Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 733  —  175. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eyvind G. Gunnarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Steinar Þór Guðlaugsson, Sveinbjörn Björnsson og Freystein Sigurðsson frá Orkustofnun, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Samúel Guðmundsson frá Olíuverslun Íslands, Magnús Ásgeirsson frá Olíufélaginu hf., Gest Guðjónsson frá Olíudreifingu og Ingimar Sigurðsson og Sigurð Þráinsson frá umhverfisráðuneyti. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá Orkustofnun, Náttúruvernd ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Hafrannsóknastofnuninni, Olíufélaginu hf., Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Vinnueftirliti ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Þjóðhagsstofnun, Landhelgisgæslu Íslands og Náttúruverndarráði. Þá aflaði nefndin sér gagna frá færeyska olíumálaráðuneytinu.
    Frumvarpinu er ætlað að setja ramma um leit, rannsóknir og vinnslu á kolvetni og flutning þess í landhelgi, efnahagslögsögu og á landgrunni Íslands. Í því er jafnframt kveðið skýrt á um eignarrétt íslenska ríkisins að kolvetni sem finnast kann á yfirráðasvæði þess. Þónokkur umræða hefur verið hér á landi um að kolvetni kunni að finnast undan ströndum landsins og er frumvarpið lagt fram til að bregðast við þeim möguleika í tæka tíð. Frumvarpið er í samræmi við aðra auðlindalöggjöf sem sett hefur verið hér á landi undanfarin ár.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var töluvert rætt um notkun hugtaksins kolvetni þegar átt er við jarðefni á borð við olíu og gas og því velt upp hvort ruglingur kynni að skapast við hugtakið kolvetni (carbohydrates) eins og það er notað í matvælafræði. Hugtakið kolvetni eins og það er notað í frumvarpinu er þýðing á orðinu „hydrocarbon“, en það hefur einnig verið þýtt sem kolvatnsefni. Nefndin telur að best fari á því að nota hugtakið kolvetni áfram þar sem með því fæst innra samræmi gagnvart öðrum hugtökum efnafræðinnar. Þá má nefna að við meðferð málsins var nefndinni kynnt að Íslensk málstöð vísar á Ingvar Árnason, dósent í ólífrænni efnafræði við Háskóla Íslands, um heppilega þýðingu á hugtakinu „hydrocarbon“, en hann er þeirrar skoðunar að rétt sé að nota orðið kolvetni yfir þau jarðefni sem hér er átt við. Auk þess bendir nefndin á að um hugtakið kolvetni eins og það er notað í matvælafræði hafa einnig verið notuð orðin kolhýdröt eða sykrur.
    Nefndin leggur áherslu á að um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis samkvæmt frumvarpinu gilda að sjálfsögðu einnig önnur lög sem kunna að varða starfsemina, svo sem lög um varnir gegn mengun sjávar, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, vinnuverndarlög, náttúruverndarlög og lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Nefndin bendir jafnframt á að „önnur gjöld“ sem tilgreind eru í 15. tölul. 11. gr. frumvarpsins eru gjöld fyrir nýtingu auðlindarinnar í margvíslegu formi. Hugtakið „gjöld“ kemur ekki í veg fyrir það að greiðsla sé innt af hendi með öðrum hætti en beinni peningagreiðslu. Ef til útboðs kæmi á rannsóknar- og vinnsluleyfi yrði að öllum líkindum samið um hvað fælist í „öðrum gjöldum“.
    Nefndin minnir á að þar sem Orkustofnun fer með eftirlit samkvæmt frumvarpinu er brýnt að fullur trúnaður ríki innan hennar við upplýsingasöfnun og meðferð upplýsinga. Í þessu sambandi er einnig vísað til þagnarskyldu opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Nefndin bendir á að brýnt er að hraða landgrunnslýsingu, einkum á Hatton-Rockall svæðinu, vegna hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, en íslensk stjórnvöld þurfa að hafa skilað gildum gögnum þar að lútandi fyrir 16. nóvember 2004. Vakin er athygli á að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson gæti nýst vel í þessu skyni. Eðlilegt er að ráðuneyti iðnaðar, sjávarútvegs og utanríkismála standi sameiginlega að fjármögnun umræddra hafsbotnsrannsókna.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að í 1. gr. komi fram að ákvæði frumvarpsins eigi við utan netlaga til þess að taka af allan vafa þar um. Innan netlaga gilda hins vegar lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
