í fjárlögum ár hvert. Loks eru tímabundin ákvæði um að Framkvæmdasjóður fatlaðra standi undir kostnaði við félagslega hæfingu og endurhæfingu eins og verið hefur undanfarin ár.
    Verði frumvarpið að lögum renna tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 480 m.kr í ríkissjóð árið 2001, eða 150 m.kr. miðað við áætlaðar tekjur af skattinum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra nemi 235 m.kr. árið 2001 og miðað við áætlaðar tekjur af skattinum verða útgjöld ríkissjóðs 372 m.kr. lægri en ef allar tekjurnar rynnu í sjóðinn. Kostnaður við hæfingu og félagslega endurhæfingu er áætlaður um 10 m.kr árið 2001. Árið 2001 verða því útgjöld ríkissjóðs samtals 532 m.kr. lægri en að óbreyttum lögum.