Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 872  —  566. mál.
Frumvarp til lagaum vexti og verðtryggingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

    Lög þessi gilda um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við getur átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar.
    Lög þessi gilda einnig um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    

2. gr.

    Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

II. KAFLI
Almennir vextir.
3. gr.

    Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

4. gr.

    Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

III. KAFLI
Dráttarvextir.
5. gr.

    Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
    Dráttarvextir skulu ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum.
    Nú er ekki samið um gjalddaga kröfu og er þá heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Sé greiðslukrafan sett fram á mánaðardegi sem ekki er til í næsta mánuði skal skuldari greiða dráttarvexti frá og með síðasta degi þess mánaðar.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er ætíð heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi er dómsmál er höfðað um kröfu, sbr. þó 9. gr.

6. gr.

    Dráttarvextir skulu vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana (grunnur dráttarvaxta) auk ellefu hundraðshluta álags (vanefndaálag), nema um annað sé samið skv. 2. mgr. þessarar greinar. Seðlabankanum er þó heimilt að ákveða annað vanefndaálag að lágmarki sjö hundraðshlutar og að hámarki fimmtán hundraðshlutar. Seðlabankinn skal birta dráttarvexti samkvæmt þessari málsgrein eigi skemur en viku fyrir gildistökudaga dráttarvaxta sem eru 1. janúar og 1. júlí ár hvert.
    Heimilt er að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta skv. 1. mgr., að undanskildum neytendalánum. Einnig er aðilum ávallt heimilt að semja um fastan hundraðshluta dráttarvaxta.

7. gr.

    Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.

IV. KAFLI
Vextir af skaðabótakröfum.

8. gr.


    Kröfur um skaðabætur skulu bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þeir skulu á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. málsl. 4. gr.
    Sé fjárhæð skaðabótakröfu miðuð við verðlag síðar en hið bótaskylda atvik varð ber krafan þó vexti skv. 1. mgr. frá þeim tíma.

9. gr.

    Skaðabótakröfur skulu bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geta þó, ef sérstaklega stendur á, ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði um vexti.
10. gr.

    Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst.
    Seðlabankinn skal fyrir lok hvers mánaðar birta í Lögbirtingablaði vexti af óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum skv. 4. gr. og vexti af skaðabótakröfum skv. 8. gr. og skal hver tilkynning lögð til grundvallar í samræmi við lög þessi næsta mánuðinn eða uns næsta tilkynning birtist. Jafnframt skal Seðlabankinn birta í Lögbirtingablaði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., þ.e. grunn dráttarvaxta og vanefndaálag. Seðlabankinn skal um hver áramót birta í B- deild Stjórnartíðinda töflu er sýnir vexti samkvæmt þessari málsgrein á hverjum tíma á næstliðnu ári.
    Auk vaxta skv. 2. mgr. getur Seðlabankinn birt í Lögbirtingablaði aðra vexti lánastofnana.

11. gr.

    Sé mál höfðað til heimtu peningakröfu og krafist vaxta með tilvísun til 4. eða 8. gr. eða dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. má dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Sé mál höfðað til heimtu peningakröfu og dráttarvaxta krafist skv. 2. mgr. 6. gr. skal þó tiltaka hundraðshluta vanefndaálags í stefnu eða hundraðshluta dráttarvaxta sé samið um fasta dráttarvexti.

12. gr.

    Sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Ekki skal bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana.
    Við útreikning vaxta skulu taldir 30 dagar í hverjum mánuði og 360 dagar í ári, nema um annað sé samið eða venja standi til annars.

VI. KAFLI
Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr.

    Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
    Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.

14. gr.

    Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.
    Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

15. gr.

    Seðlabankinn getur að fengnu samþykki viðskiptaráðherra ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Bankinn getur jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna og lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.
    Seðlabankinn setur nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

16. gr.

    Þegar skuldbindingum með ákvæðum um verðtryggingu er þinglýst skal þess gætt að verðtryggingarinnar sé getið í þinglýsingabókum og skulu þær koma fram á vottorðum þinglýsingarstjóra um efni þinglýsingabóka.

VII. KAFLI.


Viðurlög og málsmeðferð.


17. gr.


    Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.

18. gr.

    Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

VIII. KAFLI

Gildistaka.

19. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001. Jafnframt falla úr gildi vaxtalög, nr. 25/1987, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Nú segir í lánssamningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að vextir fram að gjalddaga skuli vera breytilegir í samræmi við vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, meðalútlánsvexti viðskiptabanka og sparisjóða eða meðalútlánsvexti sem Seðlabanki Íslands birtir, eða vísað er með öðrum almennum hætti til vaxta á markaði, og skulu þá vextir af þessum peningakröfum, eftir gildistöku laganna, vera jafnháir vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. að viðbættum 3,5% þegar um óverðtryggða peningakröfu er að ræða og jafnháir vöxtum skv. 2. málsl. 4. gr. að viðbættum 2,5% þegar um verðtryggða peningakröfu er að ræða.
    Nú segir í lánssamningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að vextir fram að gjalddaga skuli vera breytilegir í samræmi við hæstu lögleyfðu vexti á hverjum tíma, hæstu vexti á markaðnum eða vísað er með öðrum almennum hætti til hæstu vaxta á markaði og skulu þá vextir af þessum peningakröfum eftir gildistöku laganna vera jafnháir vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. að viðbættum 4,5% þegar um óverðtryggða peningakröfu er að ræða og jafnháir vöxtum skv. 2. málsl. 4. gr. að viðbættum 3,5% þegar um verðtryggða peningakröfu er að ræða.

II.

    Nú segir í peningakröfu í íslenskum krónum, þar með talinni skaðabótakröfu, niðurstöðu dómsmáls eða öðrum gerningi, gerðri fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma, dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað skv. 10. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir eftir gildistöku laganna reiknaðir skv. 1. mgr. 6 gr. laga þessara.

III.

    Nú segir í lánssamningi í erlendum gjaldmiðli, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma, dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað skv. 11. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir þessir vera ákvarðaðir með sama hætti næstu fimm árin eftir gildistöku laga þessara, en að þeim tíma loknum skulu þeir vera jafnháir þeim dráttarvöxtum í hlutaðeigandi gjaldmiðli sem síðast voru auglýstir af Seðlabankanum í Lögbirtingablaði fimm árum eftir gildistöku laganna.

IV.

    Nú segir í lánssamningi, innlánsskilríki eða öðrum gerningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að fjárhæðir breytist með reikningsgengi SDR eða EUR (SDR- eða EUR-gengisvísitölu) sem Seðlabanki Íslands reiknar út og birtir og skal þá í hverjum mánuði miðað við opinbert viðmiðunargengi EUR eða SDR (kaupgengi) skv. 15. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, á 21. degi undanfarandi mánaðar. Nú er gengi ekki skráð á 21. degi mánaðar og skal þá lagt til grundvallar það kaupgengi er skráð var næst á undan þeim degi. Óheimilt er að taka við innlánum á reikninga sem stofnaðir hafa verið með fyrrgreindum kjörum fyrir gildistöku laga þessara.

V.

    Vísitala neysluverðs, sbr. 14. gr. laga þessara, með grunninn 100 í maí 1988, skal í hverjum mánuði margfölduð með stuðlinum 19,745. Útkoman, án aukastafa, skal gilda sem vísitala fyrir næsta mánuð á eftir, í fyrsta sinn fyrir apríl 1995 gagnvart fjárskuldbindingum sem samið hefur verið um fyrir 1. apríl 1995 og eru með ákvæðum um lánskjaravísitölu þá sem Seðlabankinn reiknaði og birti mánaðarlega samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., sbr. reglugerð nr. 18/1989. Hagstofa Íslands skal birta mánaðarlega í Lögbirtingablaði vísitölu skv. 2. málsl. þessarar málsgreinar.
    Verði gerð breyting á grunni vísitölu neysluverðs skal Hagstofan birta í Lögbirtingablaði margfeldisstuðul fyrir þannig breytta vísitölu í stað stuðulsins sem getið er í 1. mgr.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um lánskjaravísitölu í lögum og hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum öðrum og samningum sem í gildi eru 1. apríl 1995.

VI.

    Eigi skemur en viku fyrir gildistökudag laga þessara skal Seðlabankinn birta dráttarvexti skv. 6. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I.

    Fram til ársins 1987 voru í gildi lög nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl. („okurlög“). Samkvæmt ákvæðum þeirra laga og ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands frá 1961 var bankanum heimilt að ákveða lágmarksvexti innlána og hámarksvexti útlána. Vextir í almennum viðskiptum manna á meðal máttu ekki vera hærri en almennir útlánsvextir banka og sparisjóða. Seðlabankinn nýtti fyrrgreinda lagaheimild og ákvað alla almenna vexti í landinu til febrúar 1984. Þá heimilaði Seðlabankinn bönkum og sparisjóðum að ákveða vexti innlána sem bundin voru til minnst sex mánaða og vexti millibankalána. Í ágúst sama ár veitti Seðlabankinn sömu aðilum heimild til að ákveða alla aðra vexti en af almennum sparisjóðsbókum og endurseljanlegum afurðalánum, dráttarvexti og vexti af skuldabréfum sem gefin höfðu verið út fyrir gildistöku þessarar ákvörðunar. Veruleg hækkun útlánsvaxta banka og sparisjóða strax á haustmánuðum 1984 varð til þess að Seðlabankinn greip aftur í taumana í ársbyrjun 1985 og lækkaði vexti útlána. Hélst þessi skipan fram á árið 1986. Í byrjun þess árs gengu í gildi ný lög um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og lög um sparisjóði, nr. 87/1985. Hinn 1. nóvember 1986 gengu einnig í gildi ný lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986. Með þessari löggjöf færðist heimild til að ákveða vexti banka og sparisjóða til þeirra sjálfra, að því undanskildu að dráttarvexti skyldi Seðlabankinn ákveða.
    Árið 1987 voru sett lög um vexti er komu í stað okurlaganna frá 1960. Með vaxtalögum, nr. 25/1987, var staðfest almennt frelsi til samninga manna á milli um vexti, þó ekki um dráttarvexti sem enn eru ákveðnir af Seðlabankanum. Með vaxtalögunum var Seðlabankanum falið að birta opinberlega upplýsingar um vexti hjá bönkum og sparisjóðum. Þá var honum falið að ákveða dráttarvexti innan tiltekinna marka og að auglýsa meðalvexti á skuldabréfalánum banka og sparisjóða til almennrar notkunar í viðskiptalífinu.

II.

    Frá því að vaxtalög gengu í gildi og almennu samningsfrelsi um aðra vexti en dráttarvexti var komið á hefur íslenskur fjármagnsmarkaður tekið margvíslegum breytingum. Hér skal einungis þeirra helstu getið:
     *      Bankar, sparisjóðir og aðrar helstu lánastofnanir hafa tekið upp kjörvaxtakerfi útlána. Í kjörvaxtakerfi eru lántakendur flokkaðir í nokkra kjörvaxtaflokka eftir fjárhagslegum styrkleika og tryggingum sem þeir geta sett fyrir lánum. Vextir í hverjum flokki eru ákveðnir sem álag á hlutaðeigandi kjörvexti (grunnvexti). Jafnframt hefur fjölbreytni innlánsreikninga aukist.
     *      Afnám síðustu gjaldeyrishaftanna í árslok 1994. Þar með tengdist íslenskur fjármagnsmarkaður erlendum fjármagnsmörkuðum traustari böndum en áður.
     *      Efling hlutabréfamarkaðar og stofnun gjaldeyrismarkaðar.
     *      Veruleg aukning fjárfestinga í erlendum verðbréfum.
     *      Lánsfjáröflun ríkissjóðs með markaðsútboðum og samkomulag fjármálaráðuneytis og Seðlabankans um að ríkissjóður afli sér lánsfjár á markaði en taki ekki lán hjá Seðlabankanum.
     *      Aukin áhersla fyrirtækja og sveitarfélaga á að afla lánsfjár með sölu skuldabréfa á verðbréfamarkaði í stað hefðbundinna bankalána.
     *      Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hafa skapast auknir möguleikar erlendra fjármálafyrirtækja til að veita þjónustu hér á landi.
     *      Sókn innlendra lánastofnana á erlenda markaði með stofnun útibúa og skrifstofa, stofnun dótturfélaga og með kaupum á erlendum bönkum.

III.

    Í ágúst 1994 skipaði viðskiptaráðherra nefnd í því skyni að endurskoða vaxtalögin frá 1987. Í skipunarbréfi hennar sagði að við endurskoðun vaxtalaga skyldi einkum tekið mið af reynslunni frá setningu þeirra, breytingum á fjármagnsmarkaði á undanförnum árum og af ákvæðum hliðstæðra laga erlendis. Í þessu sambandi væri sérstaklega bent á fyrirkomulag á ákvörðun dráttarvaxta, hvaða vexti úr bankakerfinu Seðlabankinn birtir opinberlega og hvaða meðalvexti hann reiknar út. Nefndin lauk störfum í október 1995 og skilaði viðskiptaráðherra frumvarpi til nýrra heildarlaga um vexti og verðtryggingu. Frumvarpið, með verulegum breytingum viðskiptaráðuneytis, var lagt fram á 122. löggjafarþingi 1997–98 en hlaut ekki afgreiðslu.
    Í apríl 2000 skipaði viðskiptaráðherra fimm manna nefnd til að endurskoða vaxtalög, nr. 25/1987. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi var að gera tillögu að breytingum á vaxtalögum til samræmis við réttarþróun erlendis en einnig að tryggja réttaröryggi og einfaldleika í framkvæmd. Nefndin var þannig skipuð: Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti, formaður, Andri Árnason hrl., tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands, Benedikt Bogason, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti, Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, og Finnur Sveinbjörnsson, þáverandi framkvæmdastjóri Sambands íslenskra viðskiptabanka, tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða. Starfsmaður nefndarinnar var Eyvindur G. Gunnarsson, þáverandi lögfræðingur í viðskiptaráðuneyti. Nefndin var einhuga í afstöðu sinni að öðru leyti en því að fulltrúi Sambands íslenskra viðskiptabanka og Sambands íslenskra sparisjóða var andsnúinn takmörkunum á frelsi til samninga um dráttarvexti og þeim hömlum sem áfram verða á notkun verðtryggingar verði frumvarp þetta að lögum.
    Nefndin byggði starf sitt að miklu leyti á vinnu þeirrar nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði í ágúst 1994 og frumvarpi því sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi. Frumvarpið sem hér er lagt fram er þó um ýmislegt ólíkt því frumvarpi. Við samningu þessa frumvarps hefur m.a. verið tekið tillit til umsagna þeirra aðila sem álits var leitað hjá er frumvarp til laga um vexti, dráttarvexti og verðtryggingu var lagt fram á 122. löggjafarþingi. Einnig hefur verið tekið mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 35/2000/EB „Directive of the European Parliament and the Council on combating late payment in commercial transactions“.
    Viðskiptaráðuneytið sendi frumvarpsdrög nefndarinnar til umsagnar í nóvember 2000 og gerði örfáar breytingar í ljósi þeirra umsagna sem því bárust. Sú helsta er að ekki er heimilt skv. 6. gr. frumvarpsins að semja um vanefndaálag af neytendalánum.

IV.

    Í stuttu máli er meginefni frumvarpsins þetta:
    Lagt er til að ný lög um vexti og verðtryggingu komi í stað vaxtalaganna frá 1987. Vaxtalögunum hefur verið breytt sjö sinnum frá því að þau voru sett. Fyrst með lögum nr. 9/1989, síðan lögum nr. 67/1989, lögum nr. 19/1991, lögum nr. 91/1991, lögum nr. 90/1992, lögum nr. 13/1995 og loks með lögum nr. 22/2000. Meðal annars hefur verið bætt við þau tveimur nýjum köflum, um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða (með lögum nr. 67/1989) og um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár (með lögum nr. 13/1995). Nefndin sem vann að gerð frumvarpsins var sammála um að ástæða væri til að breyta fjölmörgum ákvæðum vaxtalaganna, þar á meðal að fella niður kaflann um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Til að auðvelda umfjöllun um efnisatriði og tryggja innra samhengi og réttar tilvísanir innan margbreyttra laga taldi nefndin rétt að leggja til að sett yrðu ný heildarlög í stað laganna frá 1987.
    Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi meginbreytingar á sviði vaxtamála:
     *      Lagt er til að í stað þess að Seðlabankinn ákveði einhliða dráttarvexti af öllum peningakröfum verði aðilum heimilt í lánssamningum að semja um dráttarvexti upp að vissu marki. Samningsaðilar hafa samkvæmt frumvarpinu heimild til að semja um tiltekinn fastan hundraðshluta sem vanefndaálag ofan á ákveðinn grunn dráttarvaxta sem tekur mið af vöxtum algengra skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana. Einnig geta samningsaðilar samið um fasta dráttarvexti.
     *      Lagt er til að sérregla 11. gr. gildandi vaxtalaga um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt verði afnumin og því fari um dráttarvexti af slíkum kröfum samkvæmt almennum reglum. Ástæðan fyrir þessari sérreglu virðist sú að um árabil fyrir gildistöku vaxtalaga hafði íslenska krónan rýrnað í verði gagnvart flestum erlendum gjaldmiðlum, einkum vegna gengisfellinga. Almennt var litið á það sem eins konar verðtryggingu peningakrafna ef þær voru í erlendri mynt. Þessar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi og rökin fyrir því að hafa sérreglu um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt eru því ekki lengur til staðar. Einnig verður að hafa í huga að ósanngjarnt getur verið að um hæð dráttarvaxta af kröfu í erlendri mynt fari samkvæmt íslenskum lögum. Ástæða þess er einkum sú að hæð dráttarvaxta á kröfur í íslenskum krónum tekur mið af styrkleika krónunnar á hverjum tíma. Þykir því rétt að nema úr gildi sérreglu um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt. Áréttað skal að afnám þessarar sérreglu leiðir ekki sjálfkrafa til þess að um dráttarvexti af þeim fari samkvæmt sömu reglum og um dráttarvexti samkvæmt peningakröfum í íslenskum krónum, þ.e. 6. gr. frumvarpsins. Aðra niðurstöðu kann að leiða af reglum alþjóðlegs einkamálaréttar. Þannig geta aðilar samið um að beita skuli lögum tiltekins ríkis við úrlausn ágreinings, m.a. um reglur hvaða ríkis skuli lagðar til grundvallar við útreikning dráttarvaxta. Hafi aðilar ekki samið um hvers lands lögum beita skuli við úrlausn ágreinings skera reglur alþjóðlegs einkamálaréttar úr um það hvaða lög gilda, þar á meðal um útreikning dráttarvaxta.
     *      Lagt er til að þegar samningsaðilar tilgreina ekki vaxtafót verði miðað við vexti sem Seðlabankinn birtir. Skulu þeir taka mið af lægstu vöxtum á nýjum útlánum hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum en ekki veginni meðalársávöxtun af nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Fyrrgreindu vextirnir eru lægri en þeir síðarnefndu. Rétt er að benda á að einungis í undantekningartilvikum reynir á þetta ákvæði vaxtalaga. Reynslan er sú að yfirleitt er einhver vaxtafótur tilgreindur ef á annað borð er áskilið að krafa beri vexti.
     *      Stefnt er að því með frumvarpinu að hvetja aðila til að semja um ákveðna vexti sín á milli en nota ekki almennar viðmiðanir við vexti á markaðnum eins og nú tíðkast, t.d. meðalársávöxtun á nýjum almennum útlánum hjá bönkum og sparisjóðum. Þessir meðalvextir eru ýmsum annmörkum háðir. Í fyrsta lagi hefur orðið æ erfiðara fyrir Seðlabankann að velja vogir til að reikna út meðalvexti eftir því sem kjörvaxtakerfi banka og sparisjóða hefur orðið fjölbreytilegra. Í öðru lagi eru við útreikning á þessum meðalvöxtum notaðir allir vextir af skuldabréfalánum banka og sparisjóða, þ.e. lánum á lágum vöxtum til traustra aðila með góðar tryggingar og lánum á háum vöxtum til aðila með lakari tryggingar og allir vextir þar á milli. Þessir meðalvextir eru síðan notaðir í ríkum mæli í samningum manna á milli utan bankakerfisins án þess að tillit sé tekið til mismunandi aðstæðna lántakenda. Þetta getur þýtt að aðilar sem taka lán utan bankakerfisins með góðum tryggingum greiða í raun hærri vexti en eðlilegt getur talist. Einnig má finna dæmi um hið gagnstæða. Því er lagt til að í stað þess að reikna út og birta meðalvexti banka og sparisjóða sem aðilar geta notað í viðskiptum sín á milli verði Seðlabankanum falið að birta vexti sem taka mið af lægstu vöxtum nýrra útlána viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, þ.e. þeim vöxtum sem lánastofnanir bjóða lánþegum sem þeir telja trausta. Ekkert er því til fyrirstöðu að samið sé um tiltekið frávik frá þessum vöxtum eftir aðstæðum hverju sinni.
     *      Lagt er til að fellt verði brott ákvæði vaxtalaga um að sé samið um breytilega vexti í samræmi við hæstu lögleyfða vexti eða hæstu vexti á markaðnum á hverjum tíma skuli miðað við hæstu gildandi vexti af hliðstæðum lánum sem eru í almennri notkun hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og þeir eru á hverjum tíma. Fyrir þessu eru tvenn rök. Í fyrsta lagi ríkir samningsfrelsi um vexti og því engir hæstu lögleyfðu vextir til. Þessi hugtakanotkun er því í reynd ekki í samræmi við raunveruleikann. Í öðru lagi þykir eðlilegt að hvetja aðila á markaðnum til að semja um vexti sín á milli en nota ekki almennar viðmiðanir við vexti sem lánastofnanir bjóða þegar um er að ræða áhættusama lánveitingu að þeirra mati.
     *      Lagt er til að vextir af skaðabótakröfum verði hækkaðir frá því sem nú gildir, þ.e. úr vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá bönkum og sparisjóðum í tvo þriðju hluta þeirra vaxta sem Seðlabankinn ákveður og birtir með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum. Miðað við núverandi vaxtastig mundi þessi tillaga frumvarpsins leiða til þess að vextir af skaðabótakröfum hækkuðu úr 1,4% í u.þ.b. 9%.
     *      Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Með 6. gr. laga nr. 67/1989 var bætt við vaxtalög kafla um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða, IV. kafla (17.–19. gr.). Starfsemi stærstu sjóðanna var stokkuð upp með sameiningu fjögurra sjóða í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (nú Íslandsbanki-FBA hf.) og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Flestir fjárfestingarlánasjóðir lúta nú sömu reglum og viðskiptabankar og sparisjóðir, sbr. lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þeir mega þó ekki taka við innlánum. Því þykir óeðlilegt að sérákvæði gildi um vaxtakjör fjárfestingarlánasjóða.
     *      Loks er lagt til að misneytingarákvæði vaxtalaga og ákvæði um endurgreiðslu á ofteknum vöxtum verði að mestu fellt brott. Ákvæði þessi eiga rætur sínar að rekja til þess tíma þegar ekki ríkti frjálsræði í samningum um vexti. Þörf fyrir ákvæðin nú þegar frelsi í samningum um vexti hefur fest sig í sessi er því lítil. Hafa ber í huga að hið almenna misneytingarákvæði 253. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, á við um samninga um vexti. Þá ber að hafa í huga að lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, taka til þessara samninga.

V.

    Í frumvarpinu eru ekki lagðar til meginbreytingar á stefnu stjórnvalda í verðtryggingarmálum. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að verðtryggja sparifé og lánsfé sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs og Seðlabankinn geti ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.
    Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftirfarandi:
     *      Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður.
     *      Tekið er af skarið um að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði laganna og að í skuldaskjölum sé heimilt að miða við vísitölur sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi með sama hætti og vísitala neysluverðs.
     *      Seðlabankanum verður heimilt en ekki skylt að ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.
     *      Ákvæði 25. gr. vaxtalaga um hvað gera skuli við skuldbindingar sem tengdar eru lánskjaravísitölu verður flutt í bráðabirgðaákvæði.
     *      Ákvæði 24. gr. vaxtalaga um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda er tekið út úr vaxtalögum en sett þess í stað í lög nr. 113/ 1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Þessi grein afmarkar gildissvið laganna. Ákvæði 1. mgr. samsvarar að mestu 1. og 2. gr. gildandi vaxtalaga, en til áréttingar skal tekið fram að lögin taka einnig til dráttarvaxta. Það skal tekið fram að lög um vexti og verðtryggingu eru almenn lög og er ekki ætlað að raska ákvæðum sérlaga um vexti.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að lögin taki einnig til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár og er það í samræmi við þá breytingu sem gerð var á vaxtalögum með lögum nr. 13/1995.

Um 2. gr.

    Í þessari frumvarpsgrein kemur fram hvaða ákvæði frumvarpsins eru frávíkjanleg. Skýrt er kveðið á um það að ákvæði II. kafla um almenna vexti og IV. kafla um vexti af skaðabótakröfum séu frávíkjanleg. Þá verður einnig vikið frá öðrum ákvæðum laganna eins og þar segir, en hér er átt við 6. og 12. gr. frumvarpsins. Frumvarpsgreinin kemur í staðinn fyrir 3. gr. gildandi vaxtalaga, en þar segir að ákvæði II. og III. kafla laganna um ákvörðun vaxta gildi því aðeins að ekki leiði annað af lögum, samningum eða venju. Í réttarframkvæmd hefur ríkt nokkur óvissa um það að hvaða leyti ákvæði vaxtalaganna séu frávíkjanleg. Ákvæðið hefur þó verið skýrt svo að ýmsar takmarkanir séu á heimildum til að semja á annan veg en reglur III. kafla laganna um dráttarvexti mæla fyrir um. Þannig hefur verið talið að ekki mætti víkja frá reglum kaflans um hæð dráttarvaxta, né heldur um upphafstíma þeirra eða vaxtavexti, ef þeir samningar væru skuldara í óhag.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að breyta þessu réttarástandi. Þykir því rétt að gera nánar grein fyrir því að hvaða leyti ætlast er til að lögin séu frávíkjanleg. Með 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins er að því stefnt að heimilt sé að semja um hæð dráttarvaxta, enda þótt þeir séu hærri en dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður skv. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Slíkur samningur um dráttarvexti felur í sér heimild til handa aðilum að semja um hvort heldur er hærri eða lægri dráttarvexti en Seðlabanki Íslands ákveður. Er miðað við fullt samningsfrelsi aðila í þessum efnum með þeim takmörkunum sem leiðir af sjálfu ákvæðinu. Auk þess sætir frelsið að sjálfsögðu þeim almennu takmörkunum sem leiða af III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og VII. kafla frumvarps þessa.
    Eins og fyrr segir hefur verið óvissa um það hvaða hömlur séu á frelsi til að semja um vexti og dráttarvexti. Telja verður að ekki sé ástæða til að takmarka heimildir til að semja um almenna vexti, hvorki hæð þeirra né vaxtatímabil. Eðlilegt er að hið sama gildi um dráttarvexti skv. III. kafla með þeim takmörkunum sem leiða af 6. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. eru ákvæði sem fela efnislega í sér sömu reglu og fram kemur í 4. gr. gildandi vaxtalaga og þarfnast ekki sérstakra skýringa. Rétt þykir að hafa afdráttarlaust ákvæði um að vexti skuli greiða frá og með stofndegi peningakröfu.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að í stað 5. og 6. gr. gildandi vaxtalaga komi ein grein. 5. gr. laganna hljóðar svo, sbr. 1. gr. laga nr. 67/1989:
    „Þegar samið er um vexti af peningakröfu, en hundraðshluti þeirra ekki tiltekinn, skulu vextir frá því að til skuldar er stofnað vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.“
    6. gr. laganna er svohljóðandi:
    „Sé samið um breytilega vexti í samræmi við hæstu lögleyfða vexti eða hæstu vexti á markaðnum á hverjum tíma skal miða við hæstu gildandi vexti af hliðstæðum lánum sem eru í almennri notkun hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og þeir eru á hverjum tíma.“
    Í frumvarpsgreininni er vísað til lánastofnana í einu lagi, en með lánastofnunum er hér annars vegar átt við viðskiptabanka og sparisjóði samkvæmt lögum nr. 113/1996 og hins vegar aðrar lánastofnanir en viðskiptabanka og sparisjóði samkvæmt lögum nr. 123/1993.
    Í greininni er lagt til að þegar samningsaðilar tilgreina ekki vaxtafót verði miðað við vexti sem Seðlabankinn birtir. Skulu þeir taka mið af lægstu vöxtum af nýjum almennum útlánum hjá lánastofnunum en ekki veginni meðalársávöxtun slíkra útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og verið hefur. Fyrrgreindu vextirnir eru lægri en þeir síðarnefndu. Rétt er að benda á að einungis í undantekningartilvikum reynir á þetta ákvæði vaxtalaga. Reynslan er sú að yfirleitt er einhver vaxtafótur tilgreindur, ef á annað borð er áskilið að krafa beri vexti.
    Í almennum athugasemdum við lagafrumvarpið hefur verið rakið að meðalávöxtun af nýjum útlánum viðskiptabanka og sparisjóða sé að ýmsu leyti óheppileg viðmiðun fyrir vexti af peningakröfu þegar enginn sérstakur hundraðshluti er tiltekinn. Í fyrsta lagi hefur orðið æ erfiðara fyrir Seðlabankann að velja vogir til að reikna út meðalvexti eftir því sem kjörvaxtakerfi banka og sparisjóða hefur orðið fjölbreytilegra. Í öðru lagi eru við útreikning á þessum meðalvöxtum notaðir allir vextir af skuldabréfalánum banka og sparisjóða, þ.e. lánum á lágum vöxtum til traustra aðila með góðar tryggingar og lánum á háum vöxtum til aðila með lakari tryggingar og allir vextir þar á milli. Þessir meðalvextir eru síðan notaðir í ríkum mæli í samningum manna á milli utan bankakerfisins án þess að tillit sé tekið til mismunandi aðstæðna lántakenda. Þetta getur þýtt að aðilar sem taka lán utan bankakerfisins með góðum tryggingum greiða í raun hærri vexti en eðlilegt getur talist. Einnig má finna dæmi um hið gagnstæða. Því er lagt til að í stað þess að reikna út og birta meðalvexti banka og sparisjóða sem aðilar geta notað í viðskiptum sín á milli verði Seðlabankanum falið að birta vexti sem taka mið af lægstu vöxtum nýrra útlána viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Ekkert er því til fyrirstöðu að samið sé um tiltekið frávik frá þessum vöxtum eftir aðstæðum hverju sinni. Með þessum hætti eru aðilar hvattir til að semja um ákveðna vexti sín á milli en nota ekki án umhugsunar almenna viðmiðun við vexti á markaðnum, svo sem meðalvexti eða hæstu vexti.
    Lægstu vextir samkvæmt þessari grein munu að öllum líkindum verða svipaðir kjörvöxtum viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana (einkum fjárfestingarbanka), en það eru vextir til traustustu viðskiptavina. Síðla árs 2000 eru kjörvextir óverðtryggðra skuldabréfalána viðskiptabanka og sparisjóða 13,65% að meðaltali og 7,45% að meðaltali af verðtryggðum skuldabréfalánum. Þess er að vænta að aðilar semji almennt um tiltekið álag á þessa vexti, m.a. eftir því hvaða tryggingar lántakandi setur fyrir greiðslu skuldarinnar. Meðalvextir af nýjum almennum óverðtryggðum skuldabréfalánum viðskiptabanka og sparisjóða, sem eru núgildandi viðmiðunarvextir vaxtalaga fyrir óverðtryggðar peningakröfur og mikið notaðir í viðskiptum utan bankakerfisins, voru 3,6% hærri en kjörvextir viðskiptabanka og sparisjóða á árinu 2000. Hvað verðtryggð skuldabréfalán varðar var þessi vaxtamunur 2,3%.
    Í þessari frumvarpsgrein er tekið svo til orða að við ákvörðun vaxta beri Seðlabankanum að hafa hliðsjón af lægstu vöxtum á almennum verðtryggðum og óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Þykir rétt að tryggja Seðlabankanum ákveðinn sveigjanleika við ákvörðun vaxta, m.a. vegna þess að kjörvaxtakerfi lánastofnana eru mismunandi og sífellt í mótun. Séu t.d. lægstu útlánsvextir (kjörvextir) einhverrar lánastofnunar ekki notaðir í lánssamningum er ekki rétt að láta þá hafa áhrif á þá viðmiðunarvexti sem Seðlabankinn ákveður samkvæmt þessari grein.

Um 5. gr.

    Þessi frumvarpsgrein kemur í stað 9. gr. gildandi vaxtalaga og er að mestu leyti samhljóða.
    Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram efnislega sama regla og 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989.
    2. mgr. er samhljóða 2. mgr. 9. gr. vaxtalaga.
    3. mgr. greinarinnar kemur í stað 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga og er samhljóða nema að því leyti að við það er miðað í 1. málsl. að kröfuhafi verði að hafa krafið skuldara „með réttu“ um greiðslu. Þetta ákvæði er sett til áréttingar því að kröfuhafi getur ekki krafist dráttarvaxta nema sá tími sé kominn að hann geti krafið skuldara um greiðslu og að kröfuhafi hafi að fullu efnt sínar skyldur.
    Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram efnislega sama regla og er í 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989. Orðalaginu hefur verið breytt þannig að í greininni segir að dráttarvexti skuli greiða frá og með þeim degi er mál telst höfðað til innheimtu í stað þess sem nú segir að dráttarvexti skuli greiða frá þeim tíma er mál telst höfðað. Nákvæmara þykir að taka skýrt fram í ákvæðinu að miðað sé við ákveðinn dag.

Um 6. gr.

    Greinin felur í sér veigamiklar breytingar frá 10. gr. gildandi vaxtalaga um hæð dráttarvaxta. Í 10. gr. vaxtalaga segir að dráttarvextir skuli ákveðnir af Seðlabanka Íslands sem ársvextir með þeim hætti að hlutfallið milli dráttarvaxta, að viðbættri tölunni 100, og ávöxtunar nýrra almennra útlána, að viðbættri tölunni 100, sé á bilinu 1,02 til 1,06. Í stuttu máli er efni frumvarpsgreinarinnar þannig að í 1. mgr. er mælt fyrir um þá aðferð sem Seðlabankinn notar við ákvörðun og birtingu dráttarvaxta á peningakröfum í íslenskum krónum og lagðar til breytingar frá gildandi rétti. Þá er í 2. mgr. lagt til að aðilum verði veitt frelsi til að semja um dráttarvexti, annaðhvort sem fast álag ofan á svonefndan grunn dráttarvaxta eða sem fasta dráttarvexti.
    Breytingar þær sem hér eru lagðar til á ákvörðun dráttarvaxta sem Seðlabankinn birtir taka mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 35/2000/EB. Tilskipunin tekur einungis til viðskipta milli lögaðila, einyrkja og hins opinbera en ekki til viðskipta neytenda. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að útreikningur dráttarvaxta verði hinn sami fyrir allar peningakröfur í íslenskum krónum. Er það gert til að tryggja samræmi í réttarframkvæmd sem telja verður hagræði af.
    Í d-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar segir að dráttarvextir séu ákveðnir með þeim hætti að leggja saman gildandi vexti skammtímalána Seðlabanka Evrópu og vanefndaálag sem skal vera að lágmarki sjö hundraðshlutar. Ekki er tiltekið neitt hámark vanefndaálags. Í tilskipuninni er jafnframt gert ráð fyrir að hægt sé að semja um aðra dráttarvaxtaviðmiðun en kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 3. gr. Er það í samræmi við gildandi rétt í aðildarríkjum ESB að hægt sé að semja um dráttarvexti. Tilskipunin er því frávíkjanleg að þessu leyti. Ákvæði um dráttarvexti í aðildarríkjum ESB eru mjög mismunandi en almennt gildir þó að í lögum eru dráttarvextir fastákveðnir, annaðhvort ákveðinn fastur hundraðshluti eða ákveðin viðmiðun, svo sem vextir skammtímalána Seðlabanka. Þessir dráttarvextir gilda sé ekki um annað samið. Frá þessu eru nokkrar undantekningar, sem eru mismunandi eftir ríkjum.
    Um 1. mgr.
    Í 1. mgr. er lagt til að dráttarvextir, sem Seðlabankinn ákveður, verði samtala gildandi vaxta algengra skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana og ellefu hundraðshluta vanefndaálags. Með þessari tillögu er horfið frá því að nota meðalávöxtun nýrra almennra útlána viðskiptabanka og sparisjóða sem grundvöll dráttarvaxta, enda er hún ekki í samræmi við framangreinda tilskipun ESB. Þess í stað er vísað til gildandi vaxta algengra skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana, og þeir nefndir grunnur dráttarvaxta. Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Seðlabankinn birti þessa vexti, þ.e. grunn dráttarvaxta, í Lögbirtingablaði. Algengasta leiðin fyrir seðlabanka víða um lönd við að útvega hagkerfinu lausafé er að veita lánastofnunum skammtímalán. Má gera ráð fyrir að hentugt sé að miða við vexti slíkra lána þar eð líklega verður sú viðmiðun jafnan til staðar. Um þessar mundir eru það vextir í endurhverfum verðbréfakaupum Seðlabankans af lánastofnunum sem yrðu grunnur dráttarvaxta. Endurhverf verðbréfakaup hafa að undaförnu átt sér stað í vikulegum útboðum á þriðjudögum og tilkynnir Seðlabankinn lánastofnunum kjörin daginn áður. Í síðustu útboðum hefur ávöxtun verið 10,6% og lánstíminn 14 dagar.
    Það er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að formið sem Seðlabankinn notar við að veita lánastofnunum skammtímalán taki nokkrum breytingum í tímans rás. Því þykir ekki eðlilegt að fastsetja ákveðna vaxtaviðmiðun sem grunn dráttarvaxta heldur á að veita Seðlabankanum nokkurt svigrúm til að meta gildandi vexti algengra skammtímalána bankans til lánastofnana. Þess ber að geta að Seðlabankinn hefur mótað stjórntæki sín í samræmi við stjórntæki Seðlabanka Evrópu (ECB). Vextir í viðskiptum Seðlabankans við lánastofnanir geta hins vegar verið frábrugðnir vöxtum Seðlabanka Evrópu, enda taka skammtímavextir einstakra seðlabanka mið af ástandi í þjóðarbúskapnum og peningamálastefnu viðkomandi banka.
    Sé tekið mið af gildandi vöxtum algengra skammtímalána Seðlabankans til lánastofnana var grunnur dráttarvaxta samkvæmt greininni 10,6% haustið 2000. Að viðbættu 11% vanefndaálagi væru dráttarvextir 21,6%. Þar sem gert er ráð fyrir að dráttarvextir gildi óbreyttir í hálft ár í senn er líklega heppilegt fyrir viðskiptalífið að þeir séu slétt tala, í þessu tilviki t.d. 22%. Dráttarvextir skv. 10. gr. gildandi vaxtalaga voru hins vegar 23% síðla árs 2000. Sá hundraðshluti vaxta, ásamt framangreindum grunni dráttarvaxta, felur í sér 12,4% vanefndaálag Ekki þykir ástæða til að lögfesta að dráttarvextir skuli vera slétt tala þótt slík tala sé heppilegri alla jafna, eins og þegar hefur komið fram, þar eð brot úr prósenti skipta líka máli og hafa tiltölulega meiri þýðingu við lægra vaxtastig en nú er.
    Ekki er ólíklegt að með tímanum breytist hlutfallsleg afstaða almennra vaxta og vaxta algengra skammtímalána Seðlabankans við lánastofnanir. Eðlilegt er að við ákvörðun dráttarvaxta sé við það miðað að þeir séu hærri en hæstu algengu vextir sem þekktir eru á markaðnum, svo sem vextir yfirdráttarlána og vextir á greiðslukortareikningum. Því þykir rétt að Seðlabankinn fái svigrúm til að ákveða vanefndaálag með hliðsjón af vaxtarófi á markaðnum. Lagt er til að Seðlabankinn geti ákveðið vanefndaálag að lágmarki sjö hundraðshlutar og að hámarki 15 hundraðshlutar. Það þýðir að svigúm Seðlabankans til ákvörðunar dráttarvaxta miðað við 10,6% grunn væri á bilinu 17,6–25,6%. Það er heldur meira svigrúm en bankinn hefur um þessar mundir. Ávöxtun nýrra almennra útlána skv. 10. gr. vaxtalaga var metin 18% af Seðlabankanum haustið 2000. Miðað við þau vikmörk sem kveðið er á um í greininni getur Seðlabankinn ákveðið dráttarvexti á bilinu 20,4–25,1%.
    Í 3. málsl. segir að Seðlabankinn skuli birta dráttarvexti eigi skemur en viku fyrir gildistökudaga dráttarvaxta sem skulu vera 1. janúar og 1. júlí ár hvert.
    Um 2. mgr.
    Samkvæmt 2. mgr. er aðilum heimilt að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta eða fasta dráttarvexti með fyrirframákveðnum hundraðshluta. Samningsfrelsi þetta sætir þeim takmörkunum að aðilar geta ekki samið um aðferðina við ákvörðun dráttarvaxta heldur verður hún lögákveðin verði frumvarp þetta að lögum. Frumvarpið gengur því ekki jafnlangt og framangreind tilskipun ESB. Ef ekki er samið um vanefndaálag gilda þeir dráttarvextir sem Seðlabankinn ákveður skv. 1. mgr. Þó er ekki heimilt að semja um vanefndaálag af neytendalánum en neytendalán taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög nr. 121/1994, um neytendalán.
    Rökin fyrir því að ekki er kveðið á um fullt frelsi til að semja um dráttarvexti eru einkum tvenn. Í fyrsta lagi eru það varfærnissjónarmið. Aðrar og strangari reglur um ákvörðun dráttarvaxta en í nágrannaríkjum hafa gilt hér á landi um langa hríð. Regla 10. gr. vaxtalaga fól á sínum tíma í sér mikla réttarbót. Hún er einföld í notkun og hefur ekki valdið teljandi erfiðleikum í réttarframkvæmd. Með frumvarpinu er stigið stórt skref til dráttarvaxtafrelsis en ekki þykir rétt að leggja til að skrefið sé stigið til fulls á þessu stigi. Í öðru lagi er mikið réttarfarshagræði fólgið í því að aðferð við ákvörðun dráttarvaxta sé fastákveðin í lögum. Ef grunnur dráttarvaxta væri breytilegur og færi ekki eftir opinberlega birtum vöxtum þyrfti að tilgreina vaxtahæð á hverjum tíma auk álags við kröfugerð í dómsmálum. Þetta mundi innleiða aftur það réttarástand, sem var fyrir gildistöku vaxtalaga árið 1987, að kröfugerð í dómsmálum varð oft og tíðum mjög umfangsmikil. Kröfum um peningagreiðslu fylgdu langar vaxtarunur með breytilegri vaxtahæð. Þetta leiddi til aukinnar vinnu lögmanna við samningu stefna og eftir atvikum einnig greinargerða. Hið sama gilti um dómara sem semja þurftu dóma og taka afstöðu til þess hvort sú vaxtahæð sem tilgreind var á hverjum tíma væri rétt og svo semja dóm um niðurstöður sínar. Það átti einnig við um lögmenn og sýslumenn þegar semja þurfti og taka afstöðu til beiðni um aðför til tryggingar peningakröfum og einnig við beiðni um nauðungarsölu og úthlutun uppboðsandvirðis. Af þessum sökum er í frumvarpinu lagt til að frelsi til að semja um dráttarvexti að ákveðnu marki verði komið á en jafnframt tryggt réttaröryggi og einfaldleiki í framkvæmd.

Um 7. gr.

    1. málsl. 7. gr. frumvarpsins er í samræmi við 13. gr. vaxtalaga. Í 2. málsl. er nýtt ákvæði. Rétt þykir að taka af allan vafa um að ekki skuli reikna dráttarvexti á meðan skuldari neytir vanefndaúrræða eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar, en túlkun núgildandi ákvæðis með tilliti til þessa hefur verið nokkuð á reiki. Er núgildandi vaxtalög voru sett sagði í athugasemdum við 13. gr. í greinargerð með frumvarpi til laganna að beita ætti reglunni þegar „skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda, eftir atvikum fyrirsjáanlegra vanefnda, kröfuhafa“. Jafnframt sagði að gert væri ráð fyrir að vaxtagreiðslur féllu niður með öllu meðan á slíkum viðtökudrætti stæði og að ekki væri rétt að leggja þá skyldu á skuldara að leggja féð inn á geymslureikning þótt við féð bættust nokkrir bankavextir kröfuhafa til handa (Alþt. 1986–1987, A-deild, bls. 284). Dómstólar hafa hins vegar dæmt skuldara sem haldið hefur að sér höndum um greiðslu vegna vanefnda kröfuhafa til að greiða dráttarvexti af umræddri fjárhæð frá gjalddaga. Úr dómaframkvæmd má t.d. nefna tilvik þegar kaupandi fasteignar hefur haldið að sér höndum um greiðslu, þ.e. beitt stöðvunarrétti sínum, sbr. t.d. Hrd. 1994. 2057, Hrd. 1995. 2712, Hrd. 1996. 1236, Hrd. 1996. 2915 og Hrd. 1996. 3093. Tilgangurinn með 2. málsl. 7. gr. frumvarps þessa er því að breyta framkvæmd þessarar reglu á þann veg að verði greiðslufall skuldara vegna þess að hann neytir lögmætra vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafanum skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum valdi atvik, sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt, því að greiðsla fer ekki fram.

Um 8. gr.

    Í 7. gr. vaxtalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, segir að vextir af kröfum um skaðabætur skuli á hverjum tíma vera jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Í athugasemdum við greinina í frumvarpinu sem varð að vaxtalögum segir að þessi viðmiðun sé valin í trausti þess að vextirnir fylgi nokkurn veginn verðbólgu. Hræringar í vaxtamálum undanfarin missiri hafa leitt til þess að lánastofnanir leggja æ meiri áherslu á sérkjarareikninga, ýmist óbundna eða bundna. Eru almennir óbundnir sparisjóðsreikningar mjög á undanhaldi. Vegið meðaltal vaxta af óbundnum sparisjóðsreikningum er um þessar mundir 1,4% sem er lægra en verðbólga. Reynslan sýnir að þessir vextir eru yfirleitt lægri en verðbólga og næstlægstu vextir í bankakerfinu. Aðeins vextir af tékkareikningum eru lægri.
    Ef vextir af skaðabótakröfum samkvæmt vaxtalögum eru bornir saman við vexti af skaðabótakröfum skv. 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1999, sést að vextir samkvæmt síðarnefndu lögunum eru töluvert hærri. Tilvitnað ákvæði skaðabótalaga er sérregla er tekur til þess tjóns sem þar greinir. Í 1. mgr. 16. gr. segir að bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og missi framfæranda beri vexti frá því að tjón varð. Bætur fyrir varanlega örorku beri vexti frá upphafsdegi metinnar örorku skv. 5. gr. laganna. Vextirnir skulu nema 4,5% á ári. Í 2. mgr. 16. gr. segir að um dráttarvexti fari eftir reglum vaxtalaga.
    Bætur skv. 16. gr. skaðabótalaga eru verðtryggðar eftir því sem nánar segir í 15. gr. laganna. Regla 16. gr. leiðir til þess að vextir leggjast á verðbættan höfuðstól bótanna frá þeim tíma að tjón varð. Eins og áður segir eru bætur þær sem vextirnir, 4,5% á ári, taka til verðtryggðar og vaxtafóturinn valinn með hliðsjón af því. Með lögum nr. 42/1999 voru vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga hækkaðir úr 2% í 4,5%. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 42/1999 sagði um breytingu þessa að lagt væri til að vextir skv. 16. gr. yrðu þeir sömu og miðað væri við í afvöxtunarforsendu margfeldisstuðulsins skv. 6. gr., þ.e. 4,5% á ári. Í margfeldisstuðli 6. gr., sem lagður er til grundvallar við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, eru áætlaðar bætur til framtíðar afvaxtaðar þannig að tekið er tillit til þeirrar ávöxtunar sem tjónþoli er talinn eiga kost á til framtíðar.
    Af framansögðu má ljóst vera að vaxtaákvörðun skaðabótalaga tekur mið af sérreglum varðandi uppgjör bóta samkvæmt skaðabótalögum.
    Fullyrða má að vextir á skaðabótakröfur skv. 7. gr. vaxtalaga séu of lágir og nauðsyn beri til að hækka þá. Lagt er til að almennir vextir á skaðabótakröfur sem falla undir lögin verði jafnir tveimur þriðju hlutum vaxta skv. 1. málsl. 4. gr. Undir lögin falla skaðabætur innan samninga og þær skaðabætur utan samninga sem ekki falla undir skaðabótalög, nr. 50/1993, með síðari breytingum, en undir síðarnefndu lögin falla skaðabætur vegna þjáninga, varanlegs miska, tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku og bætur fyrir missi framfæranda.
    Fyrir gildistöku laga nr. 67/1989, um breyting á vaxtalögum, voru vextir af skaðabótakröfum hinir sömu og vegið meðaltal af almennum útlánum. Telja verður ósanngjarnt að sá sem á skaðabótakröfu en getur af einhverjum ástæðum ekki fylgt henni fram, þ.e. gjalddagi hennar í skilningi laganna er ekki kominn, þurfi að sæta því að fá ekki nema sparisjóðsvexti á kröfu sína. Eðlilegt er að tjónvaldur greiði hærri vexti. Tveir þriðju hlutar vaxta skv. 1. málsl. 4. gr. eru nú um 9%, þ.e. 2/ 3 af 13,7%. Til samanburðar má geta þess að bankar og sparisjóðir bjóða ýmsa sérkjarareikninga með rúmlega 10% ársvöxtum. Til að ná þeim kjörum þarf að uppfylla tiltölulega væg skilyrði, svo sem að innstæða sé óhreyfð í 7–10 daga og að lágmark innstæðu sé 200–500 þús. kr.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er regla sem er samhljóða 2. málsl. 7. gr. vaxtalaga. Hún þarfnast því ekki skýringa.
    Í frumvarpsgreininni er ekki sérstaklega mælt fyrir um höfuðstólsfærslu vaxta af skaðabótakröfum, enda leiðir það af 12. gr. frumvarpsins að slíkt er heimilt, en sú grein tekur til allra vaxta samkvæmt frumvarpinu. Í þessu sambandi skal þess getið að í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga er tekið fram að leggja beri vexti við höfuðstól árlega (Alþt. 1992–1993, A-deild, bls. 3656). Ekki verður ráðið af skýringum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/1999 að ætlunin hafi verið að breyta þessu (Alþt. 1998–1999, A-deild, bls. 1299). Vextir þeir sem miðað er við, meðaltal óverðtryggðra útlána, eru ákvarðaðir með tilliti til þess, að slíkir vextir séu a.m.k. greiddir árlega, en í því felst sambærileg ávöxtun og ef vextir eru lagðir við höfuðstól á sama tíma. Þykir rétt að teknu tilliti til þessa og til að tryggja eftir því sem unnt er skaðleysi tjónþola að miða við að ógreiddir vextir af skaðabótakröfum leggist við höfuðstól árlega og myndi þannig nýjan höfuðstól til útreiknings vaxta, eins og ráð er fyrir gert í 12. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Greinin byggist á 15. gr. vaxtalaga. Í tilvísun til 1. mgr. 6. gr. felst að dráttarvextir skuli vera samtala vaxta skv. 6. gr. laganna og ákveðins hundraðshluta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands. Vert er að vekja athygli á því að bætt hefur verið við niðurlag greinarinnar orðunum „ef sérstaklega stendur á“. Þessi orð eru til áréttingar því að einungis skuli beita þessu ákvæði í undantekningartilvikum, en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir of víðtæka túlkun á því. Er á því hnykkt að aðeins sé heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að hreyfa við upphafstíma dráttarvaxta á skaðabótakröfur.

Um 10. gr.

    Samkvæmt 8. gr. vaxtalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 67/1989, ber viðskiptabönkum og sparisjóðum að tilkynna Seðlabankanum án tafar um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi sem bankinn krefst. Jafnframt ber verðbréfafyrirtækjum að tilkynna bankanum um breytingar á ávöxtunarkröfu verðbréfasjóða og eignarleigufyrirtækjum um breytingar á eignarleigukjörum. Í greininni er ekki tekið fram að slíkum upplýsingum þurfi að skila til Seðlabankans með ákveðnum fyrirvara. Sú venja hefur skapast að viðskiptabankar og sparisjóðir breyta vöxtum einungis 1., 11. og 21. dag mánaðar og áformaðar breytingar eru tilkynntar Seðlabankanum daginn áður en þær taka gildi.
    Í 13. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eru afdráttarlaus ákvæði um skyldu aðila til að veita bankanum upplýsingar um atriði er varða hlutverk hans. Þrátt fyrir þetta almenna ákvæði þykir eðlilegt að í vaxtalögum séu ákvæði um skyldu aðila til að upplýsa Seðlabankann um vaxtakjör sín, enda skipta slíkar upplýsingar sköpum fyrir framkvæmd annarra ákvæða vaxtalaga.
    Í þessari grein frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar frá ákvæðum 8. gr. vaxtalaga. Í fyrsta lagi er lagt til að upplýsingaskylda um vexti nái til annarra lánastofnana auk viðskiptabanka og sparisjóða. Hingað til hafa þær almennt ekki þurft að veita Seðlabankanum upplýsingar um vaxtakjör sín með sama hætti og viðskiptabankar og sparisjóðir. Eignarleigufyrirtæki falla einnig undir hugtakið lánastofnun þannig að þeim ber áfram skylda til að upplýsa Seðlabankann um vaxtakjör sín. Hins vegar er lagt til að skylda til að upplýsa um ávöxtunarkröfu verðbréfasjóða falli brott, enda hafa þær upplýsingar ekkert gildi fyrir framkvæmd vaxtalaga. Þó skal tekið fram að telji Seðlabankinn nauðsynlegt að afla slíkra upplýsinga getur hann að sjálfsögðu gert það á grundvelli 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands.
    Í öðru lagi er skýrt tekið fram að upplýsingar um vexti verði að liggja fyrir með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst. Eðli máls samkvæmt eru ákvarðanir um vaxtabreytingar yfirleitt ekki teknar með löngum fyrirvara og því eðlilegt að Seðlabankinn gæti hófs í kröfum sínum um fyrirvara tilkynninganna.
    Í þriðja lagi eru lagðar til grundvallarbreytingar á því ákvæði 8. gr. vaxtalaga er fjallar um birtingu Seðlabankans á vöxtum viðskiptabanka og sparisjóða. Samkvæmt gildandi ákvæði skal bankinn fyrir lok hvers mánaðar birta í Lögbirtingablaði öll almenn vaxtakjör þessara aðila. Eftir því sem kjörvaxtakerfi viðskiptabanka og sparisjóða hefur þróast á undanförnum árum og fjölbreytileiki vaxta aukist hafa þessar auglýsingar aukist. Jafnframt hefur orðið æ erfiðara að bera vexti einstakra viðskiptabanka og sparisjóða saman, svo sem vegna ólíkra skilmála innlánsreikninga og ólíkrar uppbyggingar kjörvaxtakerfa útlána. Leiða má að því líkur að auglýsingar sem þessar hafi verið gagnlegar fyrstu árin eftir að vextir voru gefnir frjálsir en að heldur hafi dregið úr gagnsemi þeirra á síðustu árum og missirum. Við framkvæmd núgildandi vaxtalaga hefur einungis birting meðalvaxta af óbundnum sparisjóðsreikningum (7. gr.), birting meðalvaxta af nýjum almennum skuldabréfalánum (5. gr.) og birting hæstu vaxta af almennum skuldabréfalánum (6. gr.) gildi. Þessir vextir gilda samkvæmt ákvæðum laganna næsta mánuð eftir að þeir eru birtir eða uns þeir eru birtir næst. Aðrir vextir eru eingöngu birtir til upplýsingar.
    Í stað þess að Seðlabankinn birti öll almenn vaxtakjör viðskiptabanka og sparisjóða er lagt til að lögfest verði að bankinn birti þá vexti sem gildi hafa við framkvæmd laganna. Auk þess getur bankinn að sjálfsögðu birt aðra vexti viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem hann telur rétt að birtir séu opinberlega en sérstaklega er kveðið á um það í 3. mgr. Þá er einkum haft í huga að birting tiltekinna vaxta verði til að stuðla að betri vaxtamyndun á lánsfjármarkaði. Rétt er að vekja athygli á því að í 2. mgr. 8. gr. vaxtalaga er kveðið á um að birta skuli vaxtakjör sparisjóðanna sameiginlega. Skv. 52. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, er Sparisjóðabanka Íslands hf. heimilt að leggja fyrir sparisjóðina leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld, enda brjóti slíkt ekki í bága við ákvæði samkeppnislaga. Hver einstakur sparisjóður ákveður síðan sjálfur vexti og þjónustugjöld sín. Með hliðsjón af þessu er lagt til að fellt verði niður núgildandi ákvæði um sameiginlega birtingu á vaxtakjörum sparisjóðanna.
    Lokamálsliður 2. mgr. þessarar greinar frumvarpsins er nýjung. Nauðsynlegt þykir að fyrir liggi með aðgengilegum hætti upplýsingar um þá vexti sem Seðlabankanum ber að birta samkvæmt vaxtalögum. Því er lagt til að í upphafi hvers árs birti Seðlabankinn í Stjórnartíðindum töflu er sýni eftirtalda vexti eins og þeir voru á hverjum tíma á næstliðnu ári:
     1.      Lægstu vextir af óverðtryggðum peningakröfum skv. 4. gr.
     2.      Lægstu vextir af verðtryggðum peningakröfum skv. 4. gr.
     3.      Vextir af skaðabótakröfum skv. 8. gr.
     4.      Grunnur dráttarvaxta skv. 6. gr.
     5.      Vanefndaálag skv. 6. gr.
     6.      Dráttarvextir, þ.e. samtala grunns dráttarvaxta og vanefndaálags, skv. 6. gr.

Um 11. gr.

    Greinin á sér fyrirmynd í 14. gr. vaxtalaga, sbr. 5. gr. laga nr. 67/1989, sem felur í sér heimild til að dæma dráttarvexti þótt hundraðshluti vaxta sé ekki tilgreindur í stefnu. Eðlilegt þykir að kveða á um sambærilega reglu vegna almennra vaxta og nú gildir um dráttarvexti.
    Í 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eru fyrirmæli um hvað koma þurfi fram í stefnu. Í d-lið ákvæðisins kemur fram að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má „dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu ummæla, málskostnað o.s.frv.“
    Þetta ákvæði hefur verið skýrt svo að vextir eða dráttarvextir verði ekki dæmdir nema hæð þeirra sé tilgreind í stefnu, sbr. t.d. Hrd. 1983. 2200. Í gildandi vaxtalögum hefur verið það hagræði að dráttarvextir eru aðeins þeir sem í III. kafla laganna ræðir, sbr. 10. og 11. gr. Þannig hefur verið hægt að hafa reglu um heimild til að dæma dráttarvexti frá þeim tíma er mál telst höfðað með vísan til III. kafla vaxtalaga án þess að tilgreina vaxtafót, sbr. 14. gr. vaxtalaga.
    Eins og rakið er í almennum athugasemdum og skýringum við 2. og 6. gr. er með frumvarpi þessu stefnt að samningsfrelsi um dráttarvexti. Þó sætir samningsfrelsi aðila m.a. þeim takmörkunum sem settar eru í þessari frumvarpsgrein. Þannig er einungis heimild til að semja um dráttarvexti með því að bæta tilteknu vanefndaálagi ofan á grunn dráttarvaxta eins og hann er skilgreindur í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þó er ávallt heimilt að semja í einu lagi um hundraðshluta dráttarvaxta án þess að greina sérstaklaga milli grunns og vanefndaálags. Ástæða þessarar reglu er fyrst og fremst réttarfarshagræði en mikilvægt er að lögfestar séu ákveðnar aðferðir við slíka samninga svo að haga megi kröfugerð í dómsmálum með þeim hætti að ekki þurfi að tilgreina hæð vaxta á hverju tímabili. Það hefur verulega þýðingu að slíkt sé gert enda mundi annað leiða til aukinnar vinnu lögmanna, dómara og annarra sem fást við úrlausn ágreiningsefna um peningakröfur og auka hættu á mistökum. Er því lagt til að heimilað verði að semja um dráttarvexti með framangreindum hætti. Með þessu er veitt heimild til að semja um hærri dráttarvexti en leiðir af 2. mgr. 6. gr. en aðferðin er lögákveðin. Þannig er með frumvarpsgrein þessari stefnt að því að tryggja samræmi í framkvæmd og að ekki þurfi að tilgreina vaxtahæð á hverjum tíma í kröfugerð í dómsmálum.

Um 12. gr.

    Heimilt er skv. 12. gr. vaxtalaga að leggja áfallna dráttarvexti við höfuðstól skuldar og reikna nýja dráttarvexti af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en í 12 mánuði. Aldrei skal reikna slíka vaxtavexti oftar en á 12 mánaða fresti.
    Í þessari frumvarpsgrein er lagt til að sama regla gildi um höfuðstólsfærslu dráttarvaxta og gilt hefur skv. 12. gr. vaxtalaga. Jafnframt er lagt til að heimilt sé að höfuðstólsfæra almenna vexti án þess að kröfuhafi hafi gert sérstakan áskilnað um það. Í settum lögum er ekki að finna reglu sem mælir fyrir um það að almennir vextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, en í 12. gr. vaxtalaga er hins vegar kveðið ótvírætt á um þetta eins og fyrr segir. Sú regla að almennir vextir skuli ekki lagðir við höfuðstól kröfu nema það leiði af samningum, venju eða lagafyrirmælum var lengst af talinn gildandi réttur á Íslandi. Fullyrða má að nokkurt ósamræmi hafi verið í dómaframkvæmd um þetta atriði þar til Hæstiréttur tók með rökstuddum hætti af skarið um það að þetta væri heimilt í því máli, sbr. Hrd. 1996. 189.
    Með frumvarpi þessu er ætlunin að mæla ótvírætt fyrir um að aðalreglan verði sú að heimilt sé að leggja almenna vexti við höfuðstól kröfu við útreikning vaxta, nema það leiði af samningum venju eða lagafyrirmælum. Reglan er í fullu samræmi við meðferð lánastofnana á vöxtum því að þar er vöxtum ýmist bætt við höfuðstól á hverju ári (innlán) eða þeir gerðir upp (lán) sem jafngildir höfuðstólsfærslu þeirra. Þá er í greininni heimilað að vextir innlánsreikninga verði höfuðstólsfærðir oftar en á tólf mánaða fresti, enda þekkjast slík kjör og það gengi gegn hagsmunum innstæðueigenda að banna þau.
    Í 2. mgr. er lögfest sú regla sem víða tíðkast, að taldir séu 30 dagar í hverjum mánuði, þ.m.t. janúar og febrúar svo dæmi séu tekin. Aðrar reglur eru þekktar en þessi mundi gilda væri ekki um annað samið. Á svonefndum peningamarkaði þar sem lánstími getur verið mjög stuttur þykir til dæmis henta að telja dagana í samræmi við almanakið.

Um 13. og 14. gr.

    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengisvísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið takmarkaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Talið er að samningar með viðmiðun við gengisvístölu á grundvelli ákvæðisins í vaxtalögum séu mjög fáir. Í bráðabirgðaákvæði IV er kveðið á um hvernig farið skuli með innstæður og samninga af þessu tagi sem þegar eru í gildi.
    Í 2. mgr. er nýmæli. Frá því að verðtrygging var almennt heimiluð með setningu „Ólafslaga“ 1979 hafa orðið miklar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði og í gjaldeyrismálum. Ný sparnaðar- og lánsform hafa komið til sögunnar og gjaldeyrisviðskipti hafa verið gefin frjáls. Þá hefur litið dagsins ljós ný tegund fjármálasamninga, afleiður (e. derivatives), sem notaðir eru til að draga úr þeirri áhættu sem felst t.d. í tiltekinni verðbréfaeign, kröfueign eða útistandandi skuldum eða keyptir í þeirri von að hagnast á markaðssveiflum. Hér má nefna samninga um vaxtaskipti, gjaldmiðlaskipti og valrétt og ýmiss konar framvirka samninga, svo sem um gjaldmiðla. Allar þessar breytingar vekja upp spurningar um gildissvið og gagnsemi opinberra reglna um verðtryggingu fjárskuldbindinga.
    Nefndin sem samdi frumvarpið var þeirrar skoðunar að opinberar reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga þjónuðu fyrst og fremst þeim tilgangi að verja almennt sparifé og lánsfé landsmanna fyrir rýrnun af völdum innlendrar verðbólgu eins og hún er venjulega mæld, þ.e. sem meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu. Reglunum hefði ekki verið ætlað að hindra eðlilega þróun á fjármagnsmarkaði. Vegna eðlis afleiðusamninga og annarra fjármálasamninga af því tagi má ljóst vera að þeir falla ekki undir ákvæði laganna. Hið sama gildir um viðmiðun skuldaskjala við hlutabréfavísitölu eða aðra slíka vísitölu sem ekki verður talin verðvísitala í sama skilningi og vísitala neysluverðs. Af þessum sökum er tiltekið í 2. mgr. að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði laganna. Afleiðusamningar eru skilgreindir í lögum um verðbréfaviðskipti.

Um 15. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 21. gr. vaxtalaga að öðru leyti en því að í stað skyldu til að ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána er lagt til að Seðlabankinn fái heimild til að setja slíkar reglur.
    2. mgr. er samhljóða 23. gr. vaxtalaga.

Um 16. gr.

    Greinin tekur mið af 22. gr. vaxtalaga.

Um 17. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að brot á lögunum varði sektum eða fangelsi allt að einu ári nema það varði þyngri refsingu samkvæmt öðrum lögum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við lagafrumvarpið er lagt til að misneytingarákvæði VI. kafla núgildandi vaxtalaga verði felld brott. Ákvæði þessi eiga rætur sínar að rekja til þess tíma þegar ekki ríkti frjálsræði í samningum um vexti. Hagnýt þýðing ákvæðanna nú, þegar frelsi í samningum um vexti hefur fest sig í sessi, er því lítil. Í 25. gr. gildandi vaxtalaga er regla sem mælir fyrir um sektir eða fangelsi allt að einu ári fyrir þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra til að áskilja sér vexti eða annað endurgjald umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á þeim tíma sem til skuldar er stofnað. Reglan samkvæmt vaxtalögunum er því sú að heimilt er að semja um hærri vexti en hin svonefndu gildandi vaxtamörk eru, en sé það gert á þeim huglægu forsendum sem mælt er fyrir um í ákvæðinu er það refsivert. Í raun eru engin skýr vaxtamörk samkvæmt lögunum, a.m.k. er mjög hæpið að þau mörk séu svo áþreifanleg að þau séu heppileg viðmiðun um hvenær háttsemi er refsiverð og hvenær ekki.
    Tilvist þessa ákvæðis í vaxtalögunum verður að skoða í ljósi þess að verið var í fyrsta sinn í lögum í langan tíma að veita frelsi til að semja um almenna vexti. Það var því ekki óeðlilegt að í lögunum væri sérstakt refsiákvæði sem ætti við þegar menn misnotuðu frelsið. Í skýringum á þessu ákvæði í frumvarpi því sem síðar varð að vaxtalögum sagði m.a. að markmiðið með ákvæðinu hefði verið að veita bæði lánastofnunum og almenna lánamarkaðnum hæfilegt svigrúm til athafna og þróunar en veita lántakendum jafnframt viðunandi vernd (Alþt. 1986– 1987, A-deild, bls. 2849). Hagnýt not þessa ákvæðis hafa hins vegar verið óveruleg. Hafa ber í huga að misneytingarákvæði 253. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, veitir refsivernd á þessu sviði sem öðrum. Samanburður á refsiskilyrðum misneytingarákvæða vaxtalaga (okurs) og misneytingarákvæðis 253. gr. almennra hegningarlaga leiðir þó í ljós að misneytingarákvæði 25. gr. vaxtalaga gerir ráð fyrir ásetningi eða stórfelldu gáleysi en 253. gr. almennra hegningarlaga gerir einungis ráð fyrir ásetningi, sbr. 18. gr. laganna. Engu að síður veður að telja að ákvæði 253. gr. almennra hegningarlaga veiti nægilega réttarvernd á þessu sviði.

Um 18. gr.

    Fyrri málsliður þessarar frumvarpsgreinar er samhljóða 1. málsl. 28. gr. gildandi vaxtalaga. Hér er mælt fyrir um það að teljist samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti ólögmætur sé sá samningur ógildur og hafi endurgjald verið greitt beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Þá segir að við ákvörðun endurgreiðslu skuli miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við geti átt.

Um 19. gr.

    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa. Rétt er þó að leggja áherslu á að frumvarpið felur ekki í sér afturvirkt frelsi til að ákveða dráttarvexti.

Um ákvæði til bráðabirgða I – III.

    Ákvæðin þarfnast ekki sérstakra skýringa. Í þeim er leitast við að taka á öllum þeim tilvikum sem upp geta komið þegar skipt er úr einni viðmiðun vaxtalaga yfir í aðra.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Ákvæðið tekur fyrst og fremst til innstæðna á krónureikningum í viðskiptabönkum og sparisjóðum sem verðtryggðir eru með þessum hætti (um 4 millj. kr. í júní 2000). Samkvæmt meginreglu frumvarpsins verður óheimilt að stofna nýja slíka reikninga. Þess er að vænta að viðskiptabankar og sparisjóðir bjóði eigendum þessara innstæðna að breyta þeim, t.d. í innstæður á gjaldeyrisreikningi. Til áréttingar er tekið fram í 3. málsl. að óheimilt sé að taka við nýjum innlánum á þá reikninga sem um ræðir, þ.e. reikninga sem stofnaðir hafa verið fyrir gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Ákvæðið er samhljóða 25. gr. gildandi vaxtalaga. Rétt er að vekja athygli á því að með breytingunni á vaxtalögum með lögum nr. 13/1995 leysti vísitala neysluverðs lánskjaravísitölu af hólmi frá og með 1. apríl 1995. Í þessu ákvæði frumvarpsins felst því ekki afturvirkni þótt svo mætti ætla þegar litið er til dagsetningarinnar í ákvæðinu.

Um ákvæði til bráðabirgða VI.

    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skal Seðlabankinn birta dráttarvexti eigi skemur en viku fyrir gildistökudaga dráttarvaxta sem eru 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Þar sem lögin taka gildi 1. júlí, eða sama dag og miðað er við að dráttarvextir taki gildi, er nauðsynlegt að mæla svo fyrir í bráðabirgðaákvæði að dráttarvexti skuli birta eigi skemur en viku fyrir gildistökudag laganna.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu.

    Frumvarpið fjallar um fyrirkomulag vaxtatöku á fjármagnsmarkaði og er því ætlað að tryggja réttaröryggi og einfalda framkvæmdina til samræmis við réttarþróun erlendis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.