Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 504  —  350. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs, svo og greiðslur launagreiðanda vegna fæðingarorlofs, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur þeim hluta slíkra greiðslna sem launagreiðandinn fær endurgreiddan úr Fæðingarorlofssjóði.

2. gr.

    Lögin öðlast gildi 1. janúar 2001 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds á því ári og álagningu gjalda á árinu 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Lagt er til að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs, sbr. lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, verði undanþegnar tryggingagjaldi.
    Í 9. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er kveðið á um undanþágur frá gjaldstofni tryggingagjalds. Samkvæmt ákvæðinu eru m.a. eftirlaun og lífeyrir sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðir greiða undanþegin tryggingagjaldi auk annarra bóta sem greiddar eru af Tryggingastofnun ríkisins, þ.m.t. fæðingarorlof.
    Í lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sem taka gildi 1. janúar 2001, kemur fram að Fæðingarorlofssjóður skuli annast greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Skv. 3. og 4. gr. laganna verður Fæðingarorlofssjóður sérstakur lögaðili með sjálfstæðan fjárhag í umsjá félagsmálaráðherra, en sjóðurinn skal skv. 2. mgr. 4. gr. laganna vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Þar sem greiðslur vegna fæðingarorlofs koma úr Fæðingarorlofssjóði en ekki frá Tryggingastofnun ríkisins nær undanþáguákvæði 9. gr. tryggingagjaldslaga ekki til umræddra greiðslna. Því er nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um það eins og hér er lagt til.
    Í frumvarpinu er lagt til að undanþága frá tryggingagjaldi nái jafnframt til greiðslna launagreiðanda sem hann fær endurgreiddar úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 2. málsl. 4. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
    Með lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldrorlof, verður sú breyting að ríkisstarfsmenn í fæðingarorlofi fá greitt úr Fæðingarorlofssjóði en ekki launagreiðslur úr ríkissjóði eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum. Tryggingagjald vegna launagreiðslna ríkisstarfsmanna í fæðingarorlofi hefur á undanförnum árum numið um 10–20 millj. kr. á ári.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990,
um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta varðar undanþágu frá gjaldstofni tryggingagjalds vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt frumvarpinu verða allar greiðslur úr sjóðnum undanþegnar tryggingagjaldi en samkvæmt núgildandi lögum njóta greiðslur vegna fæðingarorlofs greiddar af Tryggingastofnun ríkisins slíkrar undanþágu. Með lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, verður sú breyting að fæðingarorlof ríkisstarfsmanna verður greitt úr Fæðingarorlofssjóði en ekki með launagreiðslum úr ríkissjóði eins og verið hefur. Tryggingagjald vegna launagreiðslna ríkisstarfsmanna í fæðingarorlofi hefur á undanförnum árum numið um 10–20 milljónum kr. á ári. Ríkissjóður verður af þeim tekjum ef frumvarpið verður lögfest en ekki verður séð að það muni hafa áhrif á gjöld ríkissjóðs.