Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 691  —  322. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um menntun í ferðaþjónustugreinum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða menntun er í boði í ferðaþjónustugreinum og í hvaða skólum:
     a.      á framhaldsskólastigi,
     b.      á háskólastigi?


    Á framhaldsskólastigi er menntun í ferðamálagreinum í boði við eftirtalda skóla:
    Menntaskólinn í Kópavogi býður nám á ferðamálabraut. Það er skilgreint sem starfsnám en hægt að bæta við námi til stúdentsprófs. Hægt er að stunda námið bæði í dagskóla og kvöldskóla. Í kvöldskóla er einnig boðið fram nám í gestamóttöku og alþjóðlegt ferðaskrifstofunám (IATA). Leiðsögumannanám er boðið fram við skólann. Það tekur eitt ár og krafist er stúdentsprófs til inngöngu. Námið fer fram með öldungadeildarsniði. Nám í matreiðslu og framreiðslu ásamt öðrum matvælagreinum er boðið fram í Menntaskólanum í Kópavogi. Næsta haust stendur til að gefa kost á námi á flugþjónustubraut og hótelbraut við skólann.
    Í Fjölbrautaskóla Suðurlands er starfrækt ferðamálabraut eins og í Menntaskólanum í Kópavogi.
    Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur boðið fram tveggja ára nám í ferðamálagreinum í samvinnu við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Það stendur ekki til boða eins og er vegna lítillar eftirspurnar.
    Bændaskólinn á Hólum býður fram nám á ferðamálabraut sem einkum er ætlað þeim sem hafa hug á að standa fyrir ferðaþjónustu í sveitum landsins. Námið er metið til eininga við rekstrardeild Háskólans á Akureyri.
    Auk framantalinna skóla bjóða einkaskólar, svo sem Flugleiðaskólinn og Ferðamálaskóli Íslands, fram nám í ferðaþjónustu.
    Símenntunarmiðstöðvar víðs vegar um landið hafa á undanförnum árum gefið kost á námi í svæðaleiðsögu í samvinnu við Menntaskólann í Kópavogi. Um er að ræða 17 eininga nám þar sem lögð er áhersla á ferðaleiðsögu á viðkomandi svæði.

    Eftirtaldir háskólar hafa í boði nám í ferðamálafræði:
    Í Háskóla Íslands, jarð- og landfræðiskor, er hægt að leggja stund á 45 eininga nám í ferðamálafræðum sem lýkur með diplóma. Einnig er hægt að velja ferðamálafræði sem aukagrein (30 einingar) með allmörgum greinum utan sem innan raunvísindadeildar. Það nám var fyrst boðið fram fyrir tveimur árum.
    Háskólinn á Akureyri hefur sl. þrjú ár gefið kost á ferðamálanámi sem hluta af rekstrarfræði við skólann. Af 90 einingum til BS-prófs eru 15 einingar ferðamálagreinar.