Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 761  —  479. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ályktanir Vestnorræna ráðsins.

Flm.: Árni Johnsen, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Hallvarðsson,     


Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Einar Oddur Kristjánsson.



    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktunum Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á 16. ársfundi þess, að:
     a.      fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að stofna til samstarfs um skjalaöflun og ritun sögu Vestur-Norðurlanda,
     b.      fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að vinna að sameiginlegri vestnorrænni framkvæmdaáætlun í menningarmálum í samstarfi við önnur norræn ríki.

Greinargerð.


    Vestnorræna ráðið hélt ársfund sinn í Þórshöfn í Færeyjum 4.–8. september sl. Þar voru samþykktar tvær tillögur á sviði menningarmála þar sem skorað var á ríkis- og landsstjórnir landanna þriggja að vinna saman að ritun vestnorrænnar sögu annars vegar og hins vegar að gerð yrði vestnorræn framkvæmdaáætlun í menningarmálum.
    Tillaga þessi er flutt til að koma á framfæri við Alþingi samþykktum ályktunum Vestnorræna ráðsins.

Ritun sögu Vestur-Norðurlanda.
    Vestur-Norðurlönd, Færeyjar, Grænland og Ísland, eiga að stórum hluta sameiginlega sögu. Í mörg hundruð ár hefur verið náið samband milli þessara landa sem á síðari árum hefur styrkst og mótast og hefur það ekki verið sterkari en einmitt nú.
    Það er mikilvægt fyrir okkur, Vestur-Norðurlandabúa, að þekkja sögu okkar, og þá ekki bara sögu okkar eigin lands og þjóðar heldur einnig sögu okkar næstu nágranna. Þetta er nauðsynlegt bæði til að skilja þróun þessa svæðis í heild auk þess sem það gæti varpað frekara ljósi á stöðu þessara einstöku landa sem hefur kannski hingað til verið óljós þar sem vantað hefur upp á að sagan væri skoðuð í víðu samhengi.
    Til að skapa enn betri skilyrði fyrir vestnorræna samvinnu er mikilvægt að íbúar Vestur- Norðurlanda hafi aðgang að upplýsingum um sameiginlega fortíð þeirra.

Vestnorræn framkvæmdaáætlun í menningarmálum.
    Vestur-Norðurlönd hafa tekið virkan þátt í norrænu menningarsamstarfi og hefur sú þátttaka án efa verið til mikils gagns fyrir menningarlíf landanna. T.d. hafa bæði norrænar menningarstofnanir á Vestur-Norðurlöndum og mismunandi norræn verkefni og sjóðir eflt menningarlíf landanna. Margir líta á menningarsamstarfið sem kjarnann í norrænu samstarfi. Um það bil 50% fjármagns norrænu ráðherranefndarinnar fer til menningarsamstarfs á Norðurlöndunum. Til að hafa meiri áhrif og fá aukin skilning innan hins norræna menningarsamstarfs er mikilvægt að Vestur-Norðurlönd vinni framkvæmdaáætlun í menningarmálum með öðrum norrænum ríkjum þannig að þau geti talað einni röddu á norrænum vettvangi. Slík áætlun er einnig viðurkenning á því að Vestur-Norðurlönd vilja styrkja samstarf í menningarmálum. Vestnorræna ráðið álítur mjög mikilvægt að gerð verði framkvæmdaáætlun sem fyrst, m.a. vegna þess að verið er að breyta norrænni menningarstefnu. Þær breytingar munu leiða til þess að ákvarðanir um forgangsröðun í norrænu menningarsamstarfi verða pólitískari. Framkvæmdaáætlunin nýtist til að skipuleggja árangursríkt samstarf milli vestnorrænu landanna á sviði norrænnar menningar. Áætlunin þarf m.a. að styrkja stöðu Vestur-Norðurlanda og virkja þau í norrænu menningarsamstarfi og auka áhuga annarra ríkja Norðurlanda á því að styrkja menningartengsl við Vestur- Norðurlönd.