     2.      Lagt er til að í 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. komi skýrt fram að með skilgreiningu frumvarpsins á hafstöð sé m.a. átt við hvers konar flutningstæki sem nýtt eru til kolvetnisstarfsemi á meðan þau liggja við festar. Þegar slíkar hafstöðvar eru í förum gilda um þær siglingalög. Nefndin bendir jafnframt á að lögin taka ekki til hafstöðva sem eru í höfn, enda eru hafnir innan netlaga.
     3.      Lagt er til að 4. og 7. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að skylda verði lögð á iðnaðarráðherra að leita umsagnar hjá sjávarútvegsráðuneyti og umhverfisráðuneyti áður en leyfi er veitt til leitar annars vegar og rannsóknar og vinnslu hins vegar. Með þessu er tryggt að nægt samráð sé á milli þeirra stjórnvalda sem kolvetnisstarfsemi varðar hvað mest. Eðlilegt er að ráðuneytin muni svo ráðgast við undirstofnanir sínar sem hafa sérþekkingu á þeim atriðum sem um er fjallað hverju sinni.
     4.      Lagt er til að orðalag 1. málsl. 4. mgr. 8. gr. verði gert markvissara með því að taka fram að reglan sem þar kemur fram eigi aðeins við þegar sérstaklega stendur á.
     5.      Nefndin leggur til að við 11. gr. um efni rannsóknar- og vinnsluleyfis verði bætt ákvæði þess efnis að í leyfi skuli einnig tilgreina þær tryggingar sem nauðsynlegt er að lagðar verði fram vegna kostnaðar við frágang vinnslusvæðis. Þetta er gert í því skyni að aðili sem hverfur frá rannsókn eða vinnslu kolvetnis geti ekki skilið við vinnslusvæðið án þess að koma því í áskilið horf.
     6.      Lagt er til að ákvæði 21. gr. frumvarpsins verði fellt brott, en ástæðulaust er að kveða á um að önnur lög sem kunna að varða kolvetnisstarfsemi, þar á meðal lög um mat á umhverfisáhrifum, gildi einnig um athafnir samkvæmt frumvarpinu. Framkvæmdir samkvæmt frumvarpinu eru matsskyldar samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, hvort sem þess er getið í frumvarpinu sjálfu eða ekki. Í þessu sambandi vísast einnig til þess sem áður segir að um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis samkvæmt frumvarpinu gildi að sjálfsögðu einnig önnur lög sem kunna að varða starfsemina.
     7.      Nefndin leggur til að „umhverfisvernd“ verði bætt inn í fyrirsögn V. kafla og að við hann verði bætt nýrri grein, sem verði 21. gr., þess efnis að við veitingu leyfis til leitar, rannsókna og vinnslu skuli umhverfissjónarmið í víðtækri merkingu í hávegum höfð.
     8.      Að lokum er lagt til að ákvæði 2. mgr. 28. gr. um niðurfellingu skaðabóta verði fært til samræmis við meginsjónarmið á sviði skaðabótaréttar um að gáleysi tjónþola geti almennt leitt til lækkunar bóta og hugsanlega niðurfellingar þeirra. Gert er ráð fyrir rýmri rétti til að lækka bætur í munatjónum en í líkamstjónum eða tjónum vegna missis framfæranda, en í skráðum réttarreglum um lækkun eða niðurfellingu bóta er slík sjónarmið m.a. að finna í umferðarlögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Árni R. Árnason og Drífa Hjartardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en eru sammála áliti þessu.

Alþingi, 13. febr. 2001.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.




Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir.


Árni Steinar Jóhannsson.



Ísólfur Gylfi Pálmason